20.09.1943
Neðri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

48. mál, verðlag

Sveinbjörn Högnason:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, mun hafa verið rætt síðasta föstudag, en því miður hafði ég ekki ástæður til að vera hér viðstaddur þá. En ég hef heyrt þess getið, að ýmislegt hafi komið þá fram í þeim umr., sem mér þætti ekki óeðlilegt, að athugað væri nokkru nánar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fer fram á það, að vald þeirra n., sem hafa ákveðið verðlag á innlendum landbúnaðarafurðum, sé afnumið til bráðabirgða, nefnilega meðan samkomulag það gildir, sem gert var af mþn. í dýrtíðarmálum, sem fjalla átti um hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags. Eftir því sem ég veit bezt, mun ekki hafa verið í þessu samkomulagi, sem milliþn. gerði, neitt samkomulag um það, að nú skyldi þetta vald tekið af hlutaðeigandi stéttum til þess að ákveða sitt verðlag. Ég man ekki eftir, að það standi í því nál., að það skuli taka valdið af stéttarfélögunum til þess að ákveða kaupgjaldið, og þá held ég ekki heldur, að það skuli afnema vald þeirra n., sem hér um ræðir, sem hafa ákveðið verðið á landbúnaðarafurðunum. Með því frv., sem hér er flutt af hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og hv. 1. landsk. þm. (SG), er því beint gengið aftan að því samkomulagi, sem gert var af n. þeirri í dýrtíðarmálum, sem hér sat í sumar. En á þessu þarf enginn í raun og veru að undra sig, þegar litið er á, hvaða menn þarna standa að, því að það eru ekki fyrstu svikin af hendi þessara aðila, sem hér koma fram. En það eru fyrstu svikin, sem reynt er að fá lögfest af hæstv. Alþ. sjálfu. Og það mun vera nokkurt eins dæmi, að ég hygg, að hæstv. Alþ. sé sýnd slík ósvinna, að því sé boðið upp á að samþ. eða ónýta gerðir n., sem skipuð hefur verið af Alþ. sjálfu til að finna grundvöll að úrlausn vandamáls og hefur orðið algerlega sammála um þann grundvöll, — því að það var fyrir fram ákveðið um þessa n., að ákvarðanir hennar áttu að vera gildandi því aðeins, að hún yrði öll sammála. Og það liggur í hlutarins eðli, að þegar um tvo aðila er að ræða, eins og var, þegar þessi n. var sett, annars vegar bændur og hins vegar verkamenn, og ef samkomulag þessara tveggja aðila á að standa, þá verða þessir aðilar að vera nokkurn veginn jafn-réttháir. Og ef verkamenn eiga að vera frjálsir innan settra takmarka í þessum efnum, þá verða í raun og veru sömu ákvæði að gilda gangvart bændum og þeirra fulltrúum. Þetta hygg ég, að sé augljóst öllum. Og þar af leiðandi er þetta frv. tilraun til þess að fá Alþ. til þess að koma nú með rýtinginn í bakið á þeirri n., sem sat á rökstólum um þetta efni í sumar til þess að ná samkomulagi í þessum málum, sem byggja mætti á.

En þetta er ekki fyrsta tilraunin af hendi þessa flokks, sem þessir hv. þm. tilheyra, sem flytja þetta frv., til að ganga á bak þeim orðum og því samkomulagi, sem gert var af n. í dýrtíðarmálum í sumar, því að eins og kunnugt er, var það samkomulag byggt á því, að það væri alveg ákveðið verð, sem skyldi. fást fyrir mjólkina og kjötið til framleiðenda. Ég hef lesið þetta nál. nokkuð rækilega yfir, og ég sé þar hvergi, að það skuli vera aðeins fyrir vissan hluta af framleiðslu bænda, sem þeir skuli fá þetta verð, annars vegar aðeins fyrir það, sem hver framleiðandi afhendir til sölu, sem samsvarar framleiðslu meðalbús, og hins vegar skuli það verð aðeins gilda um það af þessum framleiðsluvörum, sem seljist á innlendum markaði. Hins vegar hefur blað þeirra manna, sem flytja þetta frv., æ ofan í æ talið sjálfsagt, að það sé ekki nema fyrir meðalbúsafurðir, sem eigi að greiða þetta verð, og ekki nema fyrir það, sem selt er á innlendum markaði af þessum vörum.

Við sjáum því, að ef þetta sjónarmið þessara flm. þessa frv. væri látið vera gildandi gagnvart því samkomulagi, sem gert var í mþn. í sumar, þá væru það bein svik við þá niðurstöðu, sem felst í þessu nál. sex manna n. Og þar af mundi leiða, — sem væri vitanlega mjög alvarlegt atriði fyrir hæstv. Alþ., ef það kæmi fyrir, — að sá grundvöllur, sem búið var að reyna að finna í sumar og margir fögnuðu, að skyldi finnast, um hlutfallið milli kaupgjalds verkamanna og verðlags afurða til bænda, yrði burt tekinn. Og ef á að rifta samkomulaginu um þann grundvöll, eins og nú er verið að gera tilraun til, fyrst í blaði sósíalista æ ofan í æ og svo loks nú hér á hæstv. Alþ. með því að reyna að fá það til að hjálpa til við það framferði, sem hér er á ferð, þá er samkomulag n. að engu gert og gengið á rétt bænda. Og ég heyri, að hv. flm. þessa frv. ætli ekki að láta sitja við þetta eitt, að taka ákvörðunarréttinn gersamlega af bændum um verð fyrir vinnu sína, sem er vitanlega nú sem stendur takmarkaður af samkomulagi þessarar mþn., heldur hafi þeir boðað það, að þeir ætli að taka af bændum þau fyrirtæki, sem þeir hafa komið sér upp til þess að koma í verð afurðum sínum. Það er m. ö. o. þannig, að þetta frv. hér á að vera fyrsta stríðstilkynningin. Áframhaldið á að vera það, að ekki skuli standa steinn yfir steini af því, sem bændur hafa reynt að byggja upp með áratugastarfi undanfarið til þess að halda uppi verði og gæðum á framleiðslu sinni. Þetta er mjög merkilegt tímanna tákn um það, hvað ýmsir menn geta látið sér detta í hug. Og ég verð að segja það, að bændum er ekki gert mest illt með því að flytja slík frv., þó að þeim sé stefnt að þeim. Það er víst, að engum í þjóðfélaginu er gert meira óhagræði með því en einmitt þeim, sem þessir menn telja sig forsvarsmenn fyrir í landinu. Því að þeir mega vita, að ef forsvarsmenn verkalýðsstéttarinnar í landinu vilja ekki unna öðrum stéttum þess réttar að fá sanngjarna greiðslu fyrir vinnu sína eða halda uppi stéttarsamtökum sínum í því efni sér til sjálfbjargar, þá verður hins skammt að bíða, að enginn hefur samúð með þeim mönnum, þegar þeir þykjast berjast fyrir réttlæti, en barátta þeirra beinist aðeins til hagsbóta þeim einum, sem þeir þykjast vera fulltrúar fyrir. Ef þeir flytja frv., sem eru bein árás á vissar stéttir í landinu, þá gera þeir ekkert annað en koma því inn hjá mönnum, að það sé ekki réttlætistilfinning, sem stendur að baki því, sem þeir eru að vinna, heldur sérhagsmunir og aðeins fyrir þá sjálfa. Slíkt er varhugavert fyrir stétt, sem telur sig hafa farið varhluta af ýmsum gæðum til þessa. Og ég segi það fyrir sjálfan mig, að þótt ég á ýmsan veg og oft hafi verið talinn um of hliðhollur verkamannastéttinni og að ég hafi mjög oft séð, að þess hafi verið þörf, að hennar hagur væri bættur, þá mundi ég ekki hafa getað hugsað mér að sjá forustumenn frá hennar hendi, sem vildu ekki viðurkenna réttlæti, nema það stefni sjálfum þeim til hagsbóta, — ekki styðja að hagsmunum, nema þeir eigi þá sjálfir, og ekki leiðrétta yfirleitt neitt í þjóðfélaginu, nema það snerti þá eingöngu. Því að þegar svo er komið um þessa forustumenn verkalýðsins, þá er það orðið verra en íhaldið var verst á sínum tíma. Og það er það, sem þessir forsvarsmenn verkalýðsins eru að boða með þessu frv., sem þeir flytja hér, og eins með því, er þeir boða flutning annars frv. hér, — það, að réttlætið eigi ekki að gilda nema fyrir vissa stétt í þjóðfélaginu.

Ég hef heyrt, að hv. 1. flm. frv. þessa hafi beint nokkrum skeytum að mér við þessa umr. fyrr á fundi. Ég er ekki viðkvæmur fyrir þess háttar slettum, og sérstaklega gildir það, þegar þessir menn eru að tala um, að vissast sé að líta eftir því, hvort ekki hafi fjárdráttur átt sér stað viðkomandi mjólkursamsölunni. Það er eins og þessir hv. þm. gefi í skyn, að það þurfi að fara að leggja undir sig framleiðslutæki bænda til þess að bæta það upp, að kannske streymir ekki eins mikið gull frá Rússlandi nú og þeim þykir æskilegt, sósíalistum. En ég hygg, að það kosti mikil átök, áður en bændur gera þennan hv. þm. eða nokkurn af sósíalistum á þingi að forsvarsmönnum sínum. Og það er miklu réttara, áður en heimtað er að birta opinberlega reikninga mjólkursamsölunnar, — sem hafa verið birtir á hverju ári, — að leggja fram opinberlega reikninga um starfsemi flokks hv. flm. þessa frv. á undanförnum árum hér í þessu þjóðfélagi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en ég vildi aðeins ekki láta frv. þetta fara svo gegnum þessa umr., að ekki kæmu fram aths. við það. Ég óttast það ekkert í raun og veru, að frv. eins og þetta, jafn skammsýnt og fávíslegt sem það er, nái fram að ganga. En ég er líka sannfærður um, að þó að það næði fram að ganga, þá yrði það háskalegast verkamönnum fjárhagslega, því að ef taka ætti þann litla íhlutunarrétt af bændum, sem þeir hafa til þess að ákveða verðlag á vörum sínum, er þá ekki eins sjálfsagt að taka af stéttarfélögunum réttinn til þess að ákveða kaupgjaldið? Eiga forustumenn verkamanna að ganga í fararbroddi um, að með l. sé mönnum bannað að hafa nokkur afskipti af fjárhagsmálum sínum og stéttarmálum með stéttasamtökum? Nei, ég er alveg sannfærður um, að það væri þess vegna bezt fyrir þá sjálfa að kveða þetta frv. eins fljótt niður og þeir geta og biðja afsökunar á því, að það skuli nokkurn tíma hafa komið fram.