24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð út af því atriði, hvort undan þágan í þessu frv. er aðeins takmörkuð við tekjuskatt eða útsvar í þrengstu merkingu. Ég held, að ekki leiki vafi á, að vinningar happdrættis háskólans séu hvorki undir verðlækkunarskatti né stríðsgróðaskatti, en þetta er sniðið algerlega eftir því, enda miðast báðir þeir skattar við, að þegar búið sé að leggja á tekjuskatt, sé verðlækkunarskatturinn aðeins framhald á vissu stigi og stríðsgróðaskatturinn sameinaður á tekjuskatt og útsvar af hærri tekjum. Hvorugan þennan skatt er hægt að kalla annað en tekjuskatt. Ég lýsi yfir því, að ég skil frv. hiklaust svo, að undanþegið sé ekki aðeins útsvar, heldur og tekjuskattur í víðari merkingu, þ. e. verðlækkunarskattur, ef hann gildir á næsta ári, og stríðsgróðaskattur. Það mætti líka athuga fyrir 3. umr. að breyta þessu. Hv. þm. Barð. hefur skotið því að mér, að það mætti gera þetta skýrt með því að kalla þetta opinbera skatta, en ég tel þetta atriði ótvírætt, hvort sem er.

Ég ætla ekki að blanda mér í umr. að öðru leyti. Það er alveg rangt hjá hv: 1. þm. Eyf., .að það væri verið að láta ríkið leggja fram af sinni hálfu til þessara kirkjubygginga. Ríkið er einmitt að stuðla að því, að einstaklingarnir leggi fram fé af frjálsum vilja. Hvað sem um þetta happdrætti er, þori ég að fullyrða, að það hefur frá fyrstu tíð byggzt á því, að skattfrelsi fengist fyrir vinningana. Meiri hl. þm. hefur lofað þessu með undirskrift sinni. (BSt: Ég efa það mjög, hvað Laugarneskirkju snertir). Ég á við Hallgrímskirkju. Mig minnir meira að segja, að leitað væri til hv. 5. þm. Reykv., svo að honum ætti ekki að vera þetta nein nýjung. Hallgrímskirkja hefði annars ekki getað auglýst eins og hún hefur gert.

Um það, hvort kirkjur eigi að koma á undan öðrum. byggingum eða ekki, má deila endalaust. Þetta er það, sem í kristnum löndum þykir nauðsynlegast vera, og ég vil spyrja hv. 5. þm. Reykv., hvernig farið hefði í landi eins og Rússlandi, sem hefur fengið sér til sáluhjálpar erkibiskupinn af York, ef engin kirkja hefði verið þar til.