21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Það kann að vera, að það sé heldur illa varið tíma þ. þessa síðustu daga að fara langt í það að svara ræðu eins og þeirri, sem fram kom áðan hjá hv. þm. V.Húnv., enda skal ég ekki langt út í það fara. Það er ábyggilegt, að þetta mál verður samþ., hvort sem það verður rætt skemur eða lengur, og því aðeins til þess að tefja tímann að ræða það meir en gert hefur verið. Samt sem áður finnst mér ástæða til þess að segja örfá orð út af ræðu hv. þm. V.-Húnv., enda þótt hæstv. samgmrh. hafi nú gert henni allrækileg skil og ekki sé miklu við að bæta.

Hv. þm. V.-Húnv. játaði, að það hefði oftast verið þannig, að skattfrelsi Eimskipafélagsins hefði verið framlengt með samkomulagi undanfarin ár og 1928 hefði verið sett það skilyrði, að félagið borgaði aldrei meiri arð en 4% á ári af höfuðstól. Ég veit ekki annað en félagið hafi staðið við þetta skilyrði, og það mun ekki ætla sér að brjóta á neinn hátt þetta skilyrði um 4% ársarð til félagsmanna sinna. Það, sem virtust vera aðalrök hv. þm. V.-Húnv. fyrir því að afnema núv. l. um skattgreiðslur Eimskipafélags Ísl., kemur fram í nál. hans og er á þá leið, að fél. hafi grætt svo mikið árið 1943, að ekki sé hægt að framlengja skattfrelsi þess nú. Það er eins og upp hafi verið rekið harmakvein yfir því, að félagið skyldi hagnast svona á árinu. Ég álít, að það eigi að vera okkur Íslendingum gleðiefni, að okkar eigið félag, Eimskipafélagið, bætir hag sinn til þess síðar að geta aukið við skipastól sinn, alþjóð til hagsældar. Það má náttúrlega um það deila, að hve miklu leyti farmgjöldin voru réttlát á þessu ári. Ég hef litið svo á, að það væri að mjög miklu leyti fyrir óvænt höpp, sem Eimskipafélaginu féll þessi gróði í hlut. Ég hygg, að farmgjöldin hafi að mestu leyti verið miðuð við, hvað borgaði sig fyrir eigin skip fél. Ég hygg, að það sé rétt með farið, að á eigin skipum félagsins á þessu ári hafi verið lítill hagnaður. Næstum allur eða allur hagnaðurinn, sem kom fram hjá fél. á þessu ári, var á rekstri leiguskipanna, sem fél. fékk til afnota. Það, sem helzt ætti að vera ásökunarefni á hendur fél. í þessu sambandi, var það, að það skyldi ekki hafa flutningsgjöldin miklu lægri á leiguskipunum en sínum eigin skipum. Það má miklu frekar vera gleðiefni en sorgar fyrir þjóðina, að fél. bæti hag sinn, því að það gefur fél. tækifæri til þess að gegna betur þeirri skyldu að halda uppi samgöngum við önnur lönd.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að gróðinn hefði numið 23 millj. kr., og ég skal ekkert mótmæla því, en hvað ætli megi byggja mörg skip fyrir 23 millj. kr., eins og verðlagi er háttað nú?

Þá sagði hv. þm., að það væri ólíkt, hvernig að öðrum félögum eða útgerðarfél. í landinu væri búið, því að það væri illa að þeim búið.

Þetta er satt, og það hefur oft verið á það bent hér á Alþ., bæði af mér og mínum flokksbræðrum, en það er nýtt að heyra það orð frá hv. þm. V.Húnv., að það sé verr búið að útgerðarfyrirtækjum í okkar landi en skyldi.

Fjárþörf ríkissjóðs er svo mikil, að þurft hefur að grípa til þess úrræðis að leggja meiri og hærri skatta á útgerðarfélögin eða fyrirtækin en hyggilegt er vegna framtíðarinnar, og það er náttúrlega alveg rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þetta þyrfti að vera á annan veg, til þess að unnt væri að auka útgerðina og gera hag hennar betri en nú er að stefnt. En hver eru þá ráðin, sem hv. þm. vill grípa til? Hann vill ekki taka þessa peninga frá Eimskipafélagi Íslands í skattgreiðslum til þess að létta á öðrum fyrirtækjum, heldur vill hann, eins og hæstv. atvmrh. lýsti, til þess að þynna út og gera rýrari eignir fél. Tilgangurinn virðist vera sá einn að ná yfirráðum yfir þessum félagsskap.

Nú er það vitað mál, að flutningsgjöldin hafa síðan 1943 verið lækkuð til stórra muna, og það er ekki líklegt, að um neitt svipaðan gróða verði að ræða hjá fél. á næstunni og sennilega aldrei um ókomna framtíð og því sennilega ekki um það að ræða að setja undir þann leka, að slíkt endurtaki sig, sem gerðist 1943. Það er rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að ríkið hafi mikilla hagsmuna að gæta í þessu sambandi. Það hefur mikilla hagsmuna að gæta og þjóðin öll í því, að þetta fél. vaxi og dafni og geti sem bezt sinnt hlutverki sínu. Það getur það því betur sem betur er að því búið af ríkisins hálfu.

Það virtust nú vera einhver heilabrot um það hjá hv. þm., að í stað þess að kaupa skip eða láta smíða skip fyrir Eimskipafélagið væri réttara nú fyrst um sinn að taka leiguskip og komast þannig hjá að byggja skip. Hvort tveggja getur komið til mála, ég held þó, að hitt verði farsælla að láta byggja skip, og bezt hefði verið, að það hefði verið gert fyrr, en það voru skoðanabræður hv. þm. V.-Húnv., sem komu í veg fyrir það, að Eimskipafélagið byggði stór skip fyrir stríðið. (HelgJ: Þetta er ekki rétt.)

Varðandi þær greinar, sem hv. þm. V.-Húnv. var að lesa upp úr blöðum annarra flokka, þá þarf ég ekki að segja neitt um það. Þeir eru menn til þess að svara fyrir sig, en ég held, að hv. þm. hefði getað bætt því við að lesa upp úr Tímanum ýmsar greinar, sem birtust á árunum 1943–1944. Það var eðlilegt, að hann gerði það ekki, en ég tel, að það sé ekki ástæða til að harma það á neinn hátt, þó að þeir, sem standa að þeim blöðum, sem hv. þm. var að lesa upp úr, hafi öðlazt betri skilning á því en sumir þeirra höfðu þá, hvílík nauðsyn það er að búa vel að óskabarni þjóðarinnar, Eimskipafélagi Íslands.