28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

43. mál, lendingarbætur í Hnífsdal

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. Ed. hefur haft þetta mál til meðferðar, eftir að það kom frá hv. Nd. Hún hefur borið það saman við önnur l. um lendingarbætur og fundið ástæðu til þess að gera á því nokkrar breyt. Í 4. gr. frv. er kveðið svo á, að það þurfi samþ. hreppsn. til þess að gera lendingarbætur, en í öðrum l. er talað um, að það þurfi samþ. lendingarbótasjóðsstjórnar og hreppsn., og þykir sjálfsagt, að ekki sé gengið fram hjá stjórn lendingarbótasjóðs, þegar á að gera einhver mannvirki, og þess vegna miðar breyt. við 4. gr. að því að samrýma þetta. Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að hér skuli kjósa 5 menn í lendingarbótasjóðsstj. og aðra 5 til vara. Þetta er nokkuð öðruvísi en í öðrum l. um þetta efni. Hér er ekki um viðamikil störf að ræða, og n. þykir því óþarfi að hafa 10 menn til þess að stjórna þeim, og þess vegna leggur hún til að kosnir verði 3 menn í stað 5 og 3 til vara. En aðalbreyt., sem n. leggur til, að gerð verði, er við 8. gr. Þar er getið um, að heimilt sé að taka 2% til sjóðsins, og fer það í bága við það, sem er í öðrum l., en þar er gert ráð fyrir að taka 6%. N. þótti ekki ástæða til þess að lækka þetta, en leggur til, að hér gildi það sama og í öðrum hliðstæðum l. Lendingarbótasjóðsstj. hefur það í hendi sér að ákveða gjaldið lægra, ef hagur sjóðsins leyfir það, en getur, ef erfiðleikar steðja að, gripið til heimildarinnar án lagabreyt. N. leggur því einróma til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem ég hef nú lýst.