08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Það eru aðeins nokkur orð til andsvara hv. 2. þm. N.-M.

Hann sagði, að ég hefði farið rangt með, að ég hefði sagt, að reglulegt Alþ. skyldi koma saman eigi síðar en 1. dag okt., og ég stend við þetta, hvað sem hv. þm. segir, því að í frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Reglulegt Alþingi 1945 skal koma saman 1. dag októbermánaðar, hafi forseti Íslands eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.“

Þetta þýðir, að þ. skuli koma saman eigi síðar en 1. dag okt., því að 1. okt. er sá síðasti dagur, sem á að verða samkomudagur Alþ., en öllum möguleikum fyrir samkomudegi fyrr á árinu er haldið opnum.

Í öðru lagi var hv. þm. að tala um þau mál, sem enn væru óafgr. Ég vil aðeins segja nokkuð svipað um það og ég sagði áðan, að það hefði engin áhrif á samkomudag Alþ., að þau mál væru enn óafgr. Það er alveg jafn möguleiki á því að afgr. launal. og skattal. á þessu þ., hver svo sem samkomudagur þ. verður. Þessi mál verða afgr. á þessu þ., eins og hv. þm. veit mæta vel, og það er því algerlega út í hött hjá honum að vera að ræða um þau.

Að lokum minntist hann á það, hverjir sæktu þingfundi og hverjir ekki. Ég tek það ekki til mín, því að ég tel, að ég hafi sótt þingfundi eins og efni hafa staðið til og ekki vantað a.m.k. á neitt að ráði af þingfundum, svo að hv. þm. hefur enga ástæðu til aðdrótta því að mér, að ég hafi ekki sótt þá.