22.02.1945
Neðri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skrifaði með fyrirvara undir nál. á þskj. 1146, sem varðar frv. til l. um skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands.

Nú hef ég leyft mér að bera fram brtt. við frvgr., sem er að finna á þskj. 1187. Brtt. er viðvíkjandi skattgreiðslu Eimskipafélagsins og er svo hljóðandi, að skattfrelsi nái ekki nema til ársins 1945, í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir, að það nái einnig til ársins 1946, og skattfrelsi verði ekki veitt nema að eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt: Í fyrsta lagi, að arður hluthafa fari eigi yfir 4%. Þetta ákvæði er í frv. sjálfu, svo að hér er ekki um breyt. að ræða. Annað atriði er um það, að tekjuafgangi félagsins á árinu 1944, að frádregnum arði skv. tölulið 1, verði varið til kaupa á skipum og á annan hátt í þágu samgöngumála, svo og öðrum sjóðseignum félagsins. Í þriðja lagi, að fram fari á árinu, samkv. reglum, er samgmrh. setur, könnun á því, hverjir séu núv. eigendur hlutabréfanna og hvað af bréfunum kunni að vera glatað. Að þessari könnun lokinni skal semja nýja hluthafaskrá og birta hana opinberlega. Í fjórða lagi, að samningar náist við félagið um þátttöku í kostnaði við strandsiglingar á þeim grundvelli, er hlutaðeigandi ráðh. samþ.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar brtt., a.m.k. í mínum augum eru þær allar sjálfsagðar.

Um þá síðustu og fjórðu er þess að geta, að hún er fram komin af öryggisástæðum. Það mundi fara mjög illa á því, ef ágreiningur risi á milli stj. Eimskipafélagsins og ríkisstj. um þátttöku Eimskipafélagsins í strandsiglingum eftir að félagið hefði hlotið af hálfu löggjafans sín sérstöku fríðindi innan þ jóðfélagsins, sem fólgin eru í skattfrelsinu. Í þessu felst ekki frá minni hálfu á nokkurn hátt nein aðdróttun að stj. Eimskipafélagsins um það, að ég búist við, að hún verði óbilgjörn í framkvæmdum sínum. En allur er varinn góður. Og ég hef alveg sérstakt traust til þess ráðh., sem með þessi mál fer, að hann misbeiti ekki valdi sínu á hinn bóginn til óþurftar fyrir Eimskipafélagið.

Í brtt. undir 3. tölulið er farið fram á, að skoðun verði gerð á því, hvort eigendaskipti hafi orðið mjög mikil á hluthafabréfum félagsins miðað við það, sem í öndverðu var. Hv. þdm. hafa tekið eftir því, að í umr. um þetta skattfrelsismál hefur verið látinn mjög í ljós grunur um það, að hluthafabréfin muni nú vera í miklu færri manna höndum en var í upphafi, meira að segja, að það sé orðin svo mikil röskun á, að það séu tiltölulega fáir menn innan þjóðfélagsins, sem eigi megnið af því hlutafé, sem hér er um að ræða. En á hinn bóginn hefur því líka verið haldið fram í hv. d., að Eimskipafélagið sé alþjóðareign. Hæstv. forsrh. lagði ríka áherzlu á það, og ég man eftir því, að hv. þm. a. -Húnv. talaði um Eimskipafélagið sem alþjóðareign og alþjóðarfyrirtæki. Frá beggja hálfu, þeirra, sem sett hafa fram þessar grunsemdir, og hinna, sem telja Eimskipafélagið vera alþjóðareign, er það talið aðalatriðið, að það sé alþjóðareign. Hvort sem réttara er í þessu tilfelli, að félagið sé alþjóðareign, sem ég skal ekki draga í efa, eða það sé það ekki, heldur eign tiltölulega fárra manna, þá mega báðir þessir aðilar vel við una, að þessi gr. verði samþ. Og ég trúi ekki fyrr en ég tek á, að hv. þdm. séu mér ekki sammála um það, að brýn nauðsyn sé að ganga úr skugga um þetta atriði, sem hér er um að ræða.

Hvað viðvíkur öðrum tölulið, þá er hann eiginlega settur aðeins til skýringarauka, því að þar er bætt við, að einnig sjóðseignum félagsins skuli varið í þágu samgöngumála og til skipakaupa. Þetta er auðvitað sjálfsagður hlutur, og kannske hefði ekki verið nauðsynlegt að taka þetta fram. En vel má það standa, og gott er, að það standi þar, því að nú hefur Eimskipafélagið það einmitt á prjónunum að útvega sér í það minnsta 6–7 skip og þau miklu stærri og dýrari en þau skip, sem áður hafa verið í íslenzka flotanum. Og það er bersýnilegt, að sjóðir félagsins munu ekki meira en svo hrökkva fyrir því að koma þessum framkvæmdum vel fyrir, og ætla má, að þessar eignir geri ekki meir en nægja til þess. Og einmitt till. um skattfrelsið er höfuðkjarni frv. og er miðaður við, að alls ekki megi rýra á nokkurn hátt sjóðina, þ.e. handbært fé félagsins, með skattaálagningu, vegna hinnar stöku nauðsynjar, sem á því er, að sjóðunum verði varið í þessum tilgangi. Ég geri ráð fyrir, að gr. geti ekki orkað tvímælis.

Meira sé ég ekki ástæðu til þess að ræða um þessar brtt. að sinni, á meðan enginn andmæli koma fram.