08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Skúli Guðmundsson:

Ég ætla mér ekki að lengja þessar umr. neitt að ráði, en vil þó minnast á eitt atriði í því sambandi. Ein af helztu ástæðum þeirra, sem mæla með frv., er, að mjög erfitt sé að afgreiða fjárlög í vor, svo mörgum mánuðum áður en þau eiga að koma til framkvæmda. Nokkuð er til í því. En þá vil ég benda á hitt, að ástandið í fjármálum ríkisins er þannig, að varla er verjandi að fresta samkomudegi Alþingis til 1. okt. Þessi ástæða vegur miklu meir en móti hinni. Útlitið um afkomu ríkissjóðs á þessu ári er allt annað en gott, og verður að telja ákaflega hæpið, að ríkisbúskapurinn verði hallalaus á árinu, þrátt fyrir nýju skattana. Sumir þessir nýju skattar eru þannig, að hæstv. stjórn hefur lýst því yfir, að óhugsandi sé að framlengja þá, en hins vegar óupplýst, hvað á að koma í þeirra stað. Ekkert hefur komið fram frá ríkisstj. um það. Hins vegar hljóta gjöldin að verða enn hærri á næsta ári en nú, ef sömu stefnu í fjármálum er framfylgt. Nú munu verða afgreidd ný launal., sem koma til fullra framkvæmda 1946, og verður af þeim mikill útgjaldaauki. Þá má búast við þörf á auknu fé til dýrtíðarráðstafana, eigi vísitalan ekki að hækka, en flestir munu á einu máli um, að útflutningsatvinnuvegir okkar þoli ekki meiri hækkun. Þá hefur stjórnin tilkynnt, að bráðlega skuli sett ný tryggingarlöggjöf, og gera má ráð fyrir, að ríkissjóður beri nokkurn þunga af henni. Tekjuþörf ársins 1946 hlýtur því að verða miklu meiri en 1945. Þetta er svo mikils varðandi mál, og mörg önnur, sem leysa þarf, að þeim viðfangsefnum er ófært að fresta til elleftu stundar. Mér virðist það sjálfsögð krafa til ríkisstj., að hún geri í tæka tíð grein fyrir því, hvernig hún hugsar sér að leysa þessi mál. Það getur vel svo farið, að ekki verði unnt að komast að samkomulagi um fjármálaafgreiðsluna fyrr en að loknum kosningum. Hvernig erum við á vegi staddir, ef nauðsyn reynist að láta kosningar fara fram, vegna þess að samkomulag næst ekki um málin á þingi, sem hefst ekki fyrr en 1. okt.? Kosningar yrðu þá látnar fara fram á jólaföstu næsta vetur, og ætla ég ekki að ræða um, hversu óverjandi slíkt er. Síðan leiddi af þessu, að enginn kostur væri á að afgreiða fjárl. fyrir áramót.

Nú er það að vísu svo, að það er okkur þm. ekkert ánægjuefni að þurfa að sitja hér mikinn hluta af árinu, sízt okkur, sem eigum heima fjarri Reykjavík. Þó er til þess ætlazt af þeim, sem taka að sér þessi störf, að þeir skorist ekki undan skyldunni að sitja á þingi, þegar þess raunverulega þarf, og persónuleg sjónarmið verða þar að víkja.

Með því að skjóta þinghaldi ársins 1945 svo á frest sem ríkisstj. vill gera, tel ég aðkallandi málum teflt í allt of mikla tvísýnu.