24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði sannarlega búizt við, að hv. 5. þm. Reykv. (BrB) færði til önnur rök en fram komu. Ég hefði getað skilið, hefði hann sagt, að hvernig sem menn þéna fé, eigi þeir að greiða af því skatt. Hitt er ekki frambærilegt, að ekki megi vera einhver undantekning fyrir íslenzku kirkjuna, því að hún hefur á öllum öldum staðið svo framarlega í menningarmálum og mannúðarmálum, að menn verða að sjá það við hana í einhverju. Enginn færi að fórna 10 kr. fyrir happdrættismiða, ef hann héldi, að hann yrði svo óheppinn að fá 100 þús. eða 250 þús. kr. vinning og verða að greiða hann allan í skatta á næsta ári. Ég hefði viljað heyra á n., hvort hún hefur skilið þetta og hvort um stefnubreyting er að ræða hjá henni í skattamálum eða ekki. Ég vildi líka vita, hvort vinningurinn yrði með þessu aðeins undanskilinn tekjuskatti og útsvari, en ekki verðlækkunarskatti né stríðsgróðaskatti. Á þetta hefur ekki verið minnzt né heldur á eignaraukaskatt, sem kynni að verða samþ. síðar á þessu þingi. Ef þetta er ekki einnig tekið með í reikninginn, efast ég um, að sala happdrættismiða gangi neitt betur en orðið hefði án þessa frv. Þessu skýt ég til flm.