14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég þarf ekki að þessu sinni að ræða efnishlið þessa máls, en það voru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. S.-M., sem ég þarf að svara.

Hann vildi svo vera láta, að afstaða mín væri allt önnur en stefna Alþfl. í þessu máli hingað til. Hann sagði, að þetta frv. væri bein mótsögn við allt það, sem jafnaðarmenn hefðu lagt til.

Ég hef nú dálítið athugað gang þessa máls allt frá 1924, og virðist ekki hafa verið ágreiningur um það nema fyrst, þegar það kom fram. En þá var Jón heitinn Baldvinsson því andvígur.

Síðan hefur þetta æ ofan í æ verið samþykkt án andstöðu Alþfl. Það eru því ósannindi, að þetta sé á móti stefnu flokks míns. Það er hins vegar skoðun mín, að sjálfsagt sé að tryggja það, að Eimskipafélagið noti þetta skattfrelsi þannig, að það komi þjóðfélaginu í heild að notum, og ég er fús til að ræða það, á hvern hátt þetta verði bezt tryggt.

Það er annað mál, hvaða álit ég hef á hinum háu flutningsgjöldum félagsins síðasta ár, en þessi skattur mundi aldrei ná til þeirra. Og þótt það komi þessu máli í rauninni ekki við, þá get ég getið þess, að þegar verðlagseftirlit er komið á í landinu, mætti ætla, að það liti eftir, að slíkir hlutir væru í lagi.

Hv. þm. sagði, að ég hefði fundið út, að félagið hefði grætt of lítið á þessum háu farmgjöldum. En ég sagði, að eignir félagsins mundu ekki nægja til að kaupa þau skip, sem það þarf. Að þetta sé það sama og ég hafi sagt, að félagið hafi grætt of lítið, það kalla ég einkennilegan skilning. Það, sem er aðalatriðið fyrir mér, er það, að félagið geti aflað skipa og veitt þeim, sem við það vinna, lífvænleg laun.

Þá sagði þessi hv. þm., að ekki væri hægt að taka þannig út úr einn aðila og veita honum skattfrelsi. Ég er honum ekki sammála um það. Ég held, að það sé gerlegt með þeim skilmálum, sem Alþingi kann að setja. Þegar og þess er gætt, að starf þessa félags er svo kostnaðarsamt, að það mun ekki geta orðið við hlutverki sínu að öðrum kosti. Það, sem kann að safnast í varasjóði, er ekki það mikið, að með því verði keypt þau skip, sem félagið þarfnast.

Fleira mun það ekki vera, sem ég þurfti að svara um sinn.