13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég ætla ekki að verja þessa verzlun, en ég verð að segja það, að ef háttv. þm. Barð. er hissa á minni ræðu, þá er ég undrandi yfir hans ræðu.

Ég sagði aldrei, að það ætti að leggja toll á eftir á, slíkt er vitanlega alls ekki hægt. Ég skildi till. hans rétt að því leyti, að það væri n., sem ætti að greiða þennan toll, en ef svo ætti að vera, yrði ekkert fé afgangs til að bæta skemmdir og skaða.

Um verðlagsákvæðin er það að segja, að mér er enn þá jafnóskiljanlegt, hvernig hægt er að láta þau ná til þessa efnis. Mér finnst þetta helzt sambærilegt við fornsölu. Mér er t.d. sagt, að hlutir hafi verið fluttir inn og verðlagðir hóflega, en svo hafi sams konar hlutir, notaðir, verið seldir dýrara. Ég held, að það verði ákaflega erfitt að elta uppi alla þá, sem kaupa of háu verði, og hvernig í ósköpunum á að gera upp á milli þeirra, sem búnir eru að kaupa þetta efni, og þeirra, sem eiga það eftir? Ég skal játa, að mér yfirsást um viðbótarliðinn við 5. gr. En það var vegna þess, að ég hafði alls ekki hugsað mér, að þessi hv. þm. kæmi fram með slíka bolsevikkaaðferð, sem þar kemur fram. Hugsum okkur, að maður hafi keypt heilt hverfi, og svo er honum allt í einu skipað að rífa það. Það yrði ljóta eftirspilið, ef við ættum að fara um allt land og taka hvern skála og þetta allt eignarnámi, en öðruvísi færum við ekki að þessu, og er ég hræddur um, að kostnaðurinn yrði nokkuð mikill við það. Ég veit, að hv. þm. dytti ekki í hug, ef við létum byggja einbýlishús eftir lögum landsins, að síðan yrði hægt að ganga að okkur og krefjast þess, .að þau yrðu rifin niður, af því að þau væru svo ljót. Ég held þess vegna, að brtt. hv. þm. Barð. fái ekki staðizt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en tel, að rétt sé að setja þessi l. úr því sem komið er, og vildi mælast til þess, að hv. þm. Barð. tæki brtt. sínar aftur til 3. umr., en þá eru líkur til, að liggi fyrir fullkomnari upplýsingar. Hefur starfsmaður hjá n. lofað að gefa upplýsingar um það, hvernig þessi mál standa nú. Ég hélt, að málið mundi ganga ágreiningslítið gegnum þessa hv. d., eins og hv. Nd., af því að málið er svo langt komið, að erfitt er að koma við nokkrum aðgerðum á því hér eftir.