21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það varð ekki samkomulag um afgreiðslu þessa máls í fjhn. Ég gat ekki fallizt á að mæla með samþ. frv., nema með breytingum, sem meiri hl. fjhn. vildi ekki samþykkja.

Það eru liðin um 20 ár síðan Eimskipafélaginu var veitt undanþága frá skattgreiðslu með l. Þessi l. hafa síðan oft verið framlengd, og árið 1928 var það skilyrði sett, að félagið borgaði ekki hluthöfum nema 4 af 100 í arð og veitti ákveðinni tölu manna ókeypis far með skipum sínum — samkvæmt ákvörðun menntamálaráðs.

Þannig hafa þessi skilyrði verið síðan. Og það mun oftast nær hafa verið nokkurn veginn samkomulag um það hér á Alþ. áður að framlengja þessi l. Alþ. hefur yfirleitt litið svo á, að réttmætt væri að styrkja félagið á þennan hátt og hjálpa því úr fátæktinni til bjargálna og vel það, vegna þess að það er ákaflega þýðingarmikil starfsemi fyrir þjóðina, sem Eimskipafélagið hefur haft með höndum frá fyrstu tíð.

En síðan þessi l. voru síðast framlengd og þessi hlunnindi veitt, tel ég svo miklar breytingar hafi á orðið og viðhorfið sé nú allt annað og ekki réttmætt að veita félaginu þessi réttindi með sama hætti og áður hefur verið gert.

Þegar reikningar félagsins fyrir árið 1943 komu fyrir almenningssjónir á s.l. ári, kom í ljós, að félagið hafði safnað gróða á því eina ári, sem nemur á okkar mælikvarða stórfé. Ég tel, að félagið hafi þarna gengið óhæfilega langt í því að safna fé í sjóði sína á þessu eina ári, þegar á það er litið, að á sama tíma hefur ríkið orðið að verja mjög miklum fjárhæðum til þess að hafa hemil á dýrtíðinni í landinu. Eins og ég hef vikið að í nál. minni hl., er rekstrarágóði félagsins fyrir árið 1943 rúmar 18 millj. kr. En tekjuafgangur á árinu er í raun og veru nokkru meiri, vegna þess að þá er búið að telja með rekstrargjöldum hjá félaginu yfir 2 millj. kr., sem það hefur lagt í eigin vátryggingarsjóð af tekjum ársins og sömuleiðis lagt til hliðar 31/2 millj. kr. til þess að mæta væntanlegum kostnaði við viðgerðir á skipum félagsins, og er þetta fært með gjöldum. Þá má einnig benda á, að á reikningnum er einnig, eins og hann er upp gerður, varið 1 millj. og 600 þús. kr. rúmlega til afskrifta á eignum félagsins, aðallega á einu skipi, sem áður hafði verið fært nokkuð hærra en hin skip félagsins. En jafnvel þótt þessari afskrift sé sleppt, hefur tekjuafgangur félagsins á þessu eina ári verið yfir 23 millj. kr.

Efnahagur félagsins er líka mjög góður orðinn á okkar mælikvarða, þar sem það á samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 1943 um það bil 31 millj. 700 þús. kr. hreinar eignir. En raunverulegar eignir félagsins eru miklu meiri, því að fyrst og fremst má bæta við þessum 31/2 millj. kr., sem teknar hafa verið frá til þess að mæta viðgerðarkostnaði skipanna, og er sú upphæð talin með skuldum á efnahagsreikningnum. Og þá má einnig líta á, að eignir félagsins eru bókfærðar fyrir sáralítið verð eða svo að segja ekki neitt, þar sem skip þess, 6 að tölu, eru þá talin til eigna á aðeins 5 þús. kr. hvert og fasteignir og áhöld einnig mjög lágu verði.

Ég tel því, að það séu allt aðrar ástæður nú en nokkru sinni hefur verið áður að því er snertir þetta mál. Og þó að ég viðurkenni réttmæti þess, eins og ég hef áður sagt, að styrkja félagið áður fyrr til þess að gera það vel bjargálna, þá horfir vitanlega allt öðruvísi við, eftir að það er orðið svo auðugt nú, og sennilega auðugra en nokkurt annað fyrirtæki hér á landi. Mér dettur hins vegar ekki í hug að bera á móti því, að þörf sé fyrir mikið fé til þess að bæta við flutningaskipaflota okkar næstu ár, en ég vil minna á í þessu sambandi, að það er fleira, sem þarf að gera. Það er engu minni þörf á því að endurbyggja fiskiskipaflotann. Og þeir, sem þann rekstur hafa með höndum, útgerðina, munu yfirleitt vera stórum verr á vegi staddir nú og hafa minni möguleika til þess að leysa sín verkefni en Eimskip hefur til þess að sinna þeim þörfum, sem því er sérstaklega ætlað að leysa.

Það má gjarnan í þessu sambandi víkja að því, til samanburðar, hvernig löggjafarvaldið býr að öðrum fyrirtækjum, þ.e.a.s. útgerðarfyrirtækjum, sem nú eiga að borga aukaskatt samkvæmt því frv., sem var hér til umræðu næst á undan þessu frv. á fundi í dag, til viðbótar við alla þá skatta, sem fyrir eru. En vegna þess að ég viðurkenni fúslega þörfina á því, að til séu sjóðir til þess að verja til kaupa á flutningaskipum, hef ég þó ekki viljað leggja til, að frv. væri fellt, heldur yrði gerð á því sú breyting, að Eimskipafélaginu væri gefinn kostur á því að njóta hlunnindanna áfram með því móti, að ríkið gerðist þáttakandi í félaginu frekar en hefur verið áður og fengi þar með meiri íhlutun um stjórn þess og rekstur. Mér virðist einkum hagur félagsins hin síðustu ár, og þó einkum 1943, gefa fullt tilefni til þess, að farið sé inn á þessa braut.

Samkvæmt till. minni vil ég, að Eimskipafélagi Íslands verði heimilað að greiða skatta til ríkisins, þ.e.a.s. tekjuskatt, stríðsgróðaskatt og eignarskatt með hlutabréfum í félaginu, sem verði reiknuð til skattgreiðslu með nafnverði, og ríkið hafi hlutfallslegan rétt til þess að ráða málefnum félagsins. En þó vil ég ekki, að lengra verði gengið í þessu en svo, að eftir að ríkið hefur eignazt hluti í félaginu, sem nema jafnmikilli fjárhæð og samanlagðar hlutafjáreignir annarra hluthafa, m.ö.o., þegar ríkið er orðið eigandi félagsins að hálfu, þá verði félagið leyst undan frekari skattgreiðslum til þess, og gildi þá framvegis ákvæði l. frá 1928 um skatt- og útsvarsgreiðslu félagsins.

Ég vil benda á, að ef fallizt verður á þessa leið, sem ég vil kalla samkomulagsleið í málinu, þá heldur Eimskipafélagið öllum sjóðum sínum sem það nú á, og því, sem það kann að græða hér eftir, og getur varið þeim fjármunum til þeirra verkefna á sviði samgöngumála eftir þörfum. Aðeins með þessu móti er ríkinu gefinn réttur á því að hafa meiri áhrif á stjórn og rekstur félagsins. Þetta yrði félagsrekstur ríkisins og einstaklinga eins og viða á sér stað bæði hér og í nágrannalöndum okkar.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að þegar Útvegsbanki Íslands var settur á stofn 1930 á rústum Íslandsbanka, þá var sú leið farin að gera úr þeirri stofnun félagsrekstur ríkisins og einstaklinga með fjárframlagi frá ríkinu til þess að reisa við bankann. Ég sé ekki, að það ætti að þurfa að ganga nokkru verr, að því er snertir þennan rekstur, þó að slíkt fyrirkomulag væri tekið upp. Og ég vil benda á í þessu sambandi, hve ríkið hefur mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli. Það má t.d. benda á, að ríkið hefur nú eina útgerð, skipaútgerð ríkisins, og ef farið væri inn á þessa leið, sem ég geri hér till. um, fyndist mér ekki ólíklegt, að nánara samstarf gæti orðið einmitt á milli ríkisins og annarra eigenda félagsins um þessa starfsemi alla og þar á meðal um strandferðirnar:

Eins og segir í nál. mínu, sé ég mér hins vegar ekki fært að mæla með því, að frv. verði samþ., nema þessi breyting verði á því gerð eða einhver önnur, sem leiddi til svipaðrar niðurstöðu. Ég held, að einmitt með því að fara inn á þessa braut verði bezt borgið hagsmunum allra, sem hér eiga hlut að máli, bæði ríkisins og Eimskipafélagsins einnig. Félagið gæti þá haldið sínum sjóðum og losnað undan skattgreiðslu og varið fé sínu til skipakaupa og e.t.v. annarra framkvæmda á þessu sviði.

Við 1. umr. þessa máls flutti hæstv. samgmrh. ræðu m.a. og bar þar fram meðmæli með því, að þessi l. yrðu framlengd eins og áður. Hæstv. ráðh. ræddi í því sambandi um þá miklu þörf, sem væri á því að auka skipastólinn og hve mikill kostnaður yrði því samfara, og hafa reyndar fleiri að því vikið í þessu sambandi. En ég held þó, að ýmsir séu óþarflega svartsýnir í þessum efnum, þ.e.a.s., að þeir telji verð og byggingarkostnað skipa munu verða meiri en ef til vill verður. Það er náttúrlega ekki gott að segja um þetta. En í umr. um þetta, held ég, að menn yfirleitt líti um of á það, hvað kostnaður við bátasmíði hér á landi hefur orðið mikill. Ég vil einmitt í sambandi við þetta mál geta hér um upplýsingar um verð á flutningaskipum, sem birtar voru í brezku tímariti í janúarmánuði í vetur. Þetta tímarit heitir The motorship. Þar er m.a. skýrt frá greinum, sem þá hafa nýlega verið birtar í sænsku blaði varðandi byggingarkostnað skipa í Svíþjóð fyrir stríð og nú. Þetta sænska blað segir, eftir því sem þetta brezka blað skýrir frá, að sænska eimskipafélagið hafi upplýst, að burðarmagnstonn í 7 þús. smál. mótorskipi, sem gekk 16 mílur, hafi hjá því félagi kostað 440 sænskar kr. fyrir stríð. En nú kostaði burðarmagnstonnið í slíku skipi 700 sænskar kr. Þá mun láta nærri, með því gengi, sem er á sænskri kr., að það kostaði nálægt 1100 ísl. kr. Og þess er getið, að hækkun á byggingarkostnaði skipa af þessari gerð frá því fyrir stríð sé 59%. Í þessu sambandi upplýsir þetta brezka tímarit, að burðarmagnstonn í 9500 tonna Dieselmótorskipi, 12 mína, byggðu í Bretlandi rétt fyrir stríð, hafi kostað 141/2 sterlingspund, en kostnaðurinn nú um það bil 24 sterlingspund hver smálest, og er þá hækkunin um það bil 65,5%. Ef miðað er við þessar tölur, sem gefnar eru upp nú, að kostnaðurinn sé 24 sterlingspund hver smál., þá verður hann í ísl. kr. 630,00. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur byggingarkostnaður skipa hækkað heldur meira í Bretlandi en í Svíþjóð frá því fyrir stríð. Enn fremur bendir blaðið á það, að þar sem 700 sænskar kr. jafngildi 40,5 sterlingspundum miðað við núverandi gengi, þá líti út fyrir, að það sé mun ódýrara að fá byggð skip í Bretlandi en í Svíþjóð.

Mér þykir líklegt, að það megi taka töluvert mark á því, sem þetta brezka tímarit segir, og þeim upplýsingum, sem það gefur, því að það virðist vera þar um að ræða tímarit, sem sérstaklega hefur þessi málefni til meðferðar.

Jafnvel þótt við tækjum hærri upphæðina, byggingarkostnaðinn í Svíþjóð, sem er nálægt 1100 ísl. kr., mundi samkvæmt því hægt að fá 7 þús. smál. flutningaskip, sem gengi 16 mílur, fyrir 7–8 millj. ísl. kr. Aftur ef miðað er við það, sem gefið er þarna upp um byggingarkostnað slíkra skipa í Bretlandi, þá er hann 40% lægri en í Svíþjóð. Mér sýnist því þetta benda til þess, að horfurnar séu ekki eins ískyggilegar í þessu efni og mér hefur skilizt, að margir telji, að þær muni vera.

Þegar farið verður að vinna að því að bæta siglingar okkar, þá getur vitanlega fleira komið til greina en smíði á svo og svo mörgum skipum. Það væri vert að taka það til athugunar, hvort hægt væri að fá á leigu með sæmilegum kjörum hentug flutningaskip. Gæti það verið hentugt, ef um það væri að ræða, því að þá þyrfti ekki eins að hraða nýbyggingum skipa, og mætti þá ef til vill vænta þess, að byggingarkostnaður skipa lækkaði síðar.

Annars virtist mér, að í ræðu hæstv. samgmrh. kæmu fram nokkuð önnur sjónarmið og stefna hans nokkuð á annan veg en maður hefði getað gert ráð fyrir, eftir því, sem áður hefur komið frá hans fl. um þetta. Og sama er að segja um afstöðu flokksbróður hans, hv. 5. landsk., sem kemur fram í undirritun hans undir nál. meiri hl., þótt að vísu sé með fyrirvara.

Á s.l. ári, 1944, var allmikið rætt hér í sumum blöðum um Eimskipafélagið og málefni þess, eftir að uppvíst var um það, hve miklum gróða félagið hafði safnað á árinu 1943. Og í málgagni Alþfl., Alþýðublaðinu, var m.a. að þessu vikið í grein 27. maí 1944, og segir þar m.a. á þessa leið. með leyfi hæstv. forseta: „Eimskipafélag Íslands hefur á einu einasta ári grætt 24 millj. kr. á farmgjöldum til landsins, þó að allt sé á sama tíma að sligast af völdum dýrtíðar innanlands.

Hvernig eiga menn að skýra annað eins fyrir sér?“ 3. júní 1944 ræðir þetta sama blað einnig um þetta mál og bendir á það, að nú sé einmitt varið stórkostlegum upphæðum úr ríkissjóði til þess að halda niðri vöruverði í landinu, og segir blaðið síðan um Eimskipafélagið: „Það getur að minnsta kosti varla hjá því farið, að þjóðin geri kröfur til, að þetta hneykslismál sé upplýst til hlítar þannig, að úr því verði skorið, hver sökina ber á því, að dýrtíðin í landinu hefur verið mögnuð á svo ábyrgðarlausan hátt.“

8. júní 1944 segir enn fremur í sama blaði: „Félagið er hálfopinber aðili, eins og viðskiptaráð bendir alveg réttilega á. Það nýtur ýmislegra fríðinda og hlunninda af hálfu ríkisvaldsins, svo sem skattfrelsis.“

Og enn fremur segir: „Félagið hefur unnið gegn fyrirætlunum ríkisvaldsins í baráttunni gegn ægilegasta dýrtíðarbleg, er þjakað hefur þetta land, og orðið til þess að magna dýrtíðina mjög tilfinnanlega.“ Þessar ásakanir á hendur Eimskipafélaginu eru svo þungar, að þær geta engan veginn legið í þagnargildi.

Og Alþýðublaðið segir einnig um þetta mál þann 29. júlí 1944: „En þetta óskabarn verður að hafa aðhald ekki síður en önnur börn, ef það á að verða þjóðinni að því gagni, sem af því hefur verið vænzt. Og fyrr má græða og búa í haginn fyrir framtíðina en að 24 millj. kr. sé rakað saman á einu ári á flutningsgjöldum til landsins, meðan þjóðin sjálf berst í bökkum til þess að verjast hrapandi flóði dýrtíðarinnar.“

Mér finnst sem sagt, að það muni vera orðin nokkur breyting á afstöðu hæstv. samgmrh. og hans fl. til þessara mála, ef athuguð eru fyrri ummæli hans og flokksbræðra hans um félagið og gróða þess árið 1943.

En það eru fleiri góðir menn, sem hafa látið eitthvað til sín heyra um þetta mál á þessu síðasta ári. Það er einnig gefið út blað, sem heitir Þjóðviljinn og er málgagn Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl. Og þar var nú stundum vikið að þessu félagi og málefnum þess árið sem leið.

2. júní segir svo í Þjóðviljanum: „Það passar ekki í kramið hjá Birni Ólafssyni, að ríkið hefði grætt 23 millj. á farmgjöldum eða lækkað verð í landinu um þá upphæð. Það er betra að láta „óskabarn Jóns Árnasonar og Eggerts Claessens“ taka 23 millj. og segja svo við þjóðina: Ríkissjóður er tómur, og það verður að lækka launin.“ (EystJ: Þeir eru farnir út, þessir tveir sósíalistar, sem voru inni.) Og enn segir í Þjóðviljanum: „Þjóðin heimtar Eimskipafélagshneykslið krufið til mergjar.“ — En það eru nú liðnir a.m.k. 4 mánuðir, síðan tveir hv. þm. frá þessum flokki, sem svo skrifaði, settust í ríkisstj., og mér þykir ekki ólíklegt, eftir þeim kröfum, sem þarna voru fram bornar, að þeir hafi látið það verða eitt af sínum fyrstu verkum að rannsaka þetta hneyksli. Og mætti spyrja um niðurstöðurnar af því. Því að ég geri tæplega ráð fyrir því, að þeir hafi gleymt þessu, þegar í stj. var komið.

Nú, það er fleira um þetta í þessu blaði þennan sama dag, t.d.: „Hvað hefur ríkissjóður og Reykjavíkurbær orðið að borga mikið fé aukreitis í launauppbætur vegna þessarar skipulögðu dýrtíðar? Er það máske einn milljónatugurinn enn? Þjóðin heimtar fullkomna rannsókn á þessu máli ..... Og Eimskipafélagið verður að takast til gagngerðrar meðferðar af ríkisins hálfu. Stjórnleysið og sérréttindin þar geta ekki lengur farið saman. Eimskipafélagið er alveg skattfrjálst og útsvarsfrjálst. Það græðir 23 millj. kr. s.l. ár og á um 50 millj. kr. í skuldlausum eignum.“ Og svo er talað um, að stríðsgróðafélögin hin þurfi ekki að borga útsvör af yfir 200 þús. kr. gróða. Og svo er bætt við: „Með þessum aðferðum gamla þjóðstjórnarafturhaldsins á þingi, gegn vilja Sósíalistafl., hefur afturhaldið fengið því framgengt að skella mestöllum þunga útsvaranna yfir á láglauna- og miðlungstekjumenn. Þess vegna er útsvarsálagningin í Reykjavík nú sú óréttlátasta, sem þar hefur lengi, máske nokkurn tíma verið. Það er verið að sliga fjöldann af launþegum með svívirðilegum útsvörum á sama tíma sem Eimskipafélagið er útsvarsfrjálst af 23 millj. kr. gróða.“ — Og enn er í Þjóðviljanum: „Reiði manna yfir öllu þessu hróplega óréttlæti er þess vegna eðlilega meiri en nokkru sinni fyrr. En til þess að breyta þessu, er ekki nóg að vera reiður. Til þess að breyta þessu þarf alþýðan að ná meiri hluta í Reykjavíkurbæ og svo miklum áhrifum á þingi, að hún geti hnekkt mestu hneykslum afturhaldsins þar.“ — Ég veit ekki um reiðina; að hún sé nokkuð farin að sjatna, það kann nú að vera. En það er sagt þarna, að það sé ekki nóg að vera reiður, heldur þurfi meira til, til þess að breyta þessu. Og nú skyldi maður ætla, að þegar tveir af hv. alþm. þessa flokks eru komnir í ríkisstj., þá hefði verið tekið til höndunum þarna. En það hefur bara farið ákaflega leynt, því að maður hefur ekkert af þessu heyrt — fyrr en nú, þegar hv. 8. þm. Reykv. undirskrifar nál. meiri hl., — nú er hann ekki lengur í minni hluta, blessaður, — um það að láta nú þetta félag hafa þessi fríðindi áfram, sem það undanfarið hefur notið.

Ég skal nú ekki þreyta hæstv. forseta eða hv. þm. með því að lesa miklu meira upp úr þessu blaði. Þó eru hér ein eða tvær klausur enn, sem mætti minnast á. 5. júlí 1944 segir í Þjóðviljanum: „Það má ekki dragast lengur, að allt Eimskipafélagsmálið sé tekið til gagngerðrar endurskoðunar. Það er óþolandi, að fyrirtæki, sem nýtur hvers konar fríðinda og forréttinda af hálfu hins opinbera, skuli misnota þessa aðstöðu sína til þess að féfletta almenning með óhæfilega háum flutningsgjöldum.“ — Og síðan er 19. júlí í sama blaði talað um Tímann og framsóknarmenn, að þeir hafi verið fremstir þar í flokki, er þetta skattfrelsi var veitt. Og þar segir: „Sósíalistar stóðu gegn því, en máttu ei við margnum.“ — Blessaðir. — Og svo stendur hér: „Framsfl. er sjálfur einn höfuðpaurinn í öllu því hneyksli ... En það er vitanlegt mál, að til þess, að nokkuð verði gert í þá átt og aðra endurbótaátt, þá verður sú dulbúna Framsóknarflokksafturhaldsstjórn, sem nú ríkir, að víkja og frjálslynd, framsækin stjórn að taka við.“ — Þarna hafa menn það. — Og nú er hún farin fyrir fjórum mánuðum, þessi „dulbúna Framsóknarflokksafturhaldsstjórn“, og nú er „frjálslynd og framsækin stjórn“, að dómi Þjóðviljans, tekin við. — Og niðurstaðan er þetta: Hv. 8. þm. Reykv. mælir með frv., sem hér liggur fyrir. Áður máttu þeir ekki við margnum, blessaðir, segir í Þjóðviljanum. Og það er sagt í Þjóðviljanum, að fleiri sósíalista þurfi í bæjarstjórn og á þing. En mér finnst þetta mesti misskilningur. Mér virðist, að þessir, sem hér eru frá Sósíalistafl., geti vel runnið frá öllum stóryrðunum, þótt þeir séu ekki fleiri. Mér virðist ofanlátið ganga mjög greiðlega hjá þeim, þótt þeir séu ekki fleiri en tíu hér á þingi; sem sitja að því borðhaldi.