13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af þessu tollspursmáli. Mér sýnist, að það skipti litlu máli, hvað hermannaskálana snertir, hvort tollur er reiknaður af efni, sem tekið er úr þeim, eða ekki. Hv. þm. Barð. veit, að ríkið er þarna aðeins að skipta við sjálft sig, og það hefur þess vegna enga fjárhagslega þýðingu, hvort tollur er reiknaður af þessu eða ekki. Hv. þm. veit einnig, að þessir skálar voru ekki keyptir í hagnaðarskyni, þótt margir hafi gengið út frá því, að svo hafi verið. Það, sem vakti fyrir hinu opinbera, þegar skálarnir voru keyptir, var það, að ríkið gæti haft íhlutun um og séð fyrir því, hvernig gengið yrði frá skálunum og þeim grundvelli, sem þeir höfðu staðið á. Ríkið tók málið í sínar hendur til þess, að þannig væri farið með allar þessar eignir, að þær yrðu nýttar sem mest og sem minnst spjöll yrðu unnin á því landi, sem skálarnir höfðu staðið á.

Á þessu stigi er ekki unnt að segja fyrir um það, hvernig fjárhagsafkoman verður í þessum efnum, en eftir síðustu skýrslum, sem fyrir liggja, virðist mér meiri líkur til þess, að um einhvern ágóða verði að ræða, og ef svo verður, sem óskandi er, þá fyrst kæmi til athugunar, hvort reikna ætti þennan hagnað sem toll af þessum vörum og hægt væri að nokkru leyti að hafa fullt eftirlit með, hvað mikið hefur verið greitt. Það er hins vegar alveg tilgangslaust að vera að þrátta um slíkt á þessu stigi málsins, meðan ekkert er endanlega um það vitað, hverjar skaðabætur ríkið þarf að greiða.

Hv. þm. Barð. vék að því í síðustu ræðu sinni, að honum sýndist rétt, að sú aðferð verði viðhöfð um aðrar eignir, bifreiðar og vélar, sem keyptar verða af setuliðinu, að tollur verði greiddur af þeim jafnóðum og þær væru látnar af hendi. Ég er alveg á sömu skoðun og hann hvað þetta snertir. Sannleikurinn er sá, að það er annað viðhorf um þessar eignir en skálana. Það er ef til vill ekki beinlínis hægt að segja, að þær eignir séu keyptar í því skyni, að ríkissjóður hagnist af því, en þær eru þó keyptar í því skyni, að hægt verði að hafa þeirra not hér á landi og til þess að koma í veg fyrir, að þær verði fluttar út, sem vafalaust hefði verið gert, ef ekki hefðu náðst samningar um kaup á þeim, öfugt með skálana, sem hefðu verið malaðir eða rifnir niður. En einmitt af því, að sjónarmiðin að þessu leyti eru allt önnur en varðandi skálana, sýnist mér, að eðlilegt sé, að önnur aðferð sé viðhöfð um sölu á þessum setuliðseignum. Ég get upplýst hv. þm. Barð. um, að fjmrn. hefur gefið fyrirmæli um það, að tollur verði reiknaður af öllum þessum bílum að minnsta kosti eins og notuðum bílum, sem fluttir hafa verið inn í landið á undanförnum árum, og efast ég ekki um, að þessum fyrirmælum hafi verið hlýtt, að svo miklu leyti sem þau hafa enn komið til greina. Ég vildi láta þetta koma fram, til þess að ekkert væri á huldu um það, hver aðferð verður höfð um þetta í framtíðinni.