29.09.1943
Efri deild: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

33. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Heilbrigðis- og félagsmálanefnd er sammála um að bera fram brtt. við frv. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Áður en ég vík að efni till., þykir mér rétt að skýra frá því, að heilbr.- og félmn. hefur aflað sér upplýsinga hjá hr. Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni um fjárhagshlið þessa máls, og samkv. þeim upplýsingum hafa greiðslur vegna berklavarna árið 1942 numið, smbr. 17. gr., lið 1, a, b og c, rúmlega kr. 1.200.000.00. Greiðslur vegna kynsjúkdóma námu sama ár kr. 27.000.00. Greiðslur, sem inntar hafa verið af hendi vegna bráðabirgðaákvæðisins og annarra sjúkdóma en berklaveiki, holdsveiki og kynsjúkdóma, hafa numið kr. 672.000.00. Af þeirri upphæð er langmestur hluti vegna geðveikisjúklinga, eða um kr. 550.000.00. Vegna annarra sjúkdóma, sem styrkur er veittur til, hefur kostnaður numið kr. 120.000.00 á árinu. Af þeirri upphæð eru nærri kr. 70.000.00, sem sumpart er styrkur veittur til gerfilimakaupa og sumpart til sjúklinga, er að nokkru leyti dvelja í heimahúsum og að nokkru leyti á hælum. Það, sem þá er afgangs, eru styrkveitingar til sjúklinga, sem í raun og veru heyra undir lög um langvarandi sjúkdóma, en hafa að vísu ekki fengið nema lítinn hluta sjúkrakostnaðar síns greiddan. Alls hafa 49 menn hlotið styrk af þessu fé á árinu, sem skiptist þannig:

21 sjúklingur hefur fengið 30% af kostnaði

9 sjúklingar hafa fengið 45% af kostnaði

17 sjúklingar hafa fengið 60% af kostnaði

2 sjúklingar hafa fengið 80% v. sérst. ástæðna.

Samkvæmt þessu má ætla, að sú hækkun, sem orðið hefur á þessum lið fjárl. verði til þess að fella niður bráðabirgðaákvæðin. Hækkunin hefur þó ekki orðið mikil beinlínis, ef miðað er við upphæðina kr. 120.000.00, en síðan hefur verðlag hækkað, svo að gera verður enn ráð fyrir nokkrum kostnaðarauka. Um það, hvað sú hækkun, vegna brtt., kann að nema miklu, verður ekki hægt að áætla um með neinum líkindum. Þess skal getið, að berklayfirlæknir hefur tjáð n., að engri styrkbeiðni hafi verið synjað með öllu nema af sérstökum ástæðum, eins og t. d. ef um ellisjúkdóma var að ræða, sem vart er hægt að telja til alm. sjúkdóma. Um brtt. a-lið vil ég segja það, að samkv. henni er lagt til, að málsgr. þeirri, er þar greinir, sé bætt við 4. gr. l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, en fyrri málsgr. þeirrar gr. er svo hljóðandi:

„Nú hefur sjúklingur (sbr. 1. tölulið 1. greinar) verið úrskurðaður styrkhæfur samkvæmt lögum þessum, og á hann þá rétt á styrk úr ríkissjóði til greiðslu 4/5 kostnaðar við nauðsynlega og hæfilega langa dvöl í sjúkrahúsi eða hæli við hans hæfi, svo og alla viðeigandi aðhlynningu þar, þar með talin nauðsynleg læknishjálp og lyf, enda sé um að ræða slíkt sjúkrahús eða hæli, sem rekið er af ríkinu, eða sjúkrahús eða hæli, sem ráðherra hefur samið við um vist og greiðslur fyrir slíka sjúklinga, er þangað leita.“

Þar með er sagt samkv. gr. þessari, að sjúklingur eigi rétt á styrk úr ríkissj. til greiðslu 4/5 sjúkrakostnaðar, ef hann er úrskurðaður styrkhæfur, en um það segir 2. gr.:

„Samkvæmt lögum þessum verður styrkur ekki veittur þeim, sem er svo efnum búinn eða framfærandi hans, að ætla má, að hann sé fær um að standast sjálfur kostnaðinn af sjúkdómi sínum eða örkumli, án þess að stofna afkomu sinni í tilfinnanlega hættu.

Samkvæmt lögum þessum verður styrkur ekki heldur veittur til greiðslu kostnaðar, sem hlutaðeigandi á rétt á að fá greiddan samkvæmt lögum um alþýðutryggingar.“

Ef líkur eru til þess, að sjúklingur stofni afkomu sinni í tilfinnanlega hættu vegna sjúkrakostnaðar síns, verður honum úrskurðaður styrkur úr ríkissjóði til greiðslu 4/5 hluta sjúkrakostnaðar. Hins vegar hefur svo verið ráð fyrir gert í l., að annaðhvort greiði sjúklingur þennan 1/5 hluta sjúkrakostnaðar, sem á vantar, eða eins og algengt er, að sveit hans greiði fyrir hann fé þetta um stundarsakir, en krefji styrkþega síðan um þennan 1/5 hluta. Eftir þeim upplýsingum, sem n. hefur fengið, er mjög mismunandi, hversu langt er gengið af hálfu hinna ýmsu bæjar- eða sveitarstjórna að krefjast þessa 1/5 hluta, og er stundum gengið svo fast að sjúklingum, að þeir hafa haft fjárhagsáhyggjur, jafnvel meðan þeir hafa legið þjáðir. Að þessu athuguðu hefur n. orðið sammála um að leggja til, eins og a-liður brtt. greinir frá, þannig að framfærslusveit styrkhæfra sjúklinga greiði 1/5 hluta sjúkrakostnaðar. Um greiðslur þessar fer samkv. 66. gr. framfærslul., en hún kveður á um það, að sveitarstjórn er ekki heimilt að endurkrefja styrkþega um þessar greiðslur. N. álítur, að með þessu sé létt undir fjárhagsáhyggjur sjúklinga, ef úrskurður fæst um það, að sjúklingur sé styrkhæfur á annað borð. Nákvæmar upplýsingar um það, hve mikill hluti sjúklinga er styrkhæfur, liggja ekki fyrir. En ég held, að ég muni það rétt, að eftir því, sem berklayfirlæknir hefur tjáð okkur í n., séu af þeim, sem sækja um styrk vegna berkla, innan við 3%, sem eru ekki úrskurðaðir styrkhæfir. Einnig eru nokkrir berklasjúklingar, sem sækja alls ekki um nokkurn styrk, en um tölu þeirra er mér ekki kunnugt. N. er því á einu máli um það, að þessi breyt. sé gerð á l., eins og ég hef nú frá sagt.

Við 2. umr. þessa máls barst aths. frá hv. þm. Barð. um það, hvort ekki sé athugunarvert að fella ekki niður málsgr. í bráðabirgðaákvæðinu, sem lýtur að rekstri holdsveikraspítalans á Laugarnesi. N. hefur ath. þetta mál nánar, og samkv. l. frá 1898, um holdsveika menn, er mælt svo fyrir, að kostnaðinn skuli greiða samkv. fjárl. Hins vegar telur n., að um það megi deila, hvort þessi l. séu í gildi eða ekki. Telur hún því rétt að taka þetta efnisákvæði úr bráðabirgðaákvæðinu upp í brtt., eins og segir í b-lið, þess efnis, að meðan holdsveikraspítalinn á Laugarnesi verður starfræktur af ríkinu, skuli holdsveikisjúklingar, sem þar eru vistaðir fyrir ráðstafanir hins opinbera, hafa þar að öllu leyti ókeypis vist á kostnað ríkissjóðs, eins og verið hefur. N. mælir einhuga með því, að þessar breyt. verði gerðar, sem brtt. greinir frá.