24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Það er sjálfsagt rétt, að ég geri grein fyrir sérstöðu minni í þessu máli í n., þótt flestir þm. gætu getið sér til um ástæður mínar. Þær eru tvær, fyrst hin almenna, að ég álít, að yfirleitt eigi ekki að leggja fé úr ríkissjóði til neinnar ákveðinnar guðsdýrkunar, og tel ekki fullkomið trúfrelsi í landinu, meðan menn eru knúðir til að leggja með sköttum fé til ákveðinna trúarstofnana. Þetta gildir allan þann styrk, sem ríkið veitir þjóðkirkjunni á Íslandi. Hin ástæðan er, að miklu meira aðkallandi verkefni kalla eftir fé hins opinbera og vinnuaflinu, bygging skóla, sjúkrahúsa o. s. frv. Ástandið í skólamálum er óviðunandi, og svo er vissulega í fleiri greinum, og meðan svo er, get ég með engu móti fallizt á að veita styrk úr ríkissjóði til hluta, sem ég álít eins óþarfa og kirkjubyggingar. Mér virðist þessar röksemdir hvorar tveggja eiga við, jafnt hvort sem menn játa nokkra trú eða enga, og það finnst mér þm. ættu að íhuga, áður en þeir greiða atkv. um málið.