13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. — Frv. þetta er borið fram af fyrrverandi hæstv. ríkisstj. og var borið fram til staðfestingar á bráðabirgðal., sem sú sama ríkisstjórn fékk gefin út 26. apríl 1944. Ríkisstj. hafði þá borið sig saman við þingflokkana utan þings um, hvað gera skyldi í því máli, hvernig ráðstafa ætti eignum setuliðsins hér á landi, og fengið samþykki þeirra til ákveðinnar heimildar til kaupa á þessum eignum og dreifingu á þeim meðal landsmanna. Og það voru þá tvær ástæður, sem fram voru færðar fyrir þessum athöfnum, annars vegar það, að rýma þyrfti burt merkjum um veru setuliðsins hér með því að hreinsa burt þau hýbýli, sem eru til óprýði eða trafala, og hins vegar að tryggja landsmönnum góð kaup á efni því og munum, sem hér var um að ræða. Um þetta er þetta frv., sem hér liggur fyrir, og er í raun og veru ekki mjög margt um það að segja, því að það er í sjálfu sér staðfesting á þeim bráðabirgðal., sem stjórnin hefur gefið út. Fjhn. Nd. mælti með þessu frv., og fór það í gegnum þá d. óbreytt og tiltölulega ágreiningslítið, og fjhn. þessarar hv. d. hefur einnig mælt með, að það yrði samþykkt óbreytt.

Við 1. umr. þessa máls hreyfði einn hv. þm. þessarar d., hv. þm. Barð., ýmsum aths. við þetta frv., sem hann skaut til þeirrar n., sem hafði málið til meðferðar, og liggja nú þessar till. hans fyrir, eins og hann l~efur orðað þær á þskj. 1102. Ég get nú ekki í nafni n. borið fram nein skilaboð um þessar till., því að þær komu ekki fram. fyrr en nál. hafði verið skilað. Þau atriði, sem þar um getur, voru ekki rædd í n. sérstaklega, og stafaði það meðfram af því, að þegar málið var tekið til meðferðar, voru nm. margir ekki heilir heilsu og voru fáir á fundi um málið, en þetta stutta nál. var sent til þeirra til undirskriftar, því að það þótti ekki svo mjög orka tvímælis um málið.

Mér þykir þó hlýða við þessa umr. að gera ofur litla grein fyrir, hvernig þessi mál standa eða stóðu, þegar skýrsla var gefin út síðast. Sú skýrsla var gefin hv. fjhn. Nd., en ég held, að niðurstöðum hennar hafi ekki verið neitt lýst þar. Ég hef a.m.k. ekki séð það í þeim skrifuðu umr. frá hv. Nd., svo að ég tel því rétt, að ég skýri frá aðalniðurstöðutölum þeirrar skýrslu. Þessi skýrsla er miðuð við 31. okt. 1944: Fyrst eru seldir hermannaskálar fyrir kr. 3526982.00, því næst selt úr birgðaskemmu fyrir kr. 549761,92 og ýmislegt selt fyrir kr. 20372,26. Alls eignir seldar fyrir kr. 4097116,18. Stærsti útgjaldaliðurinn og um helmingur af kostnaðinum eru greiddar skaðabætur, kr. 1405300,00. Svo kemur: verð bragga greitt, kr. 605971,00, vinna við niðurrif, kr. 499816,00, verð lausafjár, kr. 181461,00, og flutningur á setuliðsskálum kr. 50600,00. Alls er þá kostnaðurinn, fyrir utan kostnað við hefndarstörf og ýmislegt slíkt kr. 2852377,15, og er þá ágóðinn af þessari verzlun, eins og hún hefur staðið 1. okt. 1944, kr. 1244739,03. Maður sér því, að skaðabætur, sem greiddar eru fyrir landspjöll og slíkt, eru nákvæmlega helmingur kostnaðar. Þessi ágóði stendur nú í þessum aðalliðum: Viðskiptamenn kr. 642876,35, innistæða á hlaupareikningi kr. 525604,15 og peningar í sjóði kr. 88285,53. N. hefur verið send skrá yfir viðskiptamennina, bæði einstaklinga og bæjarog sýslufélög, og það langmesta, sem er hjá einum einstaklingi, er um 200 þús. kr.

Ég veitti því ekki athygli fyrr en nokkuð seint, að þessi skýrsla er frá 31. okt. 1944, og spurðist því fyrir um, hvort ekki væri til nýrri skýrsla, og var hún ekki til uppgjörð, en mér var lofað, að hún skyldi gjörð, a.m.k. aðal-niðurstöðutölur, svo fljótt, að ef hv. þm. óskuðu þess, mundi hún sennilega liggja fyrir við 3. umr. málsins.

Ég hef svo ekki fleira að svo komnu að segja um þetta mál, en hér er, eins og náttúrlega liggur í augum uppi, um mál að ræða, sem í raun og veru er að mestu um garð gengið, svo að ég er ákaflega hræddur um, að veruleg breyt. á þessu hafi ekki mjög mikla raunhæfa þýðingu, og vil ég fyrir n. hönd mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt við þessa umr.