14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur Eimskipafélag Íslands notið skattfrelsis að miklu leyti síðan árið 1928. Með l. frá 7. maí 1928 var það fyrst undanþegið að greiða tekju- og eignarskatt. Þessi l. hafa verið framlengd síðan um 2 ára skeið í senn, en skattfrelsið féll niður nú um síðustu áramót.

Ríkisstj. hefur nú leyft sér að flytja það frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., og er efni þess, að þetta skattfrelsi Eimskipafélags Íslands verði framlengt um 2 ár, fyrir 1945 og 1946, með nokkrum frekari skilyrðum þó en verið hafa áður. Í sjálfu sér er ekki hægt að segja annað en hagur Eimskipafélagsins sé nú mjög góður. Eftir síðustu reikningum, sem fyrir liggja, fyrir árið 1943, er nettóeign þess rúmlega 30 millj. kr. Það má því segja, að út af fyrir sig ætti það að greiða skatt ekki síður en margir aðrir skattgreiðendur hér á landi og jafnvel fremur en aðrir. Samt sem áður taldi ríkisstj. rétt að gera till. um, að skattfrelsið yrði framlengt, og byggist það fyrst og fremst á því, að hún lítur á Eimskipafélagið sem almenningseign, því að þótt ekki sé ríkisrekstur á því í orðsins eiginlegu merkingu, þá eru hlutabréfin mjög dreifð. Það eru menn í öllum landsfjórðungum og öllum stéttum, sem eiga hlutabréf í félaginu, og það er ekki hægt að segja annað en félagið hafi fyrr og síðar verið rekið fyrst og fremst með hag almennings fyrir augum.

Ríkisstj., a.m.k. meiri hl. hennar, er þeirrar skoðunar, að æskilegt væri, að félagið gæti haldið áfram að bæta hag sinn, því að það er naumast hægt að efast um, að það fé, sem safnast fyrir hjá Eimskipafélagi Íslands, gangi til að auka skipastól landsins, en um það munu naumast vera skiptar skoðanir, að þess sé þörf. Til frekari tryggingar þessu var samt sett í þetta frv. ákvæði um, að skattfrelsið væri bundið því skilyrði, að tekjuafgangnum yrði varið einvörðungu til þess að kaupa skip eða á annan hátt í þágu samgöngumálanna. Er þar átt við, að ekki væri útilokað, að félagið gæti lagt t.d. í flugsamgöngur og fært út starfsemi sína á þann hátt. Stjórnin taldi ekki ástæðu að þessu leyti að skera félaginu mjög þröngan stakk, þótt gert sé að sjálfsögðu ráð fyrir, að meginhlutanum af því fé, sem félagið hefur til ráðstöfunar, sé varið til samgöngubóta.

Eins og kunnugt er, hefur félagið á árinu 1943 haft óvenjulega góða afkomu. Rekstrarhagnaðurinn á því ári varð yfir 18 millj. kr., og sá hagnaður stafar einvörðungu af rekstrarafgangi á leiguskipum, sem félagið hafði þá. Það hafa orðið nokkrar deilur um þetta og félaginu lagt það til ámælis, að það hafi haldið uppi óþarflega háum fröktum á árinu 1943, og ég skal ekki fara út í að rökræða það að svo stöddu. En hvað, sem má um þetta mál segja, þá hljóta menn að sjá, að hér sé ekki um neina hættu að ræða, ef tryggt er, að þessi rekstrarafgangur gangi einvörðungu til þess að bæta samgöngur landsins, auka skipastól þess og tryggja samgöngur, bæði utan lands og innan.

Um rekstrarafkomu þessa árs er það að segja, að það liggja ekki fyrir neinar endanlegar upplýsingar um hana enn þá, en eftir því, sem framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins hefur sagt mér, er útlit fyrir, að nokkur rekstrarafgangur verði á árinu 1944, en hann stafar af því, að fraktalækkunin kom ekki fyrr en liðið var nokkuð á síðasta ár. Ég hygg, að það hafi verið 8. maí, sem hún kom, þannig að talsvert mikill hagnaður var orðinn fyrri hluta árs. Aftur á móti hefur framkvæmdastjóri upplýst það, að ef fraktirnar haldi áfram óbreyttar á þessu ári og ekki verái nein breyting á rekstrarkostnaði skipanna, sé útlit fyrir, að talsverður tekjuhalli verði á þessu ári. Út af fyrir sig mætti segja, að ekki skipti miklu máli, ef sú verður raunin, að tekjuhalli verði á árinu, hvort félagið er undanþegið tekjuskatti, en þrátt fyrir það þótti stjórninni rétt, að því væri slegið föstu, að eðlilegt væri, að félagið héldi áfram skattfrelsi sínu á sama hátt og það hefur haft á undanförnum árum.

Ég vildi því gera það að till., minni, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. til athugunar, og er þess að sjálfsögðu óskað, að afgreiðsla þess fari fram eins fljótt og frekast er auðið, því að það er gert ráð fyrir, að nú fari að styttast þinghald.