13.10.1944
Efri deild: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Með þál. í nóv. 1943 fól hæstv. Alþ. ríkisstj. að kaupa efni til lagningar rafveitu frá Hafnarfirði til Keflavíkur. En um það leyti var að fást leyfi til þess að flytja þetta efni út frá Bandaríkjunum. Hins vegar var ekki þá af hinu háa Alþ. tekin nein ákvörðun um það, hvernig fara skyldi með byggingu þessarar línu, þegar efnið kæmi til landsins. En þá var það mjög aðkallandi þörf fyrir hreppana þar suður frá að geta fengið þessa línu sem fyrst upp, vegna þarfar á auknu rafmagni og vegna þess, hvernig á stóð þá með þær olíurafstöðvar, sem héldu uppi rafmagnsframleiðslu fyrir Keflavík. Efnið hefur verið að koma til landsins smátt og smátt, og er nú kominn mikill hluti þess hingað.

Á síðasta sumri, þegar séð var, að efnið mundi berast bráðlega, og með tilliti til mjög aðkallandi nauðsynjar þess, að sem fyrst yrði komið upp þessari línu, þá sneri atvmrn. sér þá þegar til stjórna allra fjögurra þingflokkanna og spurðist fyrir um það, hvort flokkarnir teldu rétt og vildu þegar veita samþykki sitt til þess, að ríkið léti hefjast handa um að byggja þessa rafmagnslínu, þegar efnið kæmi. Allir þingflokkarnir svöruðu því játandi, og voru þá þegar gerðar ráðstafanir til þess að byggja línu þessa, og er verið að því nú.

Hins vegar hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það, hvernig eða hvar á að taka endanlega peninga í þessa línu. Það var að vísu spurt um álit þingflokkanna í þessu efni, en svör voru ekki eins frá öllum. Það þykir því rétt að bera hér fram frv. til l. um þetta, fyrst og fremst til þess að fá staðfestingu á því, að ríkið skuli byggja línuna, og í öðru lagi til þess að ákveða, hvernig peningar skuli til þess fengnir. Þeir hafa í bráðina verið lagðir fram úr ríkissjóði. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að fé til þessarar framkvæmdar verði tekið að láni. Það kom tvennt til álita í þessu: annað að taka féð að láni, en hitt að taka það úr raforkusjóði. En hér er lagt til, að féð sé tekið að láni, með því að ráðuneytið telur það eðlilegri skipun á þessu máli heldur en að ráðstafa nú fé úr raforkusjóði, meðan mþn. í raforkumálum hefur ekki enn lokið störfum. Þess vegna má sýnast svo, að réttara sé að láta bíða að ráðstafa fé úr þeim sjóði, þangað til fullnaðarákvarðanir n. liggja fyrir. Samkvæmt þessu er lagt til í 2. gr. frv., að ríkisstj. sé heimilað að taka allt að 1.800.000 kr. lán til þess að framkvæma þetta.

Frv. gerir og ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að láta reka rafveituna fyrst um sinn, þar til önnur skipan verður þar á gerð, og getur ríkisstj. falið það Rafmagnseftirliti ríkisins eða öðrum opinberum aðila, bæjarfélagi eða hreppsfélagi.

Eins og ég sagði áðan, þá er þetta mál eins til komið og ég hef lýst um byggingu raforkuveitunnar, og er hér farið fram á, að Alþ. með löggjöf staðfesti það, sem flokkarnir hafa fallizt á, að gera skyldi um byggingu veitunnar, og að Alþ. ákveði, hvar taka skuli peninga til þessarar framkvæmdar.

Ég vísa að öðru leyti til aths., sem fylgja frv., og leyfi mér að leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og n., sem væntanlega verður fjhn.