21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hæstv. samgmrh. sagði. Annars geri ég ráð fyrir, að menn hafi hug á að ljúka þessari umr. á þessum degi, og skal ég ekki vera meinsmaður þess.

Hæstv. samgmrh. hefur vikið að því hvað eftir annað út af flutningsgjöldunum hjá Eimskipafélaginu, að Framsfl. hafi átt fulltrúa í stj. Eimskipafélagsins, sem hefði látið undir höfuð leggjast að aðvara ríkisstj. um það hneyksli, sem þar hefði verið í uppsiglingu. Framsfl. hefur engan fulltrúa þar, en hins vegar er fulltrúi ríkisstj. framsóknarmaður, en vinnur þar á engan hátt sem fulltrúi flokksins. Hæstv. ráðh. veit vel, að málefni eins og þau, hvernig farmgjaldataxtanum er háttað, heyra aðallega undir framkvæmdastjórnina. Hæstv. ráðh. og flokksbræður hans ættu að minnast þess, að verðlagsyfirvöldin hafa yfirleitt mjög látið uppi þá skoðun, að framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins hafi gefið ranga hugmynd um, hvernig farmgjöldin þyrftu að vera, og verðlagsráðið hefur afsakað sig með því, að það skyldi ekki hafa tekið fyrr í taumana.

Hann segir, að þau boð, sem boðin eru í till. Framsfl., séu þannig, að þeim hlyti að verða neitað. Þar er aðeins gert ráð fyrir, að menn fái nafnverð fyrir þau nýju bréf, sem út eru gefin. Þetta er náttúrlega alveg byggt á misskilningi hjá hæstv. ráðh. Í fyrsta lagi er það, að Eimskipafélagið fær að vísu ekki nema nafnverð greitt, þegar það lætur nýju hlutabréfin af hendi við ríkissjóð, en það fær skattfrelsi um óákveðinn tíma, og það er miklu meira virði. Ráðh. sagði, að eftir að nýju hlutabréfin væru afhent, væri félagið orðið ríkisfyrirtæki. Ríkið ætti þó aldrei meira en helming hlutabréfa, og munur er á helmingi og heilu. Það hefur aldrei komið neitt fram, sem sýni, að hluthafar félagsins ætli sér meira gagn af eign sinni í félaginu en nafnverði bréfanna nemur. Þessi afstaða hluthafanna hefur ekkert breytzt við efnaaukning félagsins, ekkert t.d. við hinn mikla gróða 1943. Þeir munu telja sig siðferðislega bundna við að gera það ekki. Ég er undrandi, að hæstv. ráðh. skuli ekki vilja leggja þessa skoðun, sem hluthafarnir hafa viðurkennt í verki, til grundvallar samningum við félagið og fallast á brtt. hv. þm. V.-Húnv. Eða vill hann í alvöru halda því fram, að hluthafarnir séu á gagnstæðri skoðun um skyldur sínar og takmörkin fyrir því, hvernig leyfilegt sé að verja fé félagsins? Eiginlega var það á honum að heyra. Menn hljóta að undrast það stórlega, að enginn hefur gengið lengra í því en hann að halda fram 100 % rétti hluthafanna til að gera af félagseignunum það, sem þeim sýnist. Hvað gengur honum til þess? Hann talar eins og hluthafarnir muni nota sér þann rétt til hins ýtrasta. Mér finnst glapræði að tala slíkt — að óreyndu.

Mér finnst það ófrávíkjanleg skylda forráðamanna landsins að halda hinum skilningnum fram gagnvart félaginu, ef einhverjir hluthafar vildu láta sjálfræði hluthafanna verða slíkt sem ráðh. bjóst við. Hinar sterku fullyrðingar forystumanna félagsins um, að hluthafar ætli sér ekki persónulegan hag af velgengni félagsins, eru sá grundvöllur, sem ófyrirgefanlegt væri að eyðileggja. Það virðist vera sjónarmið hæstv. samgmrh., að úr því búið sé að veita félaginu skattfrelsi áður, dugi ekki annað en gera það áfram ótakmarkað, því að ella yrðu eignir félagsins lagðar í eitthvað og eitthvað, sem hluthöfum þætti gróðavænlegast, eða fluttar úr landi, — félagið hefði engar skyldur, sem byndu það. Þetta er háskalega óheilbrigð skoðun. Skattfrelsi bindur. En mér finnst ekki hægt að veita hlunnindin áfram, nema það sé fest með nánari ákvæðum, hvers eðlis skuldbindingar félagsins við ríkið eru. Það, sem ráðh. stingur upp á í því efni, skilst mér vera heldur þýðingarlítið, þótt skárra sé en ekki neitt, að féð skuli notað til samgangna. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh., hvort svo eigi að skilja, að félaginu sé þá skylt að verja til þeirra ekki aðeins framtíðargróða, heldur einnig fengnum gróða, t.d. fúlgunni frá 1943.

Ráðh. reyndi tvívegis að draga S.Í.S. inn í þetta mál og sagðist ekki vera viss um, að það kærði sig um, að þessu fé yrði sundrað með löggjöf. Það mundi vissulega líta slíka löggjöf óhýru auga. En hér er um gersamlega óskylt mál að ræða: skuldbindingar, sem félagi er ætlað að gangast undir, ef það vill njóta tiltekinna hlunninda. Hvað kemur þetta S.Í.S. við? Ég var ekki að draga skipakaup inn í umr., þótt ég gæti um athuganir S.Í.S. viðvíkjandi skipakaupum og gerði það að gefnu tilefni í ræðu hv. 8. þm. Reykv. Þá var hæstv. ráðh. að brýna okkur framsóknarmenn á hlutum liðins tíma, tala um áhuga okkar á frjálsri verzlun o.þ.h. Við höfum báðir staðið að innflutningshömlum af illri nauðsyn á sínum tíma og hvorugur af því, að hann teldi slíkt ástand æskilegt, sem gerði þær nauðsynlegar. Enginn óskaði þess meir en ég, að unnt yrði að létta þeim af og leyfa frjálsa verzlun.

Ráðh. lét vel af samkomulaginu innan ríkisstj. og spurði, hvaða heimild ég hefði fyrir því, að það væri ekki gott. Ég hafði bara ræðuna, sem hv. 8. þm. Reykv. flutti í dag, þegar hann skýrði, hvers vegna flokkur hans hefði orðið að ganga inn á að viðhalda öðru eins fyrirkomulagi og blað flokks hans hafði lýst allsvæsið og hér hefur verið lesið upp. Ástæðan var sú, sagði hann, að það yrði flokkurinn að vinna til samkomulags. Ef flokkur neyðist til að sætta sig við það, sem hann telur hneyksli, er erfitt að skilja, að hann telji það gott samkomulag að vera neyddur þannig. Mér dettur ekki í hug, að það sé. Mér er sama, hvað ráðh. vitnar oft um elskulegt samkomulag. Nóg tilefni eru til að benda á hið gagnstæða.