08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég hef enga hvöt til þess að halda uppi löngum umr. um málið. Það er ekki það margbrotið, að langar umr. þurfi um það þess vegna.

Eins og við mátti búast af hálfu hæstv. forsrh., færði hann það fram, að ríkisstj. gæti haft það í hendi sér að kalla þingið saman fyrr en til er tekið í frv., m.ö.o. fyrr en 1. okt., ef henni sýndist nauðsyn bera til þess, Hæstv. forsrh. viðurkenndi erfiðleikana, sem nú er við að etja, en sagði nú að vísu, að þeir væru nú einna mestir, þegar blöð andstæðinga ríkisstj. væru að lýsa þeim. Ef þetta væri nú svo, að með sönnu gæti talizt, að það væri þannig ástatt með þau mál, sem mönnum hefur gengið erfitt að ráða fram úr, að erfiðleikarnir við þau væru nú orðnir mestir á pappírnum, þá væri vel, og þá gætum við verið rólegir. En ég held, að þrátt fyrir það að hæstv. forsrh. beri sig karlmannlega, hafi hann samt það glöggt yfirlit yfir þessi mál, að hann sjái, að við höfum við aðra og miklu meiri örðugleika að etja hér á landi en þá, sem eru á pappírnum í blöðum andstæðinga hæstv. ríkisstj. Það er þó, sem betur fer, enn ekki svo komið, að stöðvun hafi orðið á atvinnurekstrinum í landinu. En þarf ástandið að breytast svo sérstaklega mikið frá því, sem er, til þess að atvinnuvegir landsmanna stöðvist? Og við þurfum ekki að eyða mörgum orðum til að sannfæra menn um, hvað koma mundi í kjölfar slíkrar stöðvunar. Ég ætla ekki að fara nú að fjölyrða um það, en ég veit, að hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. gera sér þess fulla grein.

Hæstv. forsrh. vék að því, að ríkisstj. mundi leysa vandamálin og þm. mundi ekki þykja æskilegt að þurfa að sitja hér kannske mestallt árið. Og það er rétt, að hv. þm. mundi ekki þykja það fýsilegt. Það er síður en svo, að manni þyki æskilegt að sitja svo lengi á þingi sem raun hefur á orðið, en maður verður að gera það. Og fyrir hvaða sakir mundi það þá helzt vera, að þingið hefur setið svo lengi? Það er vitanlega fyrst og fremst fyrir það að það eru það skiptar skoðanir og það ólík sjónarmið innan þingsins, að það fást þess vegna ekki fram nauðsynlegar ákvarðanir til þess að ráða vandamálunum til lykta á stuttum tíma. Og þetta er ekki nýtilkomið nú, heldur er þetta, því miður, búið að vera í þinginu í nokkur ár.

Ég efast ekkert um, að hæstv. ríkisstj. muni af sinni hálfu reyna að leysa vandamálin eftir því sem þau koma fyrir. En þau eru bara mörg þess eðlis, að ég get ekki búizt við, að hæstv. ríkisstj. telji sig m.a. hafa þá stoð í l., sem þarf til þess að leysa ýmis þau vandamál, sem manni virðist, satt að segja, vera til staðar nú, — og getur áreiðanlega bætzt við þau. Bæði fjárhagsmál, atvinnumál og dýrtíðarmál, sem eru nú til úrlausnar, eru það erfið viðfangs og þannig í eðli sínu, að manni virðist, að það megi tæpast dragast mjög lengi, að eitthvað verði reynt að gera í þeim. Og því meiri nauðsyn verður á því, sem erfiðleikarnir verða kannske meiri en þeir eru nú og e.t.v. meiri en við nú komum auga á.

Hæstv. forsrh. vék að því, út af brtt. hv. 2. þm. Rang., að ríkisstj. mundi taka það til athugunar, sem í brtt. felst, hvort nauðsyn væri á því að kalla Alþ. svo snemma saman, sem þar er til tekið. Það kann nú að vera, að ég hafi eitthvað skrýtnar hugmyndir í sambandi við þetta. En mér finnst enn, að það sé ákaflega fjarri, eftir því hvernig málin standa, að Alþ. verði ekki kallað saman fyrr en 1. október. Það getur verið, að menn geti talað um einhvern samkomudag Alþ. á milli 1. sept. og 15. sept. En ekki getur verið áhorfsmál að ákveða, að þingið komi saman ekki síðar en á þessu tímabili. Eftir því sem afurðasölumálin horfa nú við, hlýtur Alþ. að verða að koma saman það tímanlega, að búið sé í þeim dýrtíðarmálum að ráða ráðum sínum fyrir 15. sept. í haust, — nema hæstv. ríkisstj. ætli sér að gera eitthvað í því upp á sitt eindæmi án aðstoðar þingsins. Um það veit ég ekki.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, — þó að ég hafi vikið að þessu, og það er hv. þm. ljóst, hverju máli þetta kann að skipta —, að fjölyrða um þetta mál og get látið máli mínu lokið.