08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Mig hefði langað til að fá dálitlar skýringar hjá hæstv. ríkisstj. Það eru ekki margir dagar, síðan frv. þessu var útbýtt. Aðalforsenda þess var þá sú, að þing væri búið að sitja lengi og ljúka afgreiðslu þeirra mála, sem aðkallandi væru í bili. Hvað á ríkisstj. við? Enn er óafgreitt dýrtíðarfrv. Er ekki aðkallandi að afgreiða það? Ef til vill ekki? Enn er ekki komið úr n. í Ed. veltuskattsfrv. og á síðan eftir að koma til þessarar d. Er ekki aðkallandi að afgreiða það? Launafrv. er ekki komið úr n. þessarar d. Er nú ekki lengur orðið aðkallandi að afgreiða það? Og sé þessi forsenda rétt, því er ríkisstj. þá að láta okkur sitja yfir málum, sem eru ekki talin aðkallandi? Það er víst búið að afgreiða hin, sem „aðkallandi“ voru. Af því að nú er hér einn ráðh., en oftast sést enginn þeirra, vona ég, að hann geti skýrt þetta f. h. ríkisstj.

Hæstv. forsrh. talaði hér áðan og sagði, að hæstv. þm., eins og hann orðaði það, óskuðu þess almennt að þurfa nú ekki að sitja lengur þing og yrðu því fegnir, að þingið yrði ekki kallað saman fyrr en seint á árinu. Ég býst við, að ráðh. gleymi að gera greinarmun á persónulegum óskum þm. og skyldum þeirra. Enginn vafi er á, að hver þm. óskar eftir persónulega að þurfa ekki að sitja lengur á þingi nú og þurfa ekki að mæta á þing í vor. En þess þarf, og þá dugir ekki að mögla. Þingþreytan er talin valda því, að heill hópur þm. lætur ekki sjá sig á þingi dögum saman, og sumir þm. láta sig sífellt vanta, þegar afgreiða á mál. En ég hygg, að hér valdi miklu vöntun á því að finna, hvað er skylda, og framkvæma hana. En skylda og persónuleg löngun eru sitt hvað. Þann greinarmun fann ég, að hæstv. forsrh. gerði engan. En hann þyrfti að þekkja hann.

Ég get tekið undir það mjög ákveðið, að mér er með öllu óskiljanlegt, hvernig ríkisstj. getur hugsað sér, að þingið þurfi ekki að koma saman fyrr en 1. okt. Þegar hefur verið á það bent, hvað af því getur hlotizt og muni hljótast, og þarf ég ekki að endurtaka það. Finnst þm. ekki saka, þótt ekkert sé aðhafzt, fyrr en að morgni i6. sept., þegar núverandi verðákvarðanir eru fallnar úr gildi? Á þá mjólkurverðlagsn. að koma saman og setja sitt mjólkurverð, kr. 1,80 á lítra eða 2 kr. eða hærra, og kjötverðlagsn. í öðru lagi sitt verð á kjöt og láta þetta síðan verka á vísitöluna? Eða sér stjórnin svo langt fram í tímann, að hún treysti á, að þetta verði vandalaust mál?

Álit mitt er, að þing verði að koma saman í allra síðasta lagi um miðjan ágúst. Það taldi ég einnig nauðsynlegt í fyrra, en það var þá dregið, og afleiðingarnar þekkjum við.

Ég get þá líka hugsað mér, að einhver ástæða sé kannske í undirvitundinni til þess, að þetta frv. er fram komið. Kannske það hafi þótt svo ákaflega ánægjulegt 1942, þegar sami hv. ráðh., sem nú var að leggja þetta frv. fyrir þ., varð að láta bráðabirgðafjárl. gilda langt fram á árið 1943, vegna þess að ekki vannst tími til að samþ. fjárl. fyrir áramót? Kannske honum hafi þótt þetta. fordæmi svo ánægjulegt, að hann langi til, að það endurtaki sig, með því að láta þ. koma svo seint saman, að vonlítið sé, að fjárl. séu samþ. fyrir áramót? Mér þótti skammarlegt, að það skyldi koma fyrir þá, og mig langar ekki á neinn hátt til þess, að það endurtaki sig.

Það var nú svo, að þegar núv. ríkisstj. settist í ráðherrastólana, var mikið talað um nýsköpun og um þá nýju merkilegu stefnu, sem hæstv. stj. ætlaði að taka upp á ýmsum sviðum. Þá voru allir vegir færir í fjármálum. Það þurfti bara að hvíla sig og hugsa málið svolítið, svo kom leiðin. Og Alþ. var gefið frí. Þegar það var búið, voru komin fram nokkur vandamál og vandræði að leysa þau. Á endanum komu þó nokkur frv., en öll með þeim formála, að þau séu einungis til bráðabirgða. Stefnan, sem fram komi í frv., sé algerlega röng og henni verði að gerbreyta.

Þegar ríkisstj. var búin að finna þetta, kom það næst, að hún þyrfti einhvern tíma til þess að finna þessa nýju stefnu, sem hún ætlar þá að fylgja, fyrst hún fann hana ekki áður en hún settist í stólana. Náttúrlega hefði verið skemmtilegast, að hún hefði fundið stefnuna áður, því að ævinlega er bezt að vita, hvert maður ætlar, áður en maður leggur af stað; það er verra að átta sig, þegar maður er kominn eitthvað áleiðis. En það var nú ekki, og nú er bara spurningin frá mínu sjónarmiði: Hvað þarf ríkisstj. langan tíma til þess að finna þessa stefnu? Hvað er langt þangað til, að hún getur sagt Alþ. og þjóðinni allri, hvaða stefnu hún ætli að fylgja í dýrtíðarmálunum og fjármálum? Hún er búin að lýsa því yfir, að það þurfi að hverfa frá þessari stefnu, sem fylgt hefur verið í fjármálum og afurðasölumálum, en þá er líka alveg nauðsynlegt, að hún lofi þ. og þjóðinni allri að heyra eins fljótt og verða má, hver nýja stefnan er, sem hún ætlar sér að taka upp. Eftir þessu frv. ætlar hún ekki að gera það fyrir 1. okt. Það er nokkuð löng bið, og það, sem af henni hlýzt, er líka það, að ef sú stefna ekki hefur meiri hluta þ. með sér, leiðir óumflýjanlega af því, að kosningar verða að fara fram á vetri komanda. Ég held, að hæstv. stj. hljóti að nægja skemmri tími til þess að forma stefnu sína og koma með hana fyrir þ.

Ég er ekki á sama máli og sessunautur minn um það, að bezt sé að hafa þ. á haustin. Eins og reikningshaldi ríkisins er nú háttað, fer því mjög fjarri, að það sé hagkvæmt. Ef við ætlum að fara inn á þá braut, þarf líka að breyta reikningshaldinu. Í stað þess að hafa reikningsárið almanaksárið, yrði það að vera frá sept.-lokum til nóv.-byrjunar.

Svo að ég víki nú aftur að stefnumálum stj., þá langar mig að spyrja, hvort hún hafi ekki getað hugsað um stefnuna, sem hún er að leita að, í fríunum tveimur, sem hún hefur fengið, svo að þjóðin og þ. gæti heyrt hana nógu snemma, til þess að kosningar geti farið fram á hæfilegum tíma, ef meiri hl. þ. aðhyllist ekki þessa stefnu, þegar hún loks er fundin. En nú er fleira. sem til greina kemur. Það mun leiða til algers öngþveitis, ef ekki verður fyrir 16. sept. búið að ganga frá sölufyrirkomulagi landbúnaðarafurða, en þar sem þ. verður að gera það að einhverju leyti, þá tel ég með öllu ótækt að samþ. frv. þetta óbreytt. Ég tel, að það eigi að samþ. till. minni hl. n., sem miðar við byrjun maí, en ef hæstv. ríkisstj. getur fært rök fyrir því, að það sé of stuttur frestur til þess, að hún geti markað stefnu sína í fjármálum og dýrtíðarmálum, þá get ég gjarnan verið með því að gefa henni lengri frest um mánuð. Ég mun þó ekki koma með neina brtt., heldur fylgja brtt. hv. minni hl. n., og verði hún felld, fylgi ég brtt. á þskj. 1071, sem er sýnu skárri en frv. stj. óbreytt.