23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég er dálítið undrandi yfir orðum hæstv. ráðh., því að mér virðist málið komið í það horf, að það sé full þörf á að athuga það nánar. Mér skilst, að félagið geti ekki þegið þetta skattfrelsi, eins og hér er frá gengið.

Í 4. tölul. frv. segir:

„Samningar náist við félagið um þátttöku í kostnaði við strandsiglingar á þeim grundvelli, sem hlutaðeigandi ráðherra samþykkir.“ Það er og ljóst, að íhlutun ráðh. mun þýða það, að Eimskipafélagið verði að annast allar strandferðir. Og tel ég eftir þessu mjög vafasamt, að félagið geti þegið skattfrelsið, og þá vitum við, hvernig þetta fer.