08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

230. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. lagði áherzlu á það, að þetta frv. kæmi ekki þyngst niður á stríðsgróðanum, og það er alveg rétt. En eins og ég benti á með fáum orðum, má segja, að það komi nokkuð niður á stríðsgróðanum, ef tekjur frá 100–150 þús. kr. mætti kalla því nafni. En í vissum tilfellum kemur það ekki þyngst niður á stríðsgróðanum. Og þess vegna er líka rétt, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að gera frekari ráðstafanir en þetta frv. gerir ráð fyrir, ef breyta ætti í verulegum atriðum skattaálagningu á stríðsgróðann, en í daglegu tali eru hæstu tekjur kallaðar því nafni.

Ég er undrandi á því, að í fyrsta frv., sem kemur frá stj.; skuli ekkert hafa unnizt á í þeirri stefnu að hækka skattana á stríðsgróðann. Búast mátti við því eftir stjórnarsamning þann, sem birtur var, þar sem talað var um hin breiðu bök og margir hverjir skildu sem svo, að átt væri við hæstu tekjurnar. En það er enn tími fyrir ríkisstj. að leggja fram till. um aukin álög á stríðsgróðann, og má vera, að hún hafi það í hyggju, en þó gaf ræða hæstv. fjmrh. ekkert í skyn um það efni, en það kemur í ljós á næstunni. Þá minntist hæstv. fjmrh. á framtöl og það, sem ég sagði um það efni. Það er í fyrsta lagi um skattadómara. Ég hef ekki mikla löngun til að ræða um störf einstakra manna og verðleika þeirra á ýmsa lund. En ég verð, að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., að láta í ljós, að vald skattadómara er mjög misheppnað. Ég dreg ekki í efa, að einmitt þetta vald hefur orðið til þess, að skattadómaraembættið hefur ekki notazt af þeirri ástæðu, að það hefur síður en svo ýtt undir skattayfirvöldin að koma á framfæri við skattstjóra þeim málum, sem þau hafa haft áhuga fyrir, að nánar yrðu athuguð. Ég mótmæli því algerlega, sem mér finnst vera skilningur hæstv. ráðh., að það eigi að dæma um skattadómarastöðuna eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur fyrir störf skattadómara. Ef það er meiningin að ráðstafa fyrst því starfi eins og hefur verið gert og vísa síðan á það til afsökunar, að ekki sé hægt að gera frekari ráðstafanir í þessu efni, þá tel ég málsmeðferð fyrir neðan allar hellur, og ég trúi því ekki, að það verði látið falla niður. Að vísu gaf ekkert af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, í skyn, að stj. hefði í hyggju að beita sér fyrir endurbótum í þessu efni. Ég trúi því ekki, að meiningin sé að láta við það sitja, sem orðið er í þessum málum. Í fyrsta lagi ætti að breyta l. um skattadómara, og að mínum dómi ætti að setja á stofn skattadómstól, sem hefði víðtækara vald og skipaður væri völdum dugnaðarmönnum, og hann hefði einnig vald til þess að taka upp mál, án þess að til hans væri vísað. Ef þetta yrði gert og vandað vel val manna í slíkan dómstól og jafnframt gerð gangskör að því að styrkja ákveðin skattal., mundu framtöl verða betri að mörgu leyti, og ég efast ekki um að ná mætti stórkostlegum árangri og tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Það er óviðunandi fyrir þá menn, sem alltaf telja rétt fram, að skattar séu sífellt hækkaðir á þeim, en ekki gerð gangskör að því að bæta úr því, sem aflaga fer. Það er lítið að marka fullyrðingar, sem hver kastar framan í annan, að ólag sé á þessum hlutum, ef ekkert er gert til úrbóta í þessum efnum, þegar meiri hluti þingsins styður stj. Fram að þessu hefur því verið borið við, að ekki væri von á stórfelldum endurbótum í þessa átt, þar sem þingræðisstjórn væri ekki í landinu og þingviljinn ekki notaður í þessar stórframkvæmdir. Nú er ekki lengur hægt að bera þessu við, þar sem núv. stj. hefur stuðning 32 þm.

Hæstv. fjmrh. sagðist draga í efa, að bankarnir væru jafntregir til samvinnu og ég gat um. Mér er þetta mál vel kunnugt, og ég vil þess vegna endurtaka það, að bankarnir hafa neitað að gefa þær upplýsingar, sem skattayfirvöldin hafa farið fram á og þeim var að lögum skyldugt að gefa. Það er ekki hægt að bera því við, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þetta væri gert vegna þess, að ekki væri framkvæmanlegt að gefa þessar upplýsingar. Ég veit, að bönkunum er vel framkvæmanlegt að gefa upplýsingar um allar innstæður, miðað við vissan dag, vegna þess að það hefur verið gert. Fyrir nokkrum árum gaf Landsbankinn upplýsingar um allar innstæður, sem þar voru, miðað við vissan dag, og þessar upplýsingar reyndust mjög þýðingarmiklar fyrir skattayfirvöldin við að fá réttari og betri framtöl en áður hafði verið. Því hefur lengi verið borið við, að bankarnir teldu hæpið, að þeir ættu að gera þetta, vegna þess að það mundi draga úr sparnaðarlöngun manna, ef þeir vissu, að gefnar væru upp innstæður, og menn myndu leita annað með peninga sína en til bankanna, ef þessi háttur væri tekinn upp. Um þetta er það að segja, að það er ekki frambærileg röksemd á nokkurn hátt, að sparnaðarvilji þjóðarinnar sé byggður á því, að menn geti skotið sér undan sköttum, það sér hver maður í hendi sér, þegar hann athugar málið. Varðandi hitt, að menn mundu fremur koma peningum sínum fyrir á annan hátt, er það að segja, að allar peningastofnanir landsins myndu fylgjast að um þetta. Engin peningastofnun mundi taka að sér fjármuni manna og fela þá fyrir skattayfirvöldunum, svo að þetta mundi ekki hafa nein áhrif á viðskipti stofnananna innbyrðis. Það, sem ætti að gera í skattamálunum nú, er að gera ýtarlegar og öflugar ráðstafanir til þess, að skattaframtöl verði rétt, og taka létt á gömlum syndum og jafnvel að lækka skattstigann á móti heldur en að hækka hann stöðugt og láta sér í léttu rúmi liggja, þó að menn skjóti sér undan sköttum. Þetta ætti að taka til ýtarlegrar athugunar, til þess að þessi mál verði viðunandi. Það er gefið mál, að það verða alltaf erfiðleikar á því að hafa eftirlit með skattaframtölum, og það verða alltaf misbrestir á þeim efnum, en það má ekki láta það á sig fá, heldur verða menn að leggja sig fram til að ná þeim bezta árangri, sem hægt er. Og það er rangt að nota beina skatta nema með því að gera um leið öruggar ráðstafanir til þess, að skattaframtöl verði góð. Ef þeir eru notaðir eins mikið og líklegt er að verði, þá er misréttið, sem kemur fram við þau mál, svo mikið, að ekki er viðunandi. Ég vil láta það koma fram í sambandi við þetta mál, því að þetta er fyrsta skattafrv., sem kemur fram frá núv. stj., sem hefur stuðning þingmeirihluta, og virðist þess vegna, að hún ætti að hafa áhuga fyrir því að fá öruggari framkvæmdir í skattamálum en verið hefur, en það hefur farið í handaskolum fyrir þinginu í afgreiðslu á því, og lítil samvinna hefur verið við fjmrh. í þessu efni. Nú ætti öðru að vera til að dreifa, þar sem þingmeirihluti styður stj. Ég vil af sérstakri ástæðu benda á þetta efni í sambandi við nýju skattal.