13.09.1943
Efri deild: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

33. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að bráðabirgðaákvæði aftan við l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla frá 1936 verði fellt úr gildi. Samkv. 1. gr. þeirra l. eiga rétt til að koma til greina til styrkveitinga í fyrsta lagi sjúklingar, sem haldnir eru berklaveiki, holdsveiki, kynsjúkdómi, geðveiki (þar með taldir fávitar) eða öðrum alvarlegum, langvinnum sjúkdómi (þar með taldir ofdrykkjumenn og aðrir eiturlyfjaneytendur), í öðru lagi daufdumb og alvarlega málhölt, svo og blind og mjög sjóndöpur eða á annan hátt örkumla börn og unglingar, og í þriðja lagi örkumla menn, er þarfnast gervilima, umbúða eða annarra þess háttar tækja. Meginregla l. er sú, að sjúklingar þessir hafi rétt til styrks úr ríkissjóði til greiðslu 4/5 kostnaðar við nauðsynlega langa dvöl í sjúkrahúsi eða hæli við þeirra hæfi, þar með talin læknishjálp og lyf. Aftan við l. var svo sett bráðabirgðaákvæði, þess efnis, að þangað til það yrði numið úr gildi, mætti sú upphæð, sem varið yrði til styrkveitinga samkvæmt l. þessum til annarra en þeirra, sem haldnir væru berklaveiki, holdsveiki eða kynsjúkdómum, ekki nema meira en því, sem í hvert sinn væri veitt til þess í fjárl. L. koma sem sé ekki til fullra framkvæmda gagnvart öðrum sjúklingum en holdsveikum, berklaveikum eða kynsjúkdómaveikum. Þeir njóta alltaf styrks að 4/5 hlutum, en aðrir sjúklingar fá aðeins hlutfallslega eftir því, sem fjárveiting í fjárl. hrekkur til. Þetta hefur verið framkvæmt þannig, að geðveikissjúklingar hafa fengið 75% af hælisvistarkostnaði, og hefur því mestur hluti fjárl. upphæðarinnar farið til þeirra, eri tiltölulega minni upphæð til annarra sjúklinga. Styrkur þeirra hefur verið allt niður í 20–25 % af kostnaði. Þetta ákvæði var hugsað sem bráðabirgðaákvæði, meðan fjárhagur ríkisins leyfði ekki meira. Nú eru liðin 7 ár, síðan þessi l. voru sett, og er nú miklu rýmra um hjá ríkissjóði en fyrr. Þegar l. voru sett, var ætlazt til, að fyrirkomulagið yrði svo, að sjúklingarnir nytu fyrst hjálpar sjúkrasamlags, en síðan tæki yfirleitt ríkisframfærslan við. Ef l. hefðu þá komið til fullra framkvæmda, hefðu þau getað verkað eins og til var ætlazt, en vegna takmörkunar bráðabirgðaákvæðisins hefur þetta orðið öðruvísi. Að loknum sjúkrasamlagsstyrk hafa sjúklingar lítið notið ríkisframfærslunnar nema holdsveikir, berklaveikir, kynsjúkdómaveikir og geðveikir.

Það þarf ekki mörg orð til að sýna fram á, hvað þetta er óviðunandi. Ég vil minna á um þessa sjúkdóma, að það er réttilega litið svo á, að reglur um þá séu varnarráðstafanir þjóðfélagsins til að verja þá heilbrigðu, en það á að nokkru leyti við um fleiri sjúkdóma.

Sjúkrasamlögin hafa orðið að takmarka þann tíma, sem þau greiða sjúkrahúsvist fyrir, fyrst og fremst vegna þess, að þeim er um megn að taka á sig framfærslu sjúklinga, sem þjást af langvinnum sjúkdómum, og þetta hefur leitt til þess, að aðrir sjúkdómar hafa verið háðir sömu takmörkunum. En ef ríkisframfærslan kæmi til fullra framkvæmda, væri ekki of áhættusamt fyrir sjúkrasamlögin að skera niður tímann.

Um fjárhagshlið málsins er ég ekki viðbúinn að gefa nógu glöggar upplýsingar. Ég hef rætt bæði við landlækni og berklayfirlækni, og þeir eru mér báðir sammála um, að tími sé til kominn að fella bráðabirgðaákvæðið niður. Ég tel víst, að n. muni eiga tal við þessa menn og fá glöggar áætlanir hjá þeim.

Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til grg. frv. og vænti þess, að hv. d. fallist á sjónarmið flm. Ég skal geta þess, að nú er n. að starfa að endurskoðun alþýðutryggingal., og er mikilsvert að vita vilja Alþ., áður en hún lýkur störfum.

Legg ég svo til, að frv. verði vísað til 2. umr.