21.02.1945
Efri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Gísli Jónsson:

Út af þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. hefur gefið, vil ég í fyrsta lagi lýsa því yfir, að ég get tekið aftur 1. brtt. mína á þskj. 1102, a. og b. lið. Aftur á móti óska ég þess, að gengið verði til atkv. um 2. brtt. mína á sama þskj., við 4. gr.

Ég harma það, að þessi ákvæði voru ekki sett strax, en ég, fellst á, að erfitt er að eiga við þetta úr því sem komið er, og það er vítavert af ríkisstjórninni að hafa farið þannig með þetta, að eignarnámsheimild skuli nú þurfa til að taka þetta rusl. Vegna þess að hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að öll spjöll verði löguð hið bráðasta, tek ég aftur 3. brtt. mína, við 5. gr., en ég endurtek, að ég harma, að svo var frá þessu gengið sem nú er raun á orðin.