24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

66. mál, hafnargerð á Dalvík

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv., sem ég hef hér lagt fram á þskj. 81, er um nokkra breyt. á l. um hafnargerð á Dalvík frá 1931, og þó að þetta frv. geri nú allmiklar breyt. á tveim gr. l., eins og þær hljóða, þá er nú breyt. samt sem áður ekki eins mikil og ætla mætti, sökum þess að þegar er búið að veita til hafnargerðarinnar allmiklu meira fé en ráð er fyrir gert í l. frá 1931, eins og ég mun síðar víkja að. Þetta frv. er því að nokkru leyti staðfesting á því, sem þegar hefur gerzt, og virðist réttara, að slík ákvæði séu tekin inn í hafnarl., þó að það fé, sem farið hefur fram úr upprunalegri áætlun, sé veitt á löglegan hátt, og þyrfti þess vegna ekki að leita nýrrar lagaheimildar.

Þetta frv. er aðeins í þrem gr. Í 1. gr. er farið fram á það, að framlag það, sem ætlazt er til, að ríkissjóður leggi til hafnargerðarinnar á Dalvík, sé hækkað upp í 480 þús. kr. úr 150 þús. kr., sem nú er í hafnarl. Auk þess er í 1. gr. fellt burtu ákvæðið um það, að 1/5 kostnaðar skuli koma sérstaklega frá sveitarsjóði Svarfaðardalshrepps. Í frv. er í stað þess gert ráð fyrir því, að 1/5 kostnaðar verði greiddir af hafnarsjóði Dalvíkur. Það sýnist í rauninni óþarfi að hafa þessa skiptingu milli sveitarsjóðs Svarfaðardalshrepps og hafnarsjóðs Dalvíkur, sem nú er í gildandi l. Svarfaðardalshreppur ber ábyrgð á hafnarsjóði Dalvíkur á allan hátt og hleypur að sjálfsögðu undir bagga, ef hafnarsjóður getur ekki staðið straum af sínum gjöldum. Ef á hinn bóginn hafnarsjóður getur staðið straum af gjöldunum, þá sýnist ástæðulaust annað en að hann geri það.

Í 2. gr. frv. er svo heimild ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán, er kynni að verða tekið vegna hafnargerðar Dalvíkur. Þessi ábyrgðarheimild hækkar allverulega eða úr 150 þús. kr. í 720 þús. kr.

3. gr. frv. er við 7. gr. l. og er um það eitt, að hafnarnefndarmennirnir þrír skuli kosnir af hreppsnefnd Svarfaðardalshrepps. En í l. segir, að einn skuli kosinn af sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu. Virðist þetta vera ástæðulaust, að einn nm. sé kosinn með öðrum hætti en hinir, og í öðru lagi hefur reynslan sýnt það, að þetta hefur valdið óþægindum og jafnvel óvissu um, hver ætti sæti í n. Stundum hefur t. d. ekki verið fullvíst um kjörtímabil þessa eina nm., sem kosinn hefur verið af sýslun. og hvort hann ætti sæti í hafnarn. eða ekki.

1. og . 2. gr. hafnarl. frá 1931, sem hér er aðallega um að ræða að breyta, voru byggðar á áætlunum, sem þá lágu fyrir, og var þá áætlað, að höfn á Dalvík, sem átti að verða allmikið mannvirki, mundi kosta um 375 þúsund kr. En þó að hafnarl. væru sett, þá var ekki hafizt handa um framkvæmdir, og liðu allmörg ár, þar til framkvæmdir byrjuðu, en þá var árferði orðið breytt, fyrst og fremst að því er verðlas snerti. Einnig breyttust að nokkru leyti fyrirætlanirnar um það, hvaða framkvæmdir skyldi vinna þarna. Þegar hafizt var handa um verkið, þá var byggt á till. og áætlunum vitamálastjórnarinnar um það að byggja hafnargarð norðan við höfnina, og mun hann hafa átt að vera um 300 metra langur. Þá var ráðgert að gera hafnarbryggju innan við þennan garð. Sérstök áætlun var gerð um þessar framkvæmdir allar, og var hún um 500 þús. kr. Og satt að segja hafa fjárveitingar Alþ. á fjárl. síðan verið miðaðar við þessa áætlun og þessi fyrirtæki, en ekki við l. eins og þau eru frá 1931, nema hvað hlutiallið hefur haldizt.

Árið 1940 var afráðið að gera bryggju meðfram innri hlið garðsins. Ég get nú ekki fullyrt neitt um það, hvað verkinu er langt komið nú í dag, en ætlunin var, að á þessu hausti yrði hafnargarðurinn fullgerður til bráðabirgða, en hann á að verða 187 metrar að lengd og bryggjan með fram innri hlið hans 116 metrar að lengd. Kostnaðurinn, sem fyrirsjáanlegur er í sambandi við þessar framkvæmdir, mun verða eitthvað yfir 600 þús. kr. Ég skal geta þess um þessar framkvæmdir á Dalvík, að það hefur þegar orðið mikið gagn að hafnargarðinum og það á meðan hann var tiltölulega mjög stuttur. Það hefur komið í ljós, að lítil á, sem rennur til sjávar rétt norðan við garðinn, ber fram möl og grjót. Þessi möl fór áður inn með landinu og fyllti þar upp, en nú leggst hún að garðinum og myndar eyri með fram honum að norðanverðu. Á þessu sýnist munu verða áframhald, og þá getur þarna orðið mikill og öruggur skjólgarður, miklu öruggari en nokkuð það, sem hægt er að gera með manna höndum.

En þó að frv. sé að nokkru leyti staðfesting á fyrri fjárveitingum og ábyrgð ríkissjóðs, sem farið hefur nokkuð fram úr því, sem l. ákveða, þá hefur frv. þó víðtækara ætlunarverk. Það er sem sé miðað við það, að framkvæmdir haldi þarna áfram, a. m. k. þannig, að hinn fyrirhugaði garður að norðanverðu verði fullgerður, hvað svo sem líður hinum garðinum, sem á móti á að koma. Ég býst við, að það eigi langt í land, að hann komi. Ég vil nú benda á það, að þó að þessi breyting á hafnarl. verði samþ., þá er ekki hundrað í hættunni, því að þessi framlög koma ekki til greina, nema fé sé veitt til þess í fjárl., og náttúrlega gæti þingið veitt í fjárl. fé til þessara framkvæmda, þó að hafnarl. væri ekki breytt. En rétt þykir, að hafnarl. séu í samræmi við þann tíma, sem nú er, þó að ekki sé nú ætlunin að gera miklu meira að sinni en þegar er orðið.

Ég þarf ekki að lýsa staðháttum á Dalvík. Það er sjálfsagt öllum hv. þm. kunnugt, að það er mikil útgerð frá Dalvík, og hún hefur þegar haft mikið gagn af því, sem gert hefur verið til hafnarbóta. Og þó búast allir við því, að bæði öryggi og aðstaða batni til stórra muna, eftir að því verki, sem nú er verið að vinna, verður lokið. En það er ekki einasta útgerðin á Dalvík, sem hefur hagsmuni af því, að þarna komi sæmileg höfn. Eins og allir munu vita, þá er Dalvík með Svarfaðardalshreppi eitt fjölmennasta sveitarfélag hér á landi, þar er allmikil verzlun og töluvert mikið um uppskipun og framskipun á alls konar vörum. Þess vegna er það auðvitað mál, að hér er um mikið stórmál að ræða fyrir þetta pláss.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.