21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti — (SigfS: Munum vér nú út ganga.) Hv. 8. þm. Reykv. kvartar undan því að hlýða á mál mitt, og verður hann vitanlega að taka það ráð að hverfa af hólminum. Ég tel nú líka, að þessu máli, sem hér liggur fyrir, muni verða ráðið eins heppilega til lykta, þótt hann komi þar hvergi nærri, og mundi ég sízt harma, þótt hann væri fjarri, ekki aðeins við umr., heldur einnig atkvgr. Býst ég við, að það væri málinu fyrir beztu.

Ég sagði hér í dag frá upplýsingum, sem er að finna í brezku tímariti, sem ég nafngreindi og kom út í des. s.l. Eru þar upplýsingar um verð á flutningaskipum af ákveðnum stærðum, bæði í Svíþjóð og Englandi, og er verðið tilgreint eins og það var fyrir styrjöldina og einnig nú. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, en það er eins og þær upplýsingar, sem ég gat um, hafi komið eitthvað óþægilega við hv. samgmrh. og hann virðist ekki geta stillt sig um að dylgja um það, bæði í síðustu ræðu sinni og eins áður, að þessi málafærsla mín væri þeirrar tegundar, sem ekki ætti að nota, og ég segði ekki nema hálfan sannleikann.

Ég held satt að segja, að það væri sæmilegra fyrir hæstv. ráðh. að kynna sér það, sem stendur í þessu tímariti, hann á þess vafalaust kost, heldur en að fara með þessar dylgjur, að það sé ekki rétt. (Samgmrh.: Það hefur enginn sagt, að það væri ekki rétt.) Hvers vegna er þá hæstv. ráðh. að halda fram, að ég segi ekki nema hálfan sannleikann og þessi málfærsla mín eigi ekki við? Ég hef aðeins sagt frá því, sem stendur í þessu brezka tímariti, og getur hæstv. ráðh. sjálfur kynnt sér það, hvort ekki er rétt, sem ég sagði um verð á skipunum, eins og frá því er sagt í tímaritsgreininni. Ég geri alls ekki ráð fyrir því, að þekkt tímarit, brezkt, fari að gefa upp verð flutningaskipa, sem séu þannig, að þau séu ekki hæf til þess að sigla á sjó og flytja vörur. Hins vegar segi ég aðeins frá þessu, sem stóð í tímaritinu um verðið, og ég held, að það væri rétt fyrir hæstv. ráðh., ef hann ekki trúir orðum mínum, að kynna sér það, áður en hann fer að halda því fram, að þetta muni ekki rétt vera.

Hæstv. ráðh. sagðist telja það æskilegt, að ríkið hefði meiri íhlutun um stjórn Eimskipafél. en það nú hefur. En hvað er þá í veginum? Hvers vegna getur þá hæstv. -ráðh. ekki fallizt á till. mína í þessu máli?

Ég þarf ekki að svara því, — hæstv. ráðh. eða aðrir þeir, sem nú hafa skipt um stefnu í þessu máli, bjarga sér ekki með því að reyna að koma ábyrgð á því, sem aflaga hefur farið, yfir á einn mann af 7 eða 9, sem í stjórn Eimskipafél. eru. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði einmitt vantað farþegaskip fyrir stríð, og í því sambandi minntist hann á það, að Esjan hefði verið notuð til farþegaflutninga milli landa. Esjan hefur líklega farið fáeinar ferðir fyrir stríð milli Skotlands og Íslands og flutt aðallega farþega. Ég býst ekki við, að þetta hafi eingöngu verið fyrir það, að svo sérstaklega hafi vantað skip til þessara farþegaflutninga eða það sanni nokkuð um það, að meiri þörf hafi verið fyrir farþegaskip en vöruflutningaskip. Ég hygg, að þetta hafi verið þannig, að Esjan hafi verið látin fara þessa ferð til þess að ná inn einhverjum tekjum til að mæta halla á útgerð skipsins að öðru leyti. Fyrst hæstv. ráðh. fór að tala um Esjuna í þessu sambandi, þá má gjarnan minna á, að það voru framsóknarmenn, sem stóðu fyrir því, að Esjan var keypt til landsins rétt fyrir stríð. Eimskipafél. hins vegar var þá með ráðagerðir um að kaupa stórt farþegaskip, en ekkert varð úr framkvæmdum. Mér þykir hins vegar ekki ólíklegt, að það hefði verið mögulegt fyrir Eimskipafél. á þeim árum að ná í skip til vöruflutninga, ef stjórn fyrirtækisins hefði lagt kapp á það.

Þá sagði hæstv. ráðh., að bæði ég og hv. 2. þm. S.-M. hefðum verið með því áður fyrr að veita Eimskipafél. skattfrelsi. Það er einkennilegt, að hæstv. ráðh. gerir ekki neinn greinarmun á því að veita fél. stuðning, þegar það átti litla sjóði og var fátækt fél., eða hinu að veita fél. sams konar fríðindi eftir að það er orðið fjársterkasta fyrirtækið í landinu., Hæstv. ráðh. sagði, að nú séu sett fram ný skilyrði fyrir þessum hlunnindum og vegna þess að slík skilyrði hafi ekki verið sett áður, hafi fél. verið frjálst að fara með eigur sínar eftir eigin geðþótta og það hafi verið eins og hvert annað hlutafél. Ég vil út af þessum ummælum hæstv. ráðh. spyrja um það, hverjir af ráðamönnunum í þessu fél. hafa verið með bollaleggingar um það að verja fé fél. til annarra hluta en til þess að efla samgöngurnar. Ég hef, sem betur fer, ekki orðið var við bollaleggingar um slíkt eða að neinum hafi dottið það í hug. Það hefur ekkert komið fram, sem bendir til, að nokkrum ráðamanni í Eimskipafél. hafi dottið í hug að draga fé út úr þeim rekstri, sem fél. hefur með höndum. Mér finnst liggja í þessum orðum hæstv. ráðh. ásökun á fél. og ráðamenn þess, um að þeir ætli sér þetta og því nauðsynlegt að taka það fram, að fél. eigi að verja tekjuafgangi sínum til kaupa á skipum eða á annan hátt í þágu samgöngumálanna. Það er svo gengið frá þessu í stjórnarfrv., að ekki er gott að skera úr um, hvort fél. er lögbundið til þess að verja þannig því fé, sem það hefur safnað í sjóð, eða ekki. Það er a.m.k. mikill vafi á því, að þannig sé hægt að skilja frvgr. eins og hún er orðuð. Ég vil nú bara benda á það, að ég sé ekki, að það sé neitt betur tryggt, nema síður sé, að fé fél. verði eingöngu varið til kaupa á skipum eða á annan hátt í þágu samgöngumála, þótt þetta frv. sé samþ. eins og stjórnin leggur það fram, heldur en þótt málið verði afgr. á þann hátt, sem við framsóknarmenn leggjum til. Það er vitanlega meiri trygging fyrir því, ef till. okkar verður samþ., að fé fél. verði varið á þann hátt, því að jafnvel þótt þetta ákvæði sé í stjórnarfrv., þá getur fél. vitanlega komizt hjá því, með því að nota sér ekki þau hlunnindi, sem l. veita. Þ.e.a.s. ef það ver fé sínu með öðrum hætti, þá skilst mér það verði ekki aðnjótandi þessara hlunninda, en þá er ekkert hægt við því að segja, a.m.k. kemur þetta frv. ekki í veg fyrir, að slíkt gæti átt sér stað, ef vilji væri fyrir hendi til slíkra ráðstafana, en ég hef aldrei orðið var við það. Ég sé því ekki, að það sé neitt merkilegt á ferðinni með þessu ákvæði eða skilyrði, sem sett er í frv., og þess vegna sé það ákaflega hæpið fyrir hæstv. ráðh. að afsaka snúning sinn og annarra stjórnarstuðningsmanna með þessu.

Hæstv. ráðh. fór nú að lesa upp till. mína í síðustu ræðu sinni. Ég held, að hann hefði átt að gera það í upphafi umr. En ég vil nú vænta þess, að það verði til þess að auka eitthvað skilning hans á málinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að ég legði til, að ríkissjóður eignaðist meiri hluta í fél., og yrði þá engin meirihlutastjórn þar. Ég hef nú ekki heyrt fyrr, að helmingur væri meiri hluti, að annar helmingurinn væri stærri en hinn. Það er ný uppgötvun hjá hæstv. ráðh., en annars verð ég að segja það, að einhvern tíma hefði það þótt í frásögur færandi, ef því hefði verið haldið fram, að ráðh. Alþfl. teldi það fyrir neðan allar hellur, að ríkið ætti helming af hlutafé Eimskipafél. Ísl. Sá hefði ekki þótt spámannlega vaxinn, sem hefði haldið því fram fyrir nokkrum árum, að ráðh. Alþfl. á árinu 1945 myndi telja það fyrir neðan allar hellur, ef till. kæmi fram um það, að ríkið eignaðist helming af hlutafé Eimskipafél.

Svo fór hæstv. ráðh. í ræðu sinni að bera saman Eimskipafél. og S.Í.S. Hann hefði átt að láta það ógert, því að það, sem hann sagði um þá hluti, sýndi allt of lítinn skilning á þeim mun, sem er á samvinnufél. og hlutafél. Hann fór að tala um, hvað við því yrði sagt, ef til þess yrði ætlazt, að S.Í.S. færi að dreifa sjóðum sínum út meðal landsmanna. Ég skal segja hæstv. ráðh. það, af því að það lítur út fyrir, að hann viti það ekki eða hann læzt ekki vita það, að hver einasti maður hér á landi hefur rétt til þess að gerast félagsmaður í samvinnufél. og þar með meðeigandi að þeim sjóðum, sem samvinnufél. og sambönd þeirra eiga. Hann þarf að vísu að uppfylla viss skilyrði, en þau eru þannig, að það mun fæstum erfitt. Það mun vera þannig, að til þess að öðlast inngöngu í samvinnufél. þurfa menn að leggja fram 10 kr. inngöngugjald og svo að hafa náð vissum aldri, þó ekki háum. Að bera þetta svo saman við Eimskipafél., sem er hlutafélag, lokaður félagsskapur, það er náttúrlega málfærsla út af fyrir sig, sem hæstv. ráðh. ætti sízt að hafa með höndum, og ég get einnig frætt hæstv. ráðh. um það, hvernig farið hefði, ef samvinnufélagsskapur hefði haft með höndum þann rekstur, sem Eimskipafél. hefur haft. Þá hefði þessu verið hagað þannig, að þau árin, sem tekjuafgangur varð verulegur hjá fyrirtækinu, hefði ríflegum hluta af honum verið úthlutað milli félagsmanna í hlutfalli við viðskipti þeirra hvers um sig, því að það er eitt af grundvallaratriðum samvinnufél. Þeir, sem borguðu of há flutningsgjöld, fengju hluta af því aftur í sinn vasa.

Ég sé sem sagt ekki, að það séu nema tvær leiðir til í þessu máli. Önnur leiðin er að breyta þannig stjórn fél. og valdaaðstöðu, að það verði sameign ríkisins og einstaklinganna, sem fyrir eru í fél., á þann hátt, sem við framsóknarmenn leggjum til, — að þar verði framvegis samstjórn ríkisins og einstaklinganna í málum fél. og fél. njóti þá áfram þeirra hlunninda, sem það hefur notið. Þetta er önnur leiðin. Hin leiðin er, að fél. starfi eins og hvert annað einstaklingsfyrirtæki og njóti þá ekki neinna hlunninda umfram önnur, því að þá verður fél. að taka því, að aðrir stofni til samkeppni við það á þessu sviði, og það er yfirleitt ekki hægt, ef það nýtur sérstakra hlunninda fram yfir önnur fyrirtæki. Hitt, að veita þessu fél. áframhald þessara hlunninda, án þess að íhlutun ríkisins um stjórn þess og rekstur verði aukin, er óverjanlegt með öllu, því að þannig er fél. veitt einokunaraðstaða, án þess að ríkið geti haft þar hönd í bagga að nokkru verulegu leyti, til þess að sjá um, að vel sé séð fyrir þörfum heildarinnar á hverjum tíma.

Hv. 7. þm. Reykv. flutti hér ræðu, en hann er nú ekki sjáanlegur hér núna. Ég vil þó með örfáum orðum víkja að ræðu hans. Hann virtist vera í mjög slæmu skapi (SK: Nei, í ágætu skapi), en síðast í ræðu hans kom fram skýring á því, þá sást það gjörla, af hverju þessi geðvonzka hans stafaði. Hv. 7. þm. Reykv. fór þá að tala um skattamál, þar er hundurinn grafinn. Ég benti á það í dag, hvað ýmsir af stuðningsmönnum núv. stj., ekki sízt þm. Sósfl., hafa orðið á sig að leggja í sambandi við þessa samvinnu, þar sem þeir hafa orðið að eta ofan í sig öll stóryrði sín frá s.l. ári um Eimskipafél. Ísl. En það er fleira, sem stuðningsmenn stj. munu hafa orðið að taka á sig og sumt óþægilegt, og er einn af þeim hv. 7. þm. Reykv., og það einmitt í sambandi við skattamálin, sem hann var að tala um. Ég minnist þess, að hér á árunum, meðan framsóknarmenn fóru með fjármálastjórnina, var því haldið fram dag eftir dag og ár eftir ár af sjálfstæðismönnum, að framsóknarmenn væru allt að sliga með skattaálögum, og ég held, að hv. 7. þm. Reykv. hafi ekki gengið skemmra í því en aðrir að ásaka framsóknarmenn fyrir það, sem hann og flokksbræður hans kölluðu „skattabrjálæði.“ , En svo kom að því, að menn úr flokki þessa hv. þm. urðu fjmrh., og þá fór þetta nokkuð á annan veg en menn höfðu búizt við, sem áður höfðu tekið mark á skrifum hans um skattamálin, því að nú tók ekki betra við, og aldrei hefur keyrt um þverbak eins og á þessu þ. Aldrei í sögu þjóðarinnar hafa verið bornar fram jafnmargar tegundir af sköttum og nú, og aldrei hafa verið lagðar jafnþungar byrðar á landsmenn og nú á þessu þ. Hv. þm. er því neyddur til þess að strika yfir öll sín stóru orð frá fyrri tíð, hvort sem honum líkar betur eða verr. En hann kveinkar sér undan þessu, og ber það meiri vott um manndóm heldur en hjá sósíalistum, og gremja hans yfir þeirri meðferð, sem hann hefur sætt, brýzt nú fram í miður fallegum orðum um Framsfl. Hv. þm. finnur sig standa nokkuð höllum fæti í skattamálunum, og þess vegna brýzt gremja hans fram í tilefnislausum ásökunum á hendur Framsfl., sem engar stoðir eiga í raunveruleikanum, enda getur hann engin rök fært fyrir máli sínu, sem ofur eðlilegt er, þar eð þau munu ekki fyrirfinnast.