24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég gat um það áðan í ræðu minni, að öllum mundi kunnugt um það menningarstarf, sem íslenzk kirkja hefur unnið á öllum öldum. En auk þess hefur hún nú farið inn á nýtt svið, sem hún hefur ekki farið inn á áður og opna þarf augu sumra þm. fyrir. Hún er sem sé farin að berjast fyrir bættu skattafyrirkomulagi, og skal ég ekki segja um, hvaða menningarmál hún tekur fyrir næst.

Það, sem hefur komið fyrir, er það, að hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur orðið sér þess meðvitandi, hve langt hefur verið gengið í skattabrjálæðinu á undanförnum þingum, og hann mundi ekki láta sér detta í hug að standa hér upp og berjast fyrir, að þessi l. verði samþykkt, ef það þyrfti ekki samþykki þeirra til þess að geta tryggt sölu á þessum miðum. Það er ekki verið að hlífa þeirri ókunnu persónu, sem kann að verða svo heppin eða óheppin að hljóta þessa eign. Það er verið að gera þetta til þess að tryggja söluna. Þess vegna er það rétt, sem ég sagði áðan, að það vill enginn fórna 10 krónum, ekki þó að hann eigi von á 250 þúsund krónum ofan á sínar tekjur. Það þýðir ekki fyrir hv. 1. þm. Eyf. (BSt) að bera á móti þessu. Ég tel nú, að eigi að koma í veg fyrir, að þetta fé fari í skatta, og tryggja það, að salan aukist, þá þurfi að gera þá breyt. á þessu frv., að í stað tekjuskatts og útsvars kæmi: allra opinberra skatta, því að það er rangt hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að ekki séu reiknaðir aðrir skattar. Það er þó fyrst og fremst stríðsgróðaskattur og svo eignaaukaskattur. Það má vera, að þetta standi ekki í l., en það var eðlilegt, að það stæði í frv. 1941–42, því að það var ætlazt til, að það væri samþykkt í vor, svo að hægt væri að reikna af árinu 1942. Má taka þessa yfirlýsingu hv. þm. svo bókstaflega að hann ætli ekki að vera með þeirri breytingu, að sett verði inn í 1943. Það væri ákaflega gott að vita það, að þetta rán yrði ekki látið ná nema til 3 ára, a. m. k. ekki með hans samþykki. Verðlækkunarskatturinn átti ekki að gilda nema fyrir árið 1942. Er það meining þessa hv. þm., að hann ætli ekki að greiða atkvæði með því, að hann verði látinn gilda lengur? Ég bíð og sé, hvernig puttarnir snúa, þegar það mál kemur í þingið.