24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Þetta frv, er svo til komið, að nýlega var stofnaður söfnuður í Laugarnessókn í Rvík og hefur hann ráðizt í að koma sér upp kirkju og er nú verkinu hrundið töluvert langt á leið. Eins og allir munu geta skilið, verður það ákaflega dýrt og erfitt fyrir söfnuðinn, sem er ekki fjölmennur, að standa straum af því. Söfnuðurinn hefur fengið heimild til happdrættis í þágu kirkjubyggingarinnar, og er aðeins einn vinningur, hús, sem mun kosta upp undir 100 þús. kr. En það sker úr um hagnað kirkjubyggingarinnar af þessu, hvort vinningurinn verður gerður skattfrjáls eða ekki. Ádráttur hefur fengizt um skattfrelsi hans, en til þess þarf lagaheimild. Meiri hl. n:, 4 af 5, mælir með frv. óbreyttu, en einn nm. hefur gert ágreining og skilað séráliti; sem hann mun gera nánari grein fyrir.