13.09.1943
Efri deild: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

33. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. og ræðu hv. 3. landsk. þm. vil ég spyrja, hvort það hafi verið athugað af n., hvort síðasta málsgr. í bráðabirgðaákvæðinu á líka að falla niður. Þar stendur, að meðan holdsveikisspítalinn í Lauganesi verði starfræktur af ríkinu, skuli holdsveikisjúklingar, sem þar séu vistaðir fyrir ráðstafanir hins opinbera, hafa þar að öllu leyti ókeypis víst á kostnað ríkissjóðs. Það er vitanlegt, að þessi spítali er ekki lengur starfræktur á sama stað, en er það tryggt í l., að þetta ákvæði haldist, ef bráðabirgðaákvæðið fellur burt?