03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

43. mál, lendingarbætur í Hnífsdal

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég sé, að hv. Ed. hefur breytt lítillega frv. því, sem hér liggur fyrir um lendingarbætur í Hnífsdal. Þau atriði, sem hv. Ed. hefur breytt, eru fyrst og fremst það, að Ed. hefur breytt því ákvæði 5. gr., að í hafnarnefnd skyldu sitja 5 menn, í það horf, að í stað 5 manna skyldu í þeirri n. aðeins sitja 3 menn. Ég vildi aðeins gefa skýringu á því, hvernig á því stóð, að í upphafi var í frv. gert ráð fyrir, að 5 menn skyldu vera í hafnarnefnd þarna eða í þeirri n., sem hefur umsjón með lendingarmálum Eyrarhrepps. Undanfarið hefur hafnarnefnd verið í Hnífsdal, og í henni hafa verið 5 menn. Ég átti svo tal við hreppsnefnd Eyrarhrepps um það, hvort hún óskaði breyt. á þessu í samræmi við það, sem tíðkaðist í öðrum þorpum, þannig að 3 menn skyldu vera í þessari n. En hreppsn. óskaði þess frekar, að þetta væri óbreytt. Nú hefur hv. Ed. breytt þessu og gert ráð fyrir, að 3 menn verði í hafnarn. Vil ég ekki gera þetta að ágreiningsatriði og mun ekki hafa á móti því, að þetta ákvæði standi í l., úr því sem komið er.

Þá hefur hv. Ed. samkv. till. sjútvn. þeirrar hv. d. breytt ákvæði 8. gr. frv. um hundraðshluta þann, sem leggja má á brúttó verð afla hvers báts, og lagt til, að í stað 2% komi í frv. 6%. Upphaflega var gert ráð fyrir, að 2% gjald yrði lagt á brúttó verð aflans til þess að standa straum af kostnaði við byggingu og viðhald lendingarvirkjanna, sem var í samræmi við það, sem gilt hefur í hafnarreglugerð, sem í gildi hefur verið á undanförnum árum fyrir þorpið. Það er svipað um þessa breyt. að segja og hina, sem ég gat um, að ég sé ekki ástæðu til að setja mig á móti henni. Og þar sem hér aðeins er um heimild að ræða til handa hreppsnefndinni, þá hygg ég, að á móti þessari breyt. verði ekki haft.

Þriðja breyt., sem hv. Ed. hefur gert á frv., er þess eðlis, að þar er frekast um smávægilega leiðréttingu að ræða. Sé ég ekki ástæðu til að gera hana að umræðuefni.