09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég get ekki orðið við tilmælum hv. þm. S.-Þ. um að gefa meiri skýringu á þessu atriði en ég var búinn að gefa í fyrri ræðu minni. Stj. hefur engar ákvarðanir tekið í þessum efnum að öðru leyti en því að reyna að lengja friðartíma þingsins og stj, eftir því, sem l. kunna að standa til. Það væru undarleg búhyggindi af stj. að hugsa sem svo: Það er bezt að halda þinginu utan við þetta allt og ráðfæra sig ekki við neinn mann. Það væri undarlegt, ef stj. færi að taka örlagaríkar ákvarðanir upp á sitt eindæmi, því að það mundi koma stj. illa, og yrði hún þá sjálfri sér verst, ef hún færi að starfa að málum upp á eindæmi og taka ákvarðanir, sem hún ekki teldi sig hafa ákveðinn þingvilja fyrir. En ef þingvilji væri hins vegar fyrir slíkum ákvörðunum, þá breyttist hann ekki við það, þótt þingið kæmi saman nokkrum dögum fyrr. En verði eitthvað á huldu í þeim efnum og stj. þykist ekki vita, hvar hún stendur, þá leitar hún til þingsins. Ég er ekki eins klókur og þessi hv. þm. og sé ekki eins langt fram í tímann eins og hann og hef þess vegna sagt allt, sem innra býr með mér um þetta efni, og hef ég þar svo ekki meiru við að bæta. Hins vegar, í sambandi við fyrrv. stj., þá finnst mér virðingarvert, að hv. þm. skyldi reyna að halda uppi málsvörn fyrir hana, þótt einnig í því megi ganga nokkuð langt, ef hann vill halda því fram, að allt hafi verið í stakasta lagi, þegar stj. fór. Það var þó ekki í betra lagi en svo, að ef ekki hefði verið tekið í taumana, var tilgangslaust að stofna lýðveldi. Með þessu er ekki verið að bera sakir á þá menn, sem sátu í stj., að öðru leyti en því, að þeir hefðu fyrr átt að segja af sér.