13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Gísli Jónsson:

Ég vildi aðeins upplýsa hv. 1. þm. Reykv. um það, að það væri enginn vandi að reikna út toll af bröggunum. Þeir eru allir byggðir í sama stíl og úr sama efni, og þyrfti því ekki annað en að taka efnið úr einum bragga, og síðan getur n. reiknað út, hve mikinn toll ætti að greiða af hverjum bragga. Einnig vil ég benda á það, að ég hygg, að þegar þetta frv. hefur verið samþ., verði það einnig látið ná til annarra setuliðseigna, svo sem bifreiða og annarra véla, og að þá sé því auðveldara fyrir n. að reikna með því, hvernig ætti að greiða ríkissjóði toll af þeim vörum, því að ég er ekki sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að það sé alveg sama og að ríkissjóður fái ekki þessa tolla öðruvísi en í ágóðahluta, ef hann yrði einhver, en skal ekki fara nánar út í það.

Ég skal viðurkenna, að það eru ýmis vandkvæði á því að krefjast þess að niður séu rifnir skálar, sem hafa verið byggðir upp aftur, þótt ég viti hins vegar vel, að oft hefur verið gengið nær eignarrétti manna með ýmsum öðrum lagafyrirmælum. En ég vil aðeins benda á, að þegar byrjað var á þessu verki, var það ótvíræð skylda ríkissjóðs að sjá um, að öll verksummerki þessara skála yrðu tekin af landinu, og ef hún hefur vanrækt að gera allar þær ráðstafanir, sem gera þurfti í sambandi við þessi mál, þá er það heldur ekkert óeðlilegt, að þessi n., sem fjallar með þessi mál, taki að sér þann kostnað, sem það kann að hafa í för með sér að afmá þennan blett af íslenzku landi. Sá möguleiki er fyrir hendi að breyta stíl þessara skála í samræmi við það umhverfi, sem þeir hafa verið reistir í, t.d. að breyta þaklagi þeirra, en alls ekki láta stíl þeirra sitja í landinu, því að það er alveg ljóst, að engin takmörk eru fyrir því, hvað hann getur haldizt lengi í landinu, ef engin ákvæði verða um þetta sett.

Ég skal fúslega taka till. mínar aftur til 3. umr., en vænti þess, að þær verði teknar alvarlega til athugunar í n. Einnig er ég fullkomlega viljugur til þess að hafa samkomulag um orðabreytingar, sem n. kynni að gera á þessum till., en hins vegar verð ég að halda fast við, að meginatriðum sé náð, áður en frv. er afgr. úr hv. d.