21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

48. mál, verðlag

Flm. (Áki Jakobsson) :

Ég ætla að leyfa mér að fara enn nokkrum orðum um þessa flutningareikninga.

Þessi maður, er hér talaði á undan mér, er meistari í að fara með blekkingar. Hann þurfti endilega að snúa út úr þessu, þó að ég segði Mjólkursamsalan í stað Mjólkurbú Flóamanna. Það er Kaupfélag Árnesinga,, sem annast mjólkurflutningana fyrir Mjólkurbú Flóamanna, og það eru einmitt viðskiptin milli þessara tveggja fyrirtækja, sem ég vildi fá að sjá. Annars skiptir það engu máli, hvaða félag hefur með þessa reikninga að gera, því að neytendur í Reykjavík greiða þá. Engar sannanir eru það, að þarna sé vel á haldið, þó að þetta séu ódýrustu flutningar hér á landi, því að ekki er hægt að flytja vörur við betri skilyrði en hér um ræðir. Flutningar þessir fara fram eftir hinum beztu vegum hér á landi og mest vörumagn er flutt eftir. Það eru því engin rök, þótt hann segi, að þetta séu ódýrir flutningar.

Þá er og kvartað yfir því, að þetta sé of löng flutningaleið, svo að heildarflutningskostnaðurinn skiptist óréttlátt niður. Einnig væri vert að athuga, hvað Kaupfélag Árnesinga leggur út fyrir flutninga á sínum vörum.

Þá vildi ég aðeins minnast á 13000 kr. Það á eftir að koma í ljós, hvað er rétt hjá n. Ég hef skýrt nákvæmlega frá, hvernig í þessu liggur. Enginn mun lá mér, þó að ég beri á framsóknarmenn, að þeir beiti sínum handjárnum. Stundum þurfa ekki einu sinni handjárn, bara góðar stöður.