21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

48. mál, verðlag

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. V.-Sk. gerði sérstaklega að umræðuefni eitt atriði í síðari ræðu minni viðvíkjandi þessu máli. Ég hafði þar talað um 13000 kr. sem þann grundvöll, er miðað er við, að meðaltekjur verkamanna verði, og ofan á það bætast 1500 krónur handa bændum. Þegar ég sagði þetta, gerði ég ráð fyrir, að sá þm., sem ég talaði við, hefði einhverja hugmynd um, hvað verið væri að tala um. Ég gerði ekki ráð fyrir ábyrgðarlausum gasprara, sem legði ekki verk í að gera sér grein fyrir, hvað fyrir lægi. Ég hélt, að maður, sem hefur átt sæti í mjólkurverðlagsn., mundi láta sig skipta, að hvaða niðurstöðu n. kæmist. Nú stendur þessi maður hér upp og talar um, að þessar 13000 kr. séu sláandi dæmi um þær blekkingar, sem við sósíalistar förum með. Þegar ég var að tala hér, hélt ég, að ég talaði við menn, sem vissu, um hvað rætt er, en þegar ég var búinn að hlusta á ræðu hans, sé ég, að ég hefði átt að tala eins og ég væri að tala við skólabörn, og skal ég gera það.

Niðurstaðan, sem sex manna n. komst að, var sú, að meðaltekjur verkamanns séu á árinu 1942 kr. 13000,00. Það var niðurstaðan, sem hún komst að, eftir að hafa kynnt sér skattaframtölin fyrir árið 1942. Síðan lagði n. til grundvallar það, sem talið er, að vísitalan verði hærri árið 1943 en árið 1942, að meðaltali. Þegar n. hafði reiknað þetta út, komu út 15500 kr. Þegar sex manna n. er búin að komast að þessari niðurstöðu, tekur hún annað atriði með í reikninginn, og það er það að gera ráð fyrir þeim aðstöðumun, sem er á því að hafa 15500 kr. í bæ og í sveit. N. komst að þeirri niðurstöðu, að aðstöðumunurinn mundi jafngilda því, að 15500 kr. árstekjur í kaupstað muni vera jafnt og 13000 kr. í sveit. Um þetta var n. sammála, og þannig liggja til grundvallar 13000 kr. í sveit, sem jafngildandi 15500 kr. í kaupstað, sem reiknað var út frá skattaframtalinu 1942. Þegar n. var búin að komast að þeirri niðurstöðu, að hæfilegt væri að reikna 13000 kr., varð að samkomulagi að bæta 1500 kr. við.

Þar sem ég hef nú lagt þetta mál fyrir eins og það er, þarf ég ekki að fara orðum um það, hve gersamlega öll málsmeðferð hv. þm. V.-Sk. er byggð á rakaleysi og kannske vísvitandi rangfærslum á því, sem sagt hefur verið.

Af því að ég hef ekki nema athugasemdartíma, langar mig, af því að þm. gaf tvisvar tilefni til þess, að minnast ofurlítið á hans endurteknu ummæli viðvíkjandi Rússafénu og því, sem hann telur, að valdi því, að við sósíalistar berjumst fyrir sannfæringu okkar. Hann ætti að tala af reynslu, því að hann hefur sjálfur verið sósíalisti, og þótti þá stundum aðrir ekki taka nógu djúpt í árinni. Hann veit sjálfur, hvernig launin eru fyrir það. Honum þótti það svo óvænlegt til frama í þjóðfélaginu, að hann ákvað að hverfa burt frá þeirri stefnu og sannfæringu sinni til annars, sem honum þótti vænlegra til þess að komast áfram, enda hefur hann augljóslega fengið það vel borgað. Hann veit líka vel, hverjum aðferðum hefur verið beitt við sósíalista í þessu landi, að þeim hefur verið flækt út úr stöðum sínum og gert ómögulegt að lifa. Hann hefur sjálfur tekið þátt í þeirri herferð.

Ég ætla svo að síðustu að minna á það í sambandi við það, sem hér er rætt viðvíkjandi kjörum bænda, að það kemur greinilega fram, og verkin sýna merkin um það, að verkamenn unna bændum fullkomins réttlætis og góðrar afkomu, en þeir unna líka Framsfl. þess að fá makleg málagjöld og sérstaklega í þessu máli, þegar lengra er komið en nokkurn tíma áður í því að reyna að samræma hagsmuni þessara stétta og skapa þá aðstöðu fyrir þær báðar, að þeim geti vegnað sem bezt.