09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Jónas Jónsson:

Af því að hæstv. forsrh. villtist rétt undir ræðulokin lítið eitt út af veginum og lét falla nokkur orð um það, að ekki hefði allt verið í sem beztu lagi, þegar hann tók við, þá vil ég með fáum orðum benda honum á það, að ég held, að þetta sé misskilningur hjá honum. Ef við litum á dýrtíðarmálin, þá hafði fyrrv. stj., með góðum tilstyrk Alþ., tekizt að halda þeim á þolanlegum grundvelli. Hið sama var að segja um verzlunarmálin, en ég fer ekki út í þau, því að hæstv. ráðh. þekkir þau. En mér skilst, að það hafi verið til 10 millj. í stokk, eða því sem næst, þegar hæstv. forsrh. tók við völdum, og það hefði einhvern tíma þótt laglegur skildingur. Ég vildi aðeins vekja eftirtekt hæstv. ráðh. á því, að hann mætti sýna sínum fyrirrennara meiri þakklátssemi í huga fyrir það, hversu hlý aðkoman var, þegar nýja stj. kom. Annars get ég skilið, að það sé nokkur freisting fyrir þingið og stj. að vera með þessu frv., vegna þess að það er eitthvað örlagaríkt við þetta samband milli þingsins og stj., stj. vilja helzt losna við þingið og þingið er ekki hrifið af stj., en innri nauðsyn knýr þessa aðila til að vera saman, en það hefur verið fullmikið af því góða upp á síðkastið. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég væri yfirleitt fús til að styðja frv., ef ekki væri annað á bak við það heldur en það, að þm. ættu að fá frí. En þrátt fyrir velviljaða tilfinningu frá stj., get ég hugsað mér, að hún vilji losna við þingið og hafi því viljað knýja þetta fram. Ég vil þá segja það, sem hæstv. ráðh. kom að, að þessi þingtími, sem var ákveðinn síðari hluta vetrar, hefur reynzt ákaflega skammur, bæði upp á síðkastið og einnig áður en núv. stj. kom. Og mín skoðun hefur orðið sú, að þetta hefur orðið öðruvísi en til var ætlazt. Fyrst urðu vetrarþingin löng, svo komu haustþingin og stóðu stundum fram yfir áramót, eins og nú. En þetta er alveg óhafandi, og öllum er ljóst, að það væri ávinningur, ef á því væri ráðin bót og þingin stytt. Ég geri ráð fyrir því, þegar frá eru teknir þeir erfiðleikar, sem nú eru í sambandi við stríðið, að þá muni menn fallast á þá skoðun að reyna að ljúka þingi af fyrr en á þessum tíma, síðustu mánuðum ársins. En það er eitt mál, sem gerir það að verkum, að þessi ákvörðun, sem stj. sjálfsagt getur látið samþ., getur orðið örlagarík. Út af því atriði vil ég beina fyrirspurn til stj. Það er kunnugt, að undanfarin ár hafa haustþing verið kölluð saman í byrjun sept., af því að það hefur verið óúttalað, hvernig ætti að hindra óeðlilega hækkun vísitölunnar og kaupgjaldsins. Hæstv. ráðh. er ekki glaður yfir því að eiga að ná í peninga til að borga niður dýrtíðina og hefur haft um það stór orð, að það yrði ekki gert áfram. En út af fyrir sig held ég, að það sé óþarfi fyrir núv. stj. að vera svo undrandi yfir þessu formi, vegna þess að það, sem auðugustu og voldugustu þjóðir heimsins gera, t.d. Bretland og Bandaríkin, er það að eyða miklum peningum til þess að fá ekki dýrtíðina hærra en hún er komin, og það hefur tekizt vel, eins og við sjáum af átökunum um skipin, að stj. hefur orðið að óska eftir því að fá brezk skip, til þess að einhver von væri til þess, að hægt væri að halda sjávarútveginum á floti næstu mánuðina. Þetta byggist á því, að Bretar gerðu það sama og fyrrv. stj., að halda dýrtíðinni niðri með tilfærslum. Það er almennt litið svo á, að það, að setja samkomudaginn 1. okt., sé klókindabragð og meiningin sé sú að láta þingið ekki koma saman fyrr en 1. okt. og láta líða hálfan mánuð frá því, að niðurborgun sé hætt, og láta skeika að sköpuðu með dýrtíðina. Þetta er eina atriðið, sem varasamt er í málinu frá mínu sjónarmiði, því að það væri ósanngjarnt að gera ráð fyrir því, að stj. vildi losna við þingið og þm. við stj. En aftur á móti er þessi hálfi mánuður stærsta málefnið. Einmitt sú staðreynd, að nú er búið að selja allt kjöt innanlands, er af því, að kjötið er svo ódýrt vegna niðurborgananna, og fyrir það, að kaupgetan er meiri en hún var. Ég álít ekki ósanngjarnt, að hæstv. forsrh. segði okkur eitthvað um þetta atriði, sem er eina stóra atriðið viðvíkjandi þessari till., og hvers vegna stj. lét fella till. um, að þingið skyldi koma saman 1. sept. Ég álít, að það sé því betra, sem þingið er styttra, og málefnalega sé ég ekki annað en þessi till. sé réttlát og eðlileg, ef stj. sér skynsamleg ráð til þess að hafa bæði stutt þing og fá dýrtíðina niður.