17.09.1943
Neðri deild: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

48. mál, verðlag

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti: Ég flyt hér ásamt hv. 1. landsk. þm. (SG) frv., sem í sjálfu sér mætti kannske segja, að væri óþarft, eða hefði fyrir nokkrum dögum mátt kalla óþarft. A. m. k. var gert ráð fyrir því í byrjun, að ef samkomulag yrði í landbúnaðarvísitölunefndinni, þá væri ekki í höndum kjötverðlagsnefndar og mjólkurverðlagsnefndar valdið til þess að ákveða útsöluverð á kjöti og sláturafurðum og mjólk og mjólkurafurðum, enda ekki þörf á því. Það mun ekki hafa verið gert ráð fyrir því, að þessar nefndir mundu yfirleitt brjóta í bág við samkomulagið, sem gert var í þessu efni, er sex manna nefndin var skipuð. En eftir að þetta frv. hefur verið lagt fram, hefur komið í ljós, að full þörf er á því, að því verði hraðað mjög að samþ. það sem l. til þess að hindra mikla árekstra með því að koma í veg fyrir, að nefndir þessar héldu áfram starfsemi sinni þrátt fyrir samkomulagið um sex manna nefndina og niðurstöður hennar.

Þegar dýrtíðarlögin voru til umr. á Alþ. fyrri part þessa árs, þá var talað um skipun sex manna nefndarinnar þannig, og nefndin var skipuð með því ákvæði, að gerðir nefndarinnar skyldu beinlínis vera markleysa, nema fullt samkomulag næðist í henni milli fulltrúa framleiðenda og neytenda, og með því eina móti skyldu niðurstöður nefndarinnar vera bindandi. Þetta var til þess gert að slá því föstu, að þetta væri samkomulagsnefnd til þess að finna eitthvað, sem hægt væri að búa við í framtíðinni. Við höfum að undanförnu átt við það að búa, að kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. rykju saman til þess, sem kallað hefur verið að finna grundvöll fyrir verði á þessum afurðum, og á þessum svo kallaða grundvelli hefur svo oft verið hraðað í gegn stórfelldum hækkunum á afurðum landbúnaðarins, án þess að búið hafi verið að færa fram nægileg rök fyrir þeim hækkunum, og hefur slíkt fyrirkomulag verið óþolandi við að búa. Það var m. a. þetta ófremdarástand, sem olli því, að þm. voru á eitt sáttir um, að nauðsyn væri á að finna einhvern grundvöll, sem hægt væri að vísa til í hvert skipti, þegar ákveða þyrfti verðlag á íslenzkum landbúnaðarafurðum til neytenda. Og það hefur tekizt með þessari sex manna nefnd. Henni tókst að verða sammála um að skapa þennan grundvöll.

Það nær vitanlega engri átt að leggja þann skilning í þetta samkomulag, sem varð í n., að n. hafi hugsað sér með því að tryggja bændum þær tekjur, sem þeir telja, að þeir þurfi að hafa til þess að hafa tekjur sambærilegar við verkamenn. Það var ekki meiningin að tryggja bændum nú með verðlagsákvörðunum þessar tekjur fremur en það var meiningin árið 1939 með þeim l., sem þá voru sett um kaupgjaldið, að tryggja meðal-verkamannafjölskyldu lífvænlegar tekjur. Þá datt engum í hug að halda því fram, að því opinbera bæri að veita þeim slíka tryggingu. Að þessu leyti er starf þessarar sex manna n. nú nákvæmlega sambærilegt við starf kauplagsn. þá, og því á ekki að leggja þann skilning í niðurstöður sex manna n., að með þeim eigi að tryggja bændum með framlagi úr ríkissjóði sambærilegar tekjur við verkamenn, miðað við, að meðalbóndi hafi þær með því verðlagi, sem sett sé nú á afurðirnar. Slíkt gæti leitt til þess, að ríkissjóður verðbætti afurðirnar langt umfram þörf. Hvaða vit væri í því, að ríkissjóður væri skyldugur til að kaupa alltaf afurðirnar af bændum, þótt framleiddar væru langt umfram þarfir? Það er ekki heimild til þessa, og ekkert liggur fyrir um það, að þetta hafi verið meiningin, þegar sex manna n. var skipuð. En þessi sex manna n., landbúnaðarvísitölun., hún gerði ráð fyrir því, — og þar voru allir nm. sammála og þar á meðal formaður n., Steingrímur Steinþórsson, — að úr því að samkomulag náðist í n., ættu hvorki mjólkurverð lagsn. né kjötverðlagsn. að eiga nokkuð við að ákveða verð á mjólk eða kjöti. Vil ég hér með í þessu sambandi lesa upp úr áliti sex manna n., með leyfi hæstv. forseta:

„Hvaða útsöluverð verður á hverjum stað, er komið undir því, hvaða kostnaðarliðir bætast við á eftir við dreifingu og sölu varanna, geymslu þeirra o. s. frv. Verður það ákveðið af þeim aðilum, sem lög mæla fyrir um, en nefndin telur sjálfsagt, að öll slík verðlagning verði háð eftirliti hinna almennu verðlagsyfirvalda og verði að fá samþykki þeirra til allra verðlagsráðstafana. Þar með telst að sjálfsögðu öll verðjöfnun, svo sem milli neyzlumjólkur og vinnslumjólkur.“

Það er ekki hægt að kveða skýrar á um það en hér er gert, að n. er þeirrar skoðunar, að starf verðlagsnefndanna beggja er niður fallið svo lengi sem þetta samkomulag gildir og er lagt til grundvallar um verðlagsákvörðun.

Það var hins vegar vitað, enda í niðurstöðum n. gert ráð fyrir því, að það verð, sem n. ákveður, sé það verð, sem bændur eigi að fá fyrir afurðirnar, en þá sé eftir að ákveða útsöluverðið bæði á mjólk og kjöti. Það liggja fyrir upplýsingar um það og lágu fyrir n., að það mundi þýða 30 aura viðbót á hvern lítra mjólkur hér í Reykjavík. Það var almennt gert ráð fyrir því í n., þó að það komi ekki fram í áliti n., enda taldi hún það fyrir utan sinn verkahring, en taldi eðlilegt, að viðskiptaráð heimtaði af mjólkursamsölunum skilríki fyrir því, hve mikið þyrfti að leggja á verð mjólkurinnar fyrir gerilsneyðingar og dreifingarkostnaði hér í Reykjavík og á Akureyri, og að viðskiptaráð ákvæði, hverjar upplýsingar það þyrfti að fá til þess að geta tekið sínar ákvarðanir um mjólkurverðið. En gert var ráð fyrir því, ef þetta samkomulag ætti að standa áfram, að kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. gætu ekki starfað áfram eins og þær hefðu gert. Frv. þetta er byggt á því, að formlega séð þá hafa þessar n. vald enn til þess að ákveða verð á þessum vörum til neytenda, því að það er fram tekið í kjöt- og mjólkurlögunum, að kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. eigi að ákveða útsöluverð þessara vara á hverjum stað.

Nú hefur mjólkurverðlagsn., eins og vitað er, snúið sér þannig í þessu máli, að hún hefur ákveðið, að mjólkurverðið skuli vera kr. 1,70 lítrinn. Og daginn eftir, að mjólkurverðlagsn. tók þessa ákvörðun, tilkynnti ríkisstj., að ákveðið hefði verið, að mjólkurverðið skyldi verða kr. 1.45 lítrinn í útsölu, og það, sem mjólkurverðið þyrfti að fara fram yfir það, þegar allur kostnaður væri með talinn, skyldi greiða úr ríkissjóði. Nú skilst mér deilan vera um það, hvort ríkisstj. beri skylda til að greiða niður mjólkurverðið úr kr. 1.70 lítrann niður í kr. 1.45 eða hvort hún ætlar að binda sig við það, sem sex manna n. ákvað að frádregnum gerilsneyðingar- og dreifingarkostnaði. Væri gott að fá upplýst um þetta. Hvað fyrir mjólkurverðlagsn. vakir, er ekki gott að segja. Nm. þar ákveða með því að slumpa á um það, hve mikið af mjólk muni fara til vinnslu, og mér er ekki kunnugt um það, hvort verðlagið á mjólkurafurðum á að miðast þannig, að verð það, sem bændur fá fyrir mjólkina, verði kr. 1.23 fyrir lítrann, enda liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um þetta atriði. En það liggur fyrir, að sáralítið af mjólk mun fara til vinnslu á þessu ári og miklu minna en mjólkurverðlagsn. gerði ráð fyrir á því tímabili, sem mjólkurverðlagsn. ákvað verðið fyrir nú síðast, heldur en hefur verið. En þetta er sjónarmið, sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. og verðlagseftirlitið geri sínar athuganir og ákvarðanir um, en ekki sex manna n. En ég er viss um, að ef einu sinni er búið að fá mjólkurverðlagsn. í hendur þessa peninga, sem greiða á niður mjólkina með, þá muni aldrei neinu af þeim verða skilað aftur þannig, að framleiðendur eða neytendur fái neinar greiðslur af þeim fram yfir það, sem áætlun í fyrstu miðast við, þó að þeir reyndust óþarflega miklir til þess að greiða hæfilega niður mjólkurverðið. N. mundi hafa einhver ráð með að koma þeim á einhvern kostnaðarlið, ef hún hefði þá í höndum.

Sex manna n. hefur vísað því frá sér að ákveða útsöluverð á kjöti. Hún hefur ekki talið það í sínum verkahring og álitið, að viðskiptaráð ætti að gera það, og kemur það alveg heim við það, sem gert var ráð fyrir. Vísir hefur tekið þetta mjólkurverðlagsmál til umræðu í gær, og þar er því haldið fram, að ríkisstj. ætti að hafa þessar samþykktir mjólkurverðlagsn. að engu, og gefið er í skyn, að þetta sé skemmdarstarfsemi af hendi mjólkurverðlagsn. Og það er gefið í skyn, að verðlagsn. verði afnumdar. Ég veit ekki, hve mikið hér er talað fyrir hönd ríkisstj., en þessi ummæli sýna, að full þörf er á, að með lagafyrirmælum sé skorið úr um það, hve mikið vald kjöt- og mjólkurverðlagsn. skuli hafa til þess að firra okkur því, að rofið verði það samkomulag, sem orðið hefur í sex manna n., og firra okkur því, sem af því hlýzt.

Ég álít því, að þessu máli þurfi að hraða mjög í gegnum þingið. Og ég mun, ef það verður ekki gert í n., sem hefur málið til meðferðar, koma með till. um að samþ., að gerðir mjólkurverðlagsn. 15. sept. s. l. verði gerðar markleysa ein, til þess að engin deila geti um það orðið í framtíðinni, eftir hvaða reglu eigi að ákveða útsöluverð á mjólk. Ég sé ekki ástæðu til annars en hagnýta það samkomulag, sem nú hefur verið gert og byggt er á samvinnu fulltrúa bæði framleiðenda og neytenda. Og ég held, að allir, sem það vilja, geti verið sammála um, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé sjálfsagt að samþ. og því beri að hraða gegnum þingið.