24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Frsm. minni hl. rangfærði svo orð mín, að mér finnst ástæða til að leiðrétta það með nokkrum orðum.

Ég sagði, að þegar hann héldi fram einkaskoðun sinni, þá reyndi hann að telja aðra á hana. Það er ekki nema algengt, að menn telji aðra á sína skoðun. Þetta var allt og sumt, sem ég sagði um þetta.

Hinu getur hann ekki neitað, að stjskr. gerir ráð fyrir, að Alþingi hafi þessi kirkjumál með höndum, hvort sem um fjárframlög er að ræða eða annað, og styrkir og verndar kirkjuna. Annars kom það í ljós, af hvaða ástæðu hann er á móti þessu frv., nefnilega af því, að hann er á móti kristindómi og kirkju. (BrB: Já, það er rétt.) Hann segir, að slík mál snerti ekki þjóðfélagið. Fyrr á tímum, á dögum katólskunnar, var það, að kirkjan hafði með höndum líknar- og fræðslumál þjóðarinnar. Var þá ekki gott, að kirkjan tók þau í sínar hendur og sinnti þeim?

Annars er, eins og ég hef tekið fram, að hér er alls ekki um fjárframlög að ræða, heldur, að ekki sé lagður steinn í götu félags, sem vill leysa fagurt verkefni af hendi. Tel ég því, að hlúa beri að fjáröflun þessa fyrirtækis, sem hefur jafngóðan tilgang fyrir augum.