14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég get ekki fallizt á það, sem hæstv. samgmrh. sagði um fyrri afstöðu Alþfl. í þessu máli. Það er vitað mál, að Alþfl. hefur verið þeirrar skoðunar, að Eimskipafélagið ætti að verða félagseign ríkisins og ríkið hluthafi. Þessi stefna hefur oft komið fram og verið stefna flokksins í málinu. Þáv. form. fl. var á móti því að veita þetta skattfrelsi, eins og ég benti á.

Þá vildi hæstv. ráðh. ekki heldur viðurkenna þá mótsögn, sem ég hef tilfært um stefnu flokksins frá 1924 við það, að nú beri að framlengja skattfrelsið og Eimskipafélagið sé of fátækt til að sinna hlutverki sínu. Ég hef nú ekki við höndina það, sem Alþfl. sagði um þetta, en ég held, að enginn, sem gagnrýndi þetta þá, hafi komizt í hálfkvisti við Alþfl. um þetta efni. Ég held því, að mörgum komi það næsta einkennilega fyrir og hafi búizt við öðru en því, að Alþfl. legði blessun sína yfir skattfrelsi Eimskipafélagsins, án þess að nokkur ný skilyrði kæmu til af hendi hæstv.

Alþ. eða íhlutun um rekstur félagsins. En öðru máli væri að gegna, ef slík till. hefði legið fyrir af hálfu Alþfl.

Hæstv. ráðh., sem talað hafa þrír, þ. á m. hæstv. fjmrh. og hæstv. samgmrh., hafa lagt á það mikla áherzlu, að félagið væri ekki nógu öflugt til að standa undir því, sem það á að gera. Má vel vera, eins og ég tók fram, að enn þá stærri fjárhæð þurfi en félagið á nú, til þess að það geti keypt allan þann skipastól, sem landsmenn vildu gjarnan; að Íslendingar ættu. En þetta verður að skoða í samanburði við aðra. Og getur nú hæstv. ráðh. dottið það í hug, að hægt verði að koma við uppbyggingu atvinnuveganna í landinu, án þess að til þess sé notað nokkurt lánsfé af nokkrum aðila? Hvernig er háttað fyrirtækjum manna í sambandi við fiskveiðarnar? Er þar gert ráð ,fyrir, að allir þeir aðilar, sem reka einhvers konar útveg, geti keypt sér ný skip, án þess að taka nokkurs staðar lán? Nei, það er þvert á móti ætlazt til, að þeir taki lán til að koma því í framkvæmd, til viðbótar því fé, sem þeir eiga sjálfir. Hæstv. fjmrh. hefur reiknað út, til hve mikils hrökkvi það fé, sem Eimskipafélagið hefur nú með höndum, og komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta fé nægi til að kaupa 1—2– 5 þúsund smálesta skip. Ef þetta er rétt, ætti allt nýsköpunarfé hæstv. ríkisstj., 300 millj. kr., að nægja til að kaupa 10–20 slík skip, og ekki hægt að kaupa neitt meira. Þessar tölur hæstv. ráðh. eru vitanlega nefndar út í bláinn.

Hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þessa lund: Eimskipafélagið er ekki nógu öflugt til að framkvæma allt, sem af því er krafizt. Því verður það að vera skattfrjálst. Ber að skilja hæstv. ráðh. þannig, að allir þeir, sem verða að borga skatta, séu þar með útilokaðir frá því að aðhafast nokkuð verulegt til umbóta? Það er ekki hægt að skilja þessi ummæli á aðra lund en þá, að ef Eimskipafélagið komi undir l., geti það ekki gert neitt frekar um endurbyggingu eða slíkt. Og ef þetta er skoðun hæstv. ráðh., hvernig getur hann þá tekið að sér að vera fjmrh. og auka þessa skatta frá því, sem þeir eru? Því að ef þetta væri rétt, væri loku skotið fyrir þessa þróun, ef félagið fengi ekki skattfrelsi, og þá á það við um annan atvinnurekstur í landinu. Þetta rekur sig hvað á annað. Róðurinn mundi verða þyngri fyrir Eimskipafélagið að safna stórsjóðum til viðbótar, en þó ekki útilokað, eins og sést af því, að það mundi koma undir almennan rétt hlutafélaga til að safna sér peningum. Og þessi skilyrði, sem hæstv. ráðh. lýsir svona, eru skilyrði þeirra, sem eiga að standa undir stjórnarfari í atvinnulífinu. Nei. Hér er allt of langt seilzt til raka. Höfuðatriði málsins er að bera möguleika Eimskipafélagsins saman við þá möguleika, sem aðrir hafa. Það er bara fjarstæða, að þessi nýi atvinnurekstur í landinu geti orðið byggður upp, án þess að nokkurt lán sé tekið. Einstaklingum og félögum er þvert á móti ætlað að taka lán til viðbótar sínu eigin fé, til þess að koma því í framkvæmd.

Þá er þess að geta, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að það væri sýnilega útilokað, að nokkur aðili kæmi nærri siglingum annar en Eimskipafélag Íslands. Vitanlega er æskilegt, að víð Íslendingar eigum sem stærstan skipastól. En ég álít, að það sé ekki heppilegt, að Eimskipafélagið eða einn aðili eigi þann flota og hafi ekki neina samkeppni við að etja. , Og þetta er máske eitt mesta vandamálið varðandi þá stefnu, sem nú ríkir í þessum efnum. Öll eðlileg samkeppni er útilokuð í þessum atvinnurekstri með þessu áframhaldi. Engum öðrum aðila, sem ætlar sér að leggja stund á þennan atvinnurekstur verður veitt sama undanþága.

Hæstv. forsrh. sagði, að menn skyldu ekki hafa áhyggjur af þessu, því að Eimskipafélagið hefði verið vel rekið og mundi verða vel rekið framvegis. Fyrir þessu er engin trygging með því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum hlutum, engin íhlutun af hálfu þjóðfélagsins um rekstur fyrirtækisins.

Því er haldið hér fram, að þeir, sem eiga félagið, geti ekki haft í því sambandi neinar gróðavonir. Slíkt er vitanlega mesta fjarstæða, þar sem enginn annar aðili getur komið til greina eins og allt er í pottinn búið, og því held ég, eins og ég hef margtekið fram, að þetta sé mjög slæmt fyrirkomulag, að láta eitt stórt félag hafa þennan atvinnurekstur með höndum með slíkum sérréttindum, að allir aðrir eru útilokaðir og ríkið hefur þar enga íhlutun. Og ég efast um, að það sé víða, sem slíkt fyrirkomulag er haft um jafnþýðingarmikið mál.

Það eru margir, sem hafa látið það villa sig, hvað þetta var og er merkilegt átak, stofnun Eimskipafélagsins. En þetta er ekki heppilegt, og ég held, að ýmsir, sem fylgja þessu máli, hljóti að vera sömu skoðunar, þótt þeir ekki vilji beina málinu á aðra braut.

Hæstv. forsrh. endurtók það, að Jóni heitnum Baldvinssyni hefði ofboðið mín stefna í skattamálum. Þetta er náttúrlega í mesta máta óviðkunnanlegt af hæstv. forsrh. Ég held, að hann ætti a.m.k. að vita, að það var fullt samkomulag milli Framsfl. og Alþfl. um þá skattamálastefnu, sem haldið var uppi, og að Alþfl. átti allan hlut að því skattfrelsi, sem mþn. 1944 gerði.

Ég kann því illa við þetta klif hæstv. forsrh. um skoðun þessa látna manns á þessum málum. Og ég vil segja það, að hafi Jóni heitnum Baldvinssyni ofboðið stefna mín í skattamálum, hvað mætti hann þá segja nú, ef hann gæti litið upp úr gröf sinni, um þá stefnu, sem þessi hæstv. ráðh. heldur nú uppi í þessum sömu málum? Ég vildi því vara hæstv. forsrh, við að vera að klifa á þessum skattamálum.

Þá sagði hæstv. forsrh., að ég hefði sagt í grein í Tímanum, að það væri búið að ganga svo langt í skattamálunum, að ekki yrði lengra gengið. Læt ég það liggja á milli hluta, hvort ég hef sagt þetta eða ekki. En hafi ég sagt það, ganga hæstv. forsrh. og fjmrh. lengra en ég hafði nokkurn tíma hugsað mér, að gengið yrði, þegar ég viðhafði þessi ummæli, því að nú þegar hefur verið miklu lengra gengið og verr gengið en nokkrum manni hafði dottið í hug, svo að uppskátt hafi verið látið. — Ég held því, eins og ég áður sagði, að hæstv. forsrh. ætti að fara gætilega í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. spurði mig um það, hvort nokkurt samræmi væri í því að gagnrýna væntanlegan halla á fjárl. og hækkun skatta, en hafa samt ekki komið með lækkunartill. Hann ætti þó að muna, að honum sjálfum óx ekki í augum að gera þetta og það í ríkulegum mæli. En hæstv. forsrh. gleymir því, að það er hann, sem komið hefur öllum þeim till., sem hér hafa verið fluttar hvað eftir annað um stöðvun dýrtíðarinnar, fyrir kattarnef, ýmist í þinginu, sjálfri ríkisstj. eða í framkvæmd. Vegna þess að dýrtíðin hefur fengið að leika lausum hala, er komið sem komið er.

Ég sé svo ekki, að ég megi reyna meira á þolinmæði hæstv. forseta, og skal ekki hafa þessa aths. lengri.