20.09.1943
Neðri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

48. mál, verðlag

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það vakti athygli mína, þegar umr. hófust um þetta mál, að hv. 2. þm. Rang. (IngJ) hóf ræðu sína með því að lýsa með allmörgum orðum, hve þetta frv. væri í sjálfu sér þýðingarlaust. Hann taldi, að samþykkt þess mundi í raun og veru engu breyta. En svo þegar á leið ræðuna óx honum ásmegin, og að lokum varð hann hamrammur mjög og sagði, að það eina rétta, sem hægt væri að gera við svona frv., væri að fella það strax við 1. umr. Það er undarlegt, þegar góðir og gegnir menn geta sýnt svona mikla tvíhverfu í einni og sömu ræðunni. Fyrst segir þessi hv. þm., að frv. breyti engu, en svo færist hann í vígamóð eftir litla stund og segir, að hér dugi ekkert annað en ákveðin tök og skjótar hendur til þess að drepa frv. tafarlaust, slíkt frv. hafi ekkert að gera í n.

Ég hefði getað skilið þetta, ef það hefði legið fyrir, að hér væri í raun og veru verið að ganga á rétt umbjóðenda hans, bændanna í Rangárvallasýslu. Honum ber vissulega að koma hér fram sem talsmaður þeirra og umboðsmaður og halda vel og drengilega á þeirra málum. Ef þetta hefði legið fyrir, þá hefði ég getað skilið hvers vegna hann gerðist hér svo hamrammur og mælti af móði. En þá hefði hann ekki skort rök, heldur getað orðið samræmi í ræðu hans. En hvers vegna gekk þessum hv. þm. svona illa þá í ræðumennskunni, að hann skorti svo mjög rök og samkvæmni? Vill hann gera grein fyrir því.

Ég vík svo næst að hv. þm. V.-Sk. (SvbH). Hann er methafi hér í þingsalnum í því að fara með rangfærslur og blekkingar í málflutningi. Það verður ekki af honum skafið, og hann skal í því efni eiga þann orðstír, sem hann hefur skapað sér. Hann flytur yfirleitt aldrei annað en blekkingar hér í þingsalnum.

Þessi hv. þm. lét orð falla um það, að hér mundi koma fram frv. um heimild fyrir Reykjavíkurbæ til þess að taka í sínar hendur mjólkurstöðina og mjólkursöluna í Reykjavík. Og það er skoðun okkar sósíalista, að það eigi að afnema það vald, sem kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. hafa haft til þess að ákveða verðlagið á landbúnaðarafurðum. Þetta er í samræmi við samninga, sem fram fóru í sex manna n., eins og ég skal sýna með nokkrum rökum.

Sex manna n. var samningan. Hún var skipuð af þinginu til þess að semja um það verð á afurðum, sem bændur skyldu fá fyrir þær vörur, sem þeir seldu á innlendum markaði. Þá var í fyrsta skipti gengið inn á þá eðlilegu og heilbrigðu braut að gera þetta að samningsatriði. Þar var í fyrsta skipti viðurkennt, að viðskiptin milli bænda annars vegar og þeirra hins vegar, sem búa við sjávarsíðuna, eru að mörgu leyti hliðstæð viðskiptum milli verkamanna og vinnuveitenda. Þetta á þess vegna að komast inn á samningsgrundvöll, og þangað hefur það komizt.

Og um hvað sömdu þessir aðilar? Um það, hvað bændur ættu að fá fyrir vöru þá, sem þeir selja þeim, sem við sjóinn búa. Annað var ekki hægt að semja um. Þessir aðilar, fulltrúar verkamanna og starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúar bænda, þeir geta ekkert um það samið, hvort verðbætt skuli það af þessum afurðum, sem selst á erlendum markaði. Það var utan við starfsvið n., en í hennar verkahring var aðeins, að því er til afurðaverðsins kom, að semja um verð á þeim vörum, sem seldust á innanlandsmarkaði.

Nú liggur það í hlutarins eðli, að þegar um þetta er samið, hvað bændur skuli fá fyrir vöru sína, þá er það í sjálfu sér orðið þeim lítið viðkomandi mál, hvað leggst á vöruna vegna dreifingar og verzlunarkostnaðar í bænum. Bændurnir eru ekki sá aðilinn, sem þar á hagsmuna að gæta, heldur fyrst og fremst neytendur. Bændurnir fá sitt umsamda verð, og það er fyrst og fremst hagsmunamál okkar bæjarbúanna, sem kaupum vöruna, að dreifingar- og vinnslukostnaður sé sem minnstur. Og til þess að fá hann sem minnstan, þá er það eðlilegt, að það leggist í hendur neytendanna sjálfra, hvernig með þessi mál er farið. Þess vegna eiga þeir að reka mjólkurstöðina og sjá um dreifinguna, og það á ekki að vera á valdi pólitískra nefnda að ákveða útsöluverðið, heldur að vera í höndum hins almenna verðlagseftirlits í landinu. Það á að tryggja neytendum og reyndar seljendum líka, að verðið á mjólkinni sé hóflegt. En í höndum brasknefnda eiga þessi mál ekki að vera.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, hvílík fjarstæða það er, sem hv. þm. V.-Sk. (SvbH) heldur fram, að með þessu frv., sem fyrir liggur, sé verið að ganga á gert samkomulag í sex manna n. Og enn fremur hef ég sýnt fram á, hvílík reginfjarstæða það er, að með þessu frv. sé stefnt að því að taka rétt af bændum hliðstætt því sem samningsrétturinn væri tekinn af verkamönnum um kaup og kjör. Það er einmitt með þessu verið að gefa bændum — samningsréttinn í fyrsta sinn. Það er verið að reyna að tryggja það, að varan, sem þeir selja, sé ekki gerð óeðlilega dýr með óhæfilegri álagningu. Og þessari tryggingu á að koma fram með því að taka þessi mál úr höndum pólitískra nefnda og koma þeim í hendur hins almenna verðlagseftirlits.

En hvers vegna eru allar þessar hamfarir út af þessu frv. hjá andstæðingum þess og þessi reginfirrð af blekkingum, sem hv. þm. V.-Sk. (SvbH) fór hér með í ræðu sinni? Er þetta af meðfæddri nauðsyn þessa hv. þm., eða er þarna annað á bak við? Ég hygg, að þarna liggi annað á bak við. Það sagði einn hv. þm. fyrir nokkrum árum, að það væri satt að segja ekki furða, þó að bændur á Suðurlandsundirlendinu hneigðust til fylgis við Framsfl., því að öll landbúnaðarlöggjöf hefði á seinni árum verið miðuð við þessi héruð og miðuð við það að efla fylgi flokksins þar. Þetta er mergurinn málsins. Afurðasölulögin hafa fyrst og fremst verið notuð af pólitískum frambjóðendum til þess að halda völdum í vissum héruðum landsins, og það er þessi aðstaða, sem þessir hv. þm. eru að reyna að verja.

Að þessu athuguðu er skiljanleg aðstaða hv. 2. þm. Rang. Hann er sem sagt flæktur í net Framsfl., sem alltaf hefur hugsað sér að nota afurðasölul. sér og sínum flokksmönnum til framdráttar og hefur gert það. Þess vegna er það, að hann lendir í því ömurlega ástandi að flytja ræðu, sem hvorki hefur upphaf né endi. Það er hann, sem sjálfur finnur ekki snefil af rökum fyrir því að vera móti þessu frv. Hann sér það sjálfur og viðurkennir, að það er ekki verið að ganga á rétt bænda, heldur það, sem Framsfl. kallar sinn rétt. Þess vegna er hann hræddur.

Framsfl. er að veifa því, að til séu reikningar samsölunnar, meira að segja prentaðir. — Já, mikil lifandi ósköp! — Það eru m. a. til reikningar yfir viðskipti Kaupfélags Árnesinga, prentaðir og staðfestir. En þessir hv. þm. þurfa ekki að segja okkur, að af þeim reikningum sé hægt að sjá allan sannleikann. Þeir vita, hvað það er auðvelt að dylja sannleikann á bak við tölur. Eða vilja þeir segja okkur, hvers vegna Kaupfélag Árnesinga er lokað félag? Það var sagt hér af hæstv. forseta, að það mætti ekki blanda þessum aðila í málið. En ég vil benda á, að Kaupfélag Árnesinga starfar eins og önnur kaupfél. í landinu eftir l. og að það hefur brotið l. með því að neita manni um inntöku í fél. og það svo rækilega, að þótt búið væri að taka við félagsgjaldi af honum, þá kom hæstráðandi og sagði, að það skyldi endurgreiða honum gjaldið, því að hann fengi ekki að vera með. E. t. v. vill hv. þm. V.-Sk. gefa skýringu á þessu? Sannleikurinn er sá, að félagsstjórnin óskaði ekki eftir að fá gagnrýnandi mann til að skoða reikninga sína. Hún vissi, að þeir þyldu ekki að vera skoðaðir ofan í kjölinn. Þess vegna spyr maður: Hvernig er háttað viðskiptum Kaupfélags Árnesinga og Mjólkursamsölunnar? Þetta er óupplýst. Þetta sést ekki í reikningunum: Hvers vegna er Kaupfélagi Árnesinga lokað? Það er margt fleira, sem ástæða er að spyrja um, og mun það kannske verða gert síðar. Það er eins augljóst og tvisvar tveir eru fjórir, að það getur ekki á nokkurn hátt gengið á rétt bænda, þótt vald mjólkurverðlagsn. falli niður um stundarsakir. Það er ekki gengið á rétt bænda, þó að aðrir aðilar taki í sínar hendur mjólkursöluna. Bændum er tryggt ákveðið verð. Það verður líka að tryggja neytendum, að álagningin verði sem minnst. Það er stórt hagsmunamál fyrir neytendur, og engum nema neytendum er trúandi til að gera álagninguna sem minnsta. Það þarf að skipta hlutverkum réttilega og skipta á réttum stað, ef skipt er úti undir vegg samsölunnar, þar sem tekið er við mjólkinni af bændum fyrir ákveðið verð. Síðan þarf að gera dreifinguna sem ódýrasta.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég víkja að því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, — að það lægi í hlutarins eðli, að með samkomulagi sex manna n. ætti að tryggja bændum sanngjarnt verð fyrir sína vöru. Hann ber það réttilega saman við kaupgjald verkamanna. En hvenær hefur það ákvæði staðið í kaupsamningum verkamanna og vinnuveitenda, að tryggja skyldi verkamönnum nægilegt framboð á vinnu allan ársins hring? Aldrei! Það er bara þannig, að verkamenn gera grein fyrir því, hvað kaup þeir þurfa að hafa til þess að geta lifað allan ársins hring. Það er engin skuldbinding af hálfu vinnuveitenda að láta verkamenn hafa nægilega vinnu né af hálfu verkamanna að tryggja vinnuveitendum, að þeir skuli fullnægja allri þeirri eftirspurn, sem kunni að verða um vinnuafl.

Á sama hátt er afstaða bænda til neytenda. Það er gert að grundvallaratriði, hvað bændur þurfi að fá fyrir afurðir sínar til þess að geta lifað ársins hring. Neytendur taka sér ekki á hendur neinar skuldbindingar um að selja eins mikið og bændum lízt að framleiða. Þeir segja aðeins: Við borgum þetta fyrir það, sem við kaupum. Og þeir hafa viljað vera sanngjarnir og ekki skera við nögl sér.

Það getur verið, að hv. þm. V.-Sk. sé kominn á það stig, að hann vilji segja við verkamenn: Gerið svo vel! Við skulum útvega ykkur vinnu allan ársins hring, hvort sem nokkur þörf er fyrir hana eða ekki. — En hann hefur nú ekki komið því í lög enn þá. Það getur vel verið, að hann vilji setja l., sem tryggi verkamönnum alla þá vinnu, sem þeir þarfnast, og þá kannske um leið setja tryggingu fyrir því, að bændur framleiði það, sem þeir vilja, og fái ákveðið verð fyrir framleiðsluna.

Það var svo sem auðvitað, að þessi methafi í blekkingarstarfsemi og rógmælgi minntist á Rússagull í reikningum Sósfl. Það er nú eitt sinn móðins í Framsfl. Við erum reiðubúnir að leggja reikningana fram, já, meira að segja prentaða, endurskoðaða og staðfesta! En það væri líka gaman að sjá reikninga Framsfl., t. d. Þórsútgerðarinnar. Það gæti komið í ljós eitthvað, sem fleirum en þeim þætti gaman að sjá.

Ég vil ekki eyða fleiri orðum um þetta, en tek fram einu sinni enn, að með frv. því, sem hér liggur fyrir, er verið að reyna að koma viðskiptum bænda og neytenda á heilbrigðan grundvöll. Næsta sporið hlýtur að vera, að neytendur annist sjálfir dreifingu og vinnslu mjólkurinnar. Bændur sjá þetta sjálfir. En það er til klíka, sem hv. 2. þm. Rang. virðist háður, sem vill ekki unna neytendum þessara sjálfsögðu réttinda. Hún sér, að hér er verið að kippa stoðunum undan hennar argvítuga spillingarkerfi. Það er verið að taka frá henni tækifærið til að reka blekkingarstarfsemi sína áfram. Þessir menn umhverfast, þegar þeir hugsa til þess, að neytendur fái nokkru að ráða. Og það er gott, að þeir geri það. Þeir skulu fá tækifæri til að gera það rækilega, áður en lýkur. Þjóðin hefur gott af því að sjá á þeim báðar hliðarnar.