12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

218. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Þetta frv. er fram borið samkvæmt ósk stj. síldarverksmiðja ríkisins. Eins og hv. þm: er kunnugt, hafa verið samþ. l. um síldarverksmiðjur ríkisins, og í þeim er heimild til lántöku, 10 millj. kr. Nú er svo komið, að þær framkvæmdir, sem stjórn verksmiðjanna hefur í huga, eru svo miklar, að þessi heimild nægir ekki. Nú er í ráði umfram þá stækkun, sem þegar hefur verið gerð, að byggja nýja verksmiðju á Siglufirði fyrir næstu vertíð, sem vinnur úr 4000 málum á sólarhring, og einnig verksmiðju á Skagaströnd, 5000 mál, einnig fyrir næstu vertíð, en hvort hún kemst upp, er fyrst og fremst undir því komið, hvort fyrirhuguð hafnarmannvirki komast þar upp svo snemma, því að það er ástæðulaust að byggja hana þar, ef höfnin er ekki komin, en það mál liggur nú líka fyrir þinginu. Þetta frv. er því nauðsynleg ráðstöfun til að geta framkvæmt l., sem þingið samþ. 1942. Fyrst eftir að málið hafði verið samþ., varð töf á framkvæmdum, fyrst og fremst vegna þess, að erfitt var að fá vélar, og það, sem var þá fyrst og fremst gert, var að byggja verksmiðjurnar, en nú er svo komið, að búast má við, að hægt sé að fá vélar frá Ameríku hindrunarlítið, og vonandi er hægt að reikna með, að 1946 getum við fengið vélar frá Svíþjóð, en Svíar eru einna lengst komnir í framleiðslu á slíkum tækjum, einkum þó lýsisskilvindum. Frv. er því fram borið til þess, að við getum hagnýtt okkur þá möguleika, sem stofnað hefur verið til með l. frá 1942.

Ég vil mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn., og vænti ég, að hún reyni að hraða málinu svo sem frekast er unnt.