13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

218. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Í l. frá 1942, um að reisa skuli nýjar síldarverksmiðjur, var ríkisstj. veitt heimild til — þess að taka 10 millj. kr. lán í þessu skyni. Síðan hefur verðlag mikið breytzt, og sú þörf, sem þá var fyrir auknar framkvæmdir í þessum efnum, er orðin enn þá brýnni nú en þá var.

Í þessu frv., sem hér er lagt fyrir og borið er fram af hæstv. ríkisstj. skömmu eftir að stjórnarskiptin urðu, er farið fram á það, að lántökuheimildin í l. frá 1942 verði hækkuð úr 10 millj. upp í 20 millj. kr. Þær undirbúningsathuganir, sem fram hafa farið, hafa leitt til þess, að gert er ráð fyrir, að fyrst verði byrjað á að reisa síldarverksmiðju á Siglufirði, sem er miðstöð síldveiðanna, sem geti unnið úr um 10 þús. málum á sólarhring, en að næst í röðinni eða jafnhliða, að svo miklu leyti sem kleift reyndist, yrði reist 5 þús. mála verksmiðja á Skagaströnd eða Höfðakaupstað. Ekki er auðið að tímabinda það, hvenær síldarverksmiðjan verði reist í Höfðakaupstað, vegna þess að áður en hægt er að koma verksmiðju þar á fót, þarf að gera þar meiri hafnarbætur á staðnum en enn er búið. Hins vegar segir í nál., að gert sé ráð fyrir, að sú áminnzta síldarverksmiðja á Siglufirði verði fullgerð fyrir síldarvertíð 1946. Þar segir og, að gert sé ráð fyrir, að verksmiðjan í Höfðakaupstað verði fullgerð „um sama leyti eða svo fljótt, sem hafnarskilyrði þar leyfa.“

N. er sammála um það, að það sé hin mesta nauðsyn, að auknar verði síldarverksmiðjur hér á landi, og telur, að það sé einmitt rétt að byrja á þessum stöðum, sem ráð er fyrir gert 1 grg. frv. Fjhn. er því einhuga um að mæla með því, að frv. verði samþ. og ríkisstj. veittar þær heimildir, sem þar greinir.