23.01.1945
Neðri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

250. mál, ríkisreikningar 1941

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Fjhn. hefur haft frv. til athugunar og borið það saman við ríkisreikninginn, og ber þar ekkert á milli. En varðandi aths., sem reikningnum fylgir, þykir mér ástæða til að fara þar um nokkrum orðum og gera grein fyrir því, hvers vegna fjhn. gerir ekki neinar till. í sambandi við þær. Ég mun aðeins víkja að nokkrum aths., til þess að sýna fram á, hvernig þessu er varið. Fyrsta aths. er um það, að innheimta hjá sýslumönnum sé eins og endranær mjög misjöfn, jafnvel síðan yfirskoðunarmenn tóku við. Margir hafa auðvitað gert hrein og góð skil, en þó er einstaka embættismaður, sem á mjög mikið óinnheimt. Hafa yfirskoðunarmenn fundið að þessu æ ofan í æ. Þetta hefur lagazt upp á síðkastið, en ekki fullkomlega. 3. aths. er um skólann á Hvanneyri. Síðan það bú var gert að ríkisbúi, hefur megnt ólag verið á reikningum þess og ekki verið hægt að samþ. þá, eins og þeir liggja fyrir. En nú er búið að gera ráðstafanir til að koma reikningshaldi búsins í viðunandi lag; og vonir standa til, að það komist nú í allt annað horf en verið hefur, enda er nýr maður tekinn þar við. — Þá er 5. aths., sem er varðandi húseignir ríkisins. Okkur yfirskoðunarmönnum þykir það undarlegt, að í mörg undanfarin ár hafa húseignir ríkisins, sem margar hverjar eru í miðbænum, ekki gefið neinar tekjur af sér, heldur hefur orðið að gefa með þeim, vegna þess að viðhaldið hefur orðið dýrara en það, sem komið hefur inn fyrir leigu. Þetta er auðvitað óhæft, og standa vonir til þess, að eitthvað verði við því gert, áður en þessu þingi lýkur. Hvað snertir fasteignamatið, sem við vorum að gera breyt. á, þá er það að nokkru \leyti vegna þess, hvernig það hefur gengið, að sú lagabreyting var gerð. Við höfðum í árslok 1942 ekki fengið reikningana frá yfirfasteignan., sem starfaði frá 1938. Nú hafa nokkrir reikningar frá henni komið til endurskoðanda ríkisins, en við erum ekki farnir að athuga þá. Þessi og fleiri atriði eru til athugunar. — 8. aths. er gamla sagan um hinar miklu umframgreiðslur frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum, en þær hafa farið fram í mjög stórum stíl á þessu ári. Að þessu hefur verið fundið. — 9. aths. er um efnahagsreikning menningarsjóðs. Við höfum gert kröfur um að fá hann í hendur, en það hefur aldrei fengizt. Höfum við viljað fá hann til að geta séð, hverjar eru eignir sjóðsins og hvar málverk og listaverk hans eru niður komin. — 10. aths. er viðvíkjandi kostnaði við mæðiveikina. Í því efni hefur verið vísað til aðgerða Alþ. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári. Enn er ekki séð fyrir endann á því, hve mikill kostnaður verður við þær ráðstafanir.

Ég vík að þessu til að sýna fram á, hvernig á því stendur, að fjhn. þessarar d. gerir ekki neinar sérstakar till. í sambandi við aths. okkar yfirskoðunarmanna. Að öðru leyti leggur hún til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.