14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. 2. þm. S.-M. beindi allmörgum ummælum til mín, og út af því ætla ég að segja örfá orð, en um efnishlið málsins, skattfrelsi Eimskipafélagsins og rök, sem að því hníga, get ég vísað til þess, sem samstarfsmaður minn í stj., hæstv. fjmrh., hefur sagt, og þess, sem ég sjálfur hef um það sagt. Það var að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. S.-M., að ég vil víkja nokkrum orðum að skattamálum almennt og þá sérstaklega að stefnu hans í skattamálum undanfarin ár.

Það var þá fyrst og fremst út úr þeim skilningi ræðu minnar og þeim ummælum, sem ég hef viðhaft í þessu sambandi, sem hann vék að mér. Hv. þm. sagði, að mér væri bezt að vera ekki að draga látna menn og ummæli þeirra inn í umr., og átti hann við það, sem ég hafði haft eftir látnum form. Alþfl., Jóni heitnum Baldvinssyni, í sambandi við skoðun hans á skattastefnu hv. 2. þm. S.-M. Ég endurtek það, sem ég hef áður um það sagt, að þessum varfærna, en þó vinstrisinnaða manni ofbauð, hversu langt hv. 2. þm. S.-M. gekk, en víð skulum láta það liggja milli hluta og halda okkur við það, sem hv. þm. sjálfur hefur sagt. Ég man ekki betur en hv. þm. viðhefði þau ummæli í Tímanum 1942, að svo langt væri gengið í skattaálögum, að lengra yrði ekki komizt. En þótt hann viðhefði þessi ummæli, vildi hann þó ganga enn lengra eftir það í þessum efnum; um það bera till. hans vitni, og vil ég segja það, að enda þótt ég hafi staðið að skattalöggjöf með honum, hefur það verið til þess að girða fyrir það, sem verra var og hann vildi standa að sjálfur. Ég tiltek þetta vegna þess, að hv. þm. lét eins og það væri í fyrsta skipti komið óvægilega við skattþegna landsins. En ég veit engan þm., sem hefur í þeim efnum viljað ganga lengra en hann sjálfur. Ég vil minnast á því til sönnunar, að ég man ekki betur en blað hans miklaðist yfir því, að við sjálfstæðismenn hefðum verið tilneyddir að ganga lengra í skattaálögum en við hefðum óskað.

Hv. þm. sagði, að nú væri tiltölulega auðvelt að leggja á skatta, þar sem menn hefðu yfirleitt meiri tekjur en áður, en taldi þó álögurnar óhóflegar. Þetta er að nokkru rétt, en það er hins vegar ekki mikið samræmi í till. hans og hans flokksmanna. Annars vegar koma þeir ekki með neinar till. til að spara eða lækka skatta og fullyrða, að tugi milljóna vanti í ríkissjóð, en hins vegar ráðast þeir á ríkisstj. fyrir eyðslu, en hafa þó staðið að öllum útgjaldatill.

Varðandi einstök atriði úr ræðu hv. þm., taldi hann mestan voða stafa af því, hve fáir menn réðu Eimskipafélaginu. Ég benti á, að sama hættan væri til staðar hjá S.Í.S. Hann kvað það rangt vera, þar sem samvinnufélögin væru allt öðruvísi byggð upp. En ég hygg, að þessi hætta sé þar ekki minni, og ætla, að allir kunnugir séu mér þar sammála.

Viðvíkjandi fríðindum þeim, sem ég benti á, að samvinnufélögin hefðu, þá voru ummæli hv. 2. þm. S.-M. útúrsnúningar einir. Ég talaði um fríðindi samvinnufélaganna, en .ekki skattfrelsi. En ef svipta skal annan aðilann forréttindum sínum, hvað á þá að gera við hinn? Og þótt fríðindi og frelsi sé ekki það sama í þessu tilfelli, þá er þó skylt skegg höku. Það má segja, að eðlilegt hafi verið að styrkja þessa hreyfingu meðan hún var veik. En nú hlýtur að vakna sams konar spurning gagnvart samvinnufélögum og Eimskipafélaginu: Eru þau ekki orðin nægilega sterk? Ég hef ekki borið fram till. hér um, en ég hef ekki heldur lagt hitt til, að Eimskipafélagið yrði svipt skattfrelsi sínu. Ég er sammála hv. 2. þm. S.-M. um það, að ekki sé rétt að byggja á því, að löggjafinn megi ekki hafa þá aðstöðu að geta komið og krafizt fjár af Eimskipafélaginu. En ég er þeirrar skoðunar, að æskilegt væri, að ekki þyrfti að skerast í odda milli ríkisins og félagsins.

Ég marka stefnu mína í þessu máli af því, hvernig þessi stofnun hefur rekið starfsemi sina. Það er með hag ríkisins fyrir augum. Við erum ekki sammála um það, hvort heppilegra sé, að það verði rekið á sama hátt framvegis eða af ríkinu. Ég tel, að það verði ekki eins vel rekið af ríkinu eins og af þeirri stj., sem er skipuð á sama hátt og sú, er nú situr.

Og ég tel ekki hættu á, að félagið gerbreyti um stefnu meðan 1300 menn eiga þar hluti.

Ég er fús til að tryggja rétt hvers hluthafa, ef áhrif þeirra eru dregin í efa, en ég vil halda félaginu á þessum frjálsa grundvelli.

Trú mín á ríkisrekstri er takmörkuð, og ég held, að hann mundi ekki reynast eins vel í þessu tilfelli. Ég skal ekki þrátta um það, hvort það var ámælisvert af félaginu að ákveða farmgjöldin svo hátt. En sú nefnd, sem ákvað farmgjöldin, hafði öll skilyrði til að meta þau réttilega.

Ég skal, til að lengja ekki umr., sleppa að svara ýmsu í ræðu hv. 2. þm. S.-M. En ég vil taka það fram, að þótt tekinn hefði verið skattur af Eimskipafélaginu á undanförnum árum, þá hefði það fé runnið út í sandinn, og niðurstaðan hefði verið sú, að ekkert fé hefði verið til til þess að byggja upp flotann. Ég held einnig fast við það, að þótt líklegt sé, að félagið haldi áfram sínu starfi á sama veg hér eftir sem hingað til, þó að skattfrelsi þess væri afnumið, en það mun nú skoðun flestra þm., þá er enn þá síður ástæða til að ætla, að það breyti um stefnu, ef það fær .skattfrelsi áfram.

Ég skal svo ekki lengja fremur þessar umr., nema tilefni gefist.