14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Pétur Ottesen:

Það er að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. S.-M., sem mér þykir ástæða til, áður en ég greiði atkv. um þetta mál, að segja um það nokkur orð. Það eru sérstaklega tvö atriði í ræðu hans, sem gefa mér tilefni til þess að taka hér til máls. Í fyrra lagi er það, að hann vitnaði til afstöðu þm. til afgr. þessa máls fyrir tveimur árum, þar sem hann sagði, að ef vitað hefði verið um, að félaginu hefði áskotnazt svo mikill gróði á árinu 1943, þá mundi enginn hafa greitt atkv. með skattfrelsi félagsins. Þetta var fyrra atriðið. Hitt atriðið var það, að mér virtist öll ræða hans falla mjög á þá lund, að æskilegt væri að þoka rekstri þessa félags inn á ríkisrekstur, m.ö.o. að ríkið færi að seilast þar til valda, þannig að endirinn yrði sá, að félagið yrði gert að ríkisfyrirtæki.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu verð ég að segja, að mér fannst það uppþot, sem varð, þegar vitað varð um gróða Eimskipafélagsins 1943, harla einkennilegt, en þetta liggur sjálfsagt í því, að ég lít öðrum augum á þetta félag en hv. 2. þm. S.-M. gerir. Ég lít nefnilega þannig á og styðst þar við margra ára reynslu eða jafnmargra ára reynslu og félagið er gamalt, að við hefðum ekki með öðrum hætti getað betur séð fyrir því að leysa siglingaþörf landsmanna, sem er eðlilega æðimikil, þar sem við búum á eyju langt frá byggðum annarra þjóða. Ég sé ekki, að það hefði verið hægt að hitta á öllu betri og heppilegri leið til að leysa þessa þörf en þá, sem farin var með stofnun Eimskipafélags Íslands. Ég get ekki betur séð en rekstur félagsins hafi ávallt verið þannig, að þar hafi ætíð verið þræddir hagsmunir þjóðarinnar og allt gert til að gera félagið að hagsmunafyrirtæki fyrir þjóðina í heild, og ég tel ekki líkur til, að með öðrum hætti hefði verið betur fyrir þessu séð.

En jafnframt því, og það er annar meginþátturinn í því hlutverki, sem félagið hefur innt af hendi, þá hefur sótzt allmikið í þá átt, að félagið geti að fullu orðið við hinni vaxandi þörf þjóðarinnar um flutninga landa milli. Þó hefur félaginu engan veginn tekizt enn að sjá fyrir þessum þörfum til fulls, sem sést bezt á því, að við höfum þurft á öðrum skipum að halda til siglinga landa milli til viðbótar við skip félagsins. Ég tel því, að reynslan af starfsemi félagsins sé sú, að það sé mikið lán, að því skuli nú hafa tekizt að tryggja svo fjárhagsaðstöðu sína, að líkur séu til, að það geti nú stigið allverulega stórt skref í áttina til þess að byggja upp siglingar fyrir þjóðina nú að stríðinu loknu.

Þá er eitt, sem er mjög athyglisvert í sambandi við þetta, og það er það, að síðan Eimskipafélagið var stofnað, hafa tvær heimsstyrjaldir dunið yfir sem hafa teygt anga sína og arma til okkar Íslendinga. Hvernig hefðum við verið staddir í fyrri. styrjöldinni, ef Eimskipafélagið hefði ekki verið komið á nokkurn rekspöl með rekstur sinn, sem var þó ekki mikill þá, og hvernig hefðum við verið staddir nú, ef við hefðum ekki búið að Eimskipafélaginu? Mér finnst aðstaða okkar í þessu stríði gefa okkur bendingu um, hvers virði sé að efla þennan félagsskap, til þess að hann sé þess megnugur að flytja inn nauðsynjar handa þjóð okkar, því að það er sannarlega hart fyrir okkur, að það skuli þurfa að vera styrjöld og við skulum þurfa að vera herteknir til að geta komizt í slik sambönd við aðrar þjóðir, að við getum bjargað siglingum okkar, því að þrátt fyrir þann vöxt, sem orðið hefur í starfi Eimskipafélagsins, þá er það enn ekki þess umkomið að geta séð fyrir öllum okkar siglingum, og einmitt í skjóli þess, að við vorum fyrst herteknir og gerðum síðan herverndarsamning við aðra þjóð, hefur okkur tekizt að afla okkur þess skipakosts, sem við þurftum nauðsynlega til viðbótar við Eimskipafélagið til þess að geta sinnt þessum þörfum þjóðarinnar að fullu. Ástandið hjá okkur er því ekki betra en það, að það verður stríð að dynja yfir, til þess að við getum leyst þau verkefni, sem enn bíða óleyst á þessu sviði. Með tilliti til þessarar þarfar þjóðarinnar og hvernig ég lít á starfsemi Eimskipafélagsins, get ég ekki tekið undir neitt af þeirri ádeilu, sem flutt var á Eimskipafélagið fyrir að hafa notað aðstöðu sína á þessu ári til að leggja grundvöll að því að geta í framtíðinni leyst að fullu þetta starf af hendi fyrir þjóðina.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði mikið um það, að Eimskipafélagið væri í höndum fárra manna og af þessu gæti stafað hætta fyrir þjóðina. Ef litið er á þá áratugastarfsemi, sem Eimskipafélagið á að baki sér, þá sé ég ekki, að nokkurn tíma hafi hillt undir neina hættu af þessu fyrirkomulagi í uppbyggingu Eimskipafélagsins, því að ég álít, að rekstur þess hafi alltaf verið miðaður við það tvennt, að leysa sem flest spursmál með sem ódýrustum hætti fyrir þjóðina og jafnframt að haga rekstri félagsins þannig, að það gæti eflt starfsemi sína og þar með mætt þeirri þróun og aukningu í þjóðfélaginu, sem átt hefur sér stað að undanförnu.

Ég verð að segja það í sambandi við ummæli hv. 2. þm. S.-M., þar sem hann var að tala um hættuna af því, að félagið væri í höndum fárra manna, að félagið hefur verið rekið þannig eins og ég hef lýst, að þeir ráðandi menn í félaginu hafa síður en svo sýnt nokkra viðleitni til að nota þetta félag sem gróðastofnun fyrir hluthafa þess, sem sést m.a. af því, að í mörg ár greiddi félagið engan arð til hluthafa, og þegar það græddi mest, eða um 20 milljónir, greiddi það aðeins 4%. Ég held því, að ekki sé hægt að álasa þeim, sem stjórna félaginu, þó að þeir hafi notað þessa aðstöðu til að tryggja hag félagsins og leggja þar með grundvöll að því, að við getum eftir stríðið eflt allverulega siglingar okkar landa milli. Ég fyrir mitt leyti lít svo á og byggi þar á reynslunni, að engin breyting muni í þessu efni verða á starfsemi félagsins, heldur muni það nota sinn bæta hag einvörðungu samgöngunum til eflingar. Þar að auki má á það benda, að Alþingi hefur vitanlega þau tök á þessu félagi, að ef það sýndi sig í því að vilja víkja af þeirri braut, sem það hefur gengið að undanförnu og ber að ganga framvegis, hefur það aðstöðu til að skakka þann leik, en reynslan af rekstri félagsins er þannig í mínum augum, að engin ástæða er til að ætla, að til slíks þurfi að grípa.

Nú eru margir í þessu landi, sem gera sér ákaflega bjartar vonir um framtíðina. Nú er talað um að gera öflugt átak til að auka atvinnulíf okkar og endurnýja atvinnutæki okkar. Við státum af því, að við eigum inneignir erlendis, sem nema mörg hundruð millj. kr., og allar þær stóru fyrirætlanir, sem allir tala nú um, og ekki sízt hæstv. ríkisstj., eru byggðar á þessum inneignum, sem við eigum þar. Einn hlutinn af þessum inneignum er sá gróði, sem aflazt hefur hjá Eimskipafélaginu, sem við vitum, að það ætlar að verja eingöngu til að leysa það hlutverk í vaxandi mæli, sem það hefur innt af hendi að undanförnu, og ég lít svo á, að þessi þáttur í að leysa samgöngur okkar sé miklu betur tryggður hjá þessum félagsskap en hjá ríkinu. Þarf þar ekki annað en benda á, að Eimskipafélagið hefur nú safnað fé á þriðja tug milljóna til að byggja hér upp siglingarnar milli landa og nokkrar siglingar meðfram ströndum landsins. Ríkið hefur haft í sínum höndum strandferðirnar að mestu leyti á þessu sama tímabili, og það hefur haft aðgang að buddu hvers einasta borgara í landinu, og það má með sanni segja, að þeir hafi ekki verið neitt feimnir að opna lásinn á þeirri buddu. En hvað hefur verið gert til að byggja upp strandferðirnar? Og hvernig er ástandið þar? Við eigum eitt skip, sem er fært um að sigla meðfram ströndum landsins. Hitt eru meira og minna léleg eða ónýt skip, sem við verðum að bjargast við, af því að ekki er annað fyrir hendi. En við höfum ekki lagt einn einasta eyri til hliðar af gróða þessara ára til að byggja upp strandferðirnar.

Ég vil í þessu sambandi benda á, sérstaklega af því að hv. 2. þm. S.-M. vill þoka rekstri Eimskipafélagsins yfir í ríkisrekstur, að reynslan sýnir okkur, að þó að svo sé fyrirhugað, að eitthvað af því fé, sem lagt er á þjóðfélagsborgarana, fari til ákveðinna framkvæmda, þá verða ýmsar torfærur á leið þess fjár, sem fer um hendur ríkisstjórnarinnax þar til það er komið í þessar ákveðnu framkvæmdir. Þetta þekkjum við af reynslunni, og hún hefur ekki tekið stakkaskiptum á síðustu árum, nema síður sé.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að útlit væri fyrir, að jafnvel yrði taprekstur hjá Eimskipafélaginu á þessu ári. Við vitum, að gróði Eimskipafélagsins stafar frá leiguskipum, sem félaginu tókst að fá, því að skip félagsins sjálfs eru mörg orðin gömul og hefur mjög á þau reynt á þeim löngu siglingaleiðum, sem þau hafa verið á undanfarin ár, þar sem orðið hefur að knýja, þau áfram í fylgd með stærri og kraftmeiri skipum, til þess að þau nytu þeirrar verndar, sem talið er, að þau hafi í skipalestum undir vernd herskipa. Það er því eðlilegt, að þessi skip séu farin að ganga úr sér. Á þessum tíma hefur verið höggvið stórt skarð í skipaflota félagsins, þar sem það hefur misst tvö af sínum beztu skipum, og hefur ekki enn tekizt að fylla það skarð. Það er því hvort tveggja, að skip hafa helzt úr lestinni„ og þau, sem eftir eru, eru mjög farin að ganga úr sér. Vil ég í því sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort það er svo, að ríkisstj. telji það geta samrýmzt þeirri nýsköpunarstarfsemi, sem hún hefur beitt sér fyrir, að Eimskipafélagið sé látið eyða sjóðum sínum í rekstrartöp á þessu ári, sem það er búið að ákveða að verja til að byggja nýjan flota til að leysa framtíðarsiglingaþörf þjóðarinnar. Það er vitað, að þegar er víst varð um þennan gróða, þá voru lækkuð flutningsgjöldin með þessum skipum. Afleiðingin af því hefur orðið sú eftir upplýsingum hæstv. fjmrh., að í staðinn fyrir álitlegan gróða 1942, þá eru nú ekki miklar líkur til, að félagið verði rekið með hagnaði. Ég vil því endurtaka það, hvort hæstv. fjmrh. telur það geta samrýmzt þeirri stefnu, sem hæstv. stj. hefur tekið upp, að félagið verði rekið þannig fyrir ráðstafanir hins opinbera og íhlutun um flutningsgjöld, að það verði að eta upp meira eða minna af þeim sjóðum, sem nú eiga að ganga til að byggja ný skip. Mér virðist, að þetta sé svo alvarlegt atriði, að það sé fullkomlega vert þess, að ríkisstj. athugi það. Og þó að ég sé ekki stuðningsmaður hæstv. stj., þá finn ég fulla ástæðu til að benda henni á þetta atriði, því að ég hef að sjálfsögðu áhuga fyrir því, að framtíðarþörf okkar á þessu sviði sem öðrum verði sem bezt og hagkvæmlegast leyst.

Ég vil svo aðeins bæta því við það, sem ég hef áður sagt um það, hvernig ég lít á Eimskipafélagið og afstöðu þess í þjóðfélaginu og að með því fyrirkomulagi sé siglingaspursmálið miklu betur leyst heldur en í höndum ríkisins og hef m.a. í því sambandi bent á ákveðin dæmi að því er snertir fyrirhyggju ríkisins í að byggja upp strandferðir þjóðarinnar, að ég tel það mikið lán, að ríkið stóð á móti endurteknum tilraunum frá Alþfl., að í staðinn fyrir að veita félaginu styrk, þá væri það fé lagt fram sem hlutafé, því að með því hefði ríkinu á örstuttum tíma tekizt að fá yfirráð í félaginu og gera félagið að ríkisfyrirtæki. Ég vil þess vegna telja það mikla framför hjá hæstv. samgmrh. og Alþfl. frá því, sem áður hefur verið, og tel, að hann hafi gert mikla bragarbót, þar sem hann hefur getað fallizt á að styðja að því, að Eimskipafélagið fái skattfrelsi, án þess að nokkur slík kvöð sé lögð á herðar félaginu eða nokkur tilraun gerð af flokksins hálfu eða hæstv. ráðh. til að færa félagið af þeirri braut, sem bað hefur verið á, og yfir í ríkisrekstur.

Ég get aðeins bent á það sem dæmi um, hvað félagið er haganlega rekið og með mikilli fyrirhyggju og framsýni, að það tókust samningar milli stjórnar Eimskipafélagsins og annarra aðila um að hafa skipti á einu af skipum félagsins gegn því að fá annað skip til sinna þarfa í þess stað, og þau skipti voru þannig, að það skip, sem Eimskipafélagið fékk, flutti tvöfalt vörumagn við það, sem það skip flutti, sem hinn aðilinn fékk til bráðabirgða til sinna þarfa. M.ö.o., það samsvarar því, að Eimskipafélagið fékk þarna sama sem tvö skip fyrir eitt til að leysa siglingaþörf þjóðarinnar.

Ég ætla í þessu sambandi. ekkert að fara að ræða um skattamál, þó að það hafi verið dregið inn í þessar umr. Það eru nóg tækifæri til að ræða um það. Ég vil aðeins segja það í sambandi við það, sem ég hef sagt um stefnu stj. og hinar mar gumtöluðu yfirlýsingar, ekki sízt af hennar hálfu, að því er snertir nýsköpun í þessu landi, að það er ekki, eins og ég tók áður fram, í samræmi við þá nýsköpun, að Eimskipafélagið verði fyrir afskipti þess opinbera rekið með tapi á þessu ári. Eins má á það benda, að það er ekki heldur til að þjóna þessari hugsun hæstv. ríkisstj. um nýsköpun að leggja verulegan skatt á einn þátt útgerðarinnar, sem ekki ríður minna á að endurnýja en annan flota landsmanna. Það er ekki heldur fullkomlega samrímanlegt við þessa stefnu að fara svo að sem stj. hefur gert í því efni, þó að hún geti fært verulegar ástæður fyrir, að það skuli vera gert. Ég vil enn fremur benda á, að það er ekki heldur í samræmi við þá yfirlýstu stefnu stj. um nýsköpun í landinu, að farið sé að höggva skarð í þá löggjöf, sem gilt hefur hér lengi um skattafríðindi til handa samvinnufélögum landsins, og fara nú að skerða það opna hlið til þess frá því, sem verið hefur, að það sé gert. Það er ekki heldur í samræmi við það skattfrelsi, sem farið er fram á til handa Eimskipafélaginu, að fara inn á þessa braut gagnvart samvinnufélögunum, því að margt er sameiginlegt um þennan tvenns konar félagsskap. Báðir þessir aðilar vinna að því að byggja upp sjálfstæði þjóðarinnar, þó að þeir eðlilega geri það hvor með sínum hætti, af því að þarna er um mismunandi rekstur að ræða.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Það gefast tækifæri til að ræða um þetta, þegar skattamálin koma hér á dagskrá, og geta því frekari umr. af minni hendi beðið nú. En ég vil leggja á það megináherzlu, að af ríkisvaldsins hálfu séu ekki lagðar þær hömlur á rekstur Eimskipafélagsins, að það þurfi að fara að eta upp sjóði, sem því hefur tekizt að safna til að byggja upp ný skip til þess að leysa það þarfa hlutverk, sem félagið hefur innt af hendi í siglingum milli landa og meðfram ströndum landsins.