01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál, en kemst þó ekki hjá því að segja nokkur orð, til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Hv. frsm. meiri hl. tók svo til orða, að Eimskipafélagið væri sameign allra landsmanna. Þetta er ofmælt hjá hv. þm. En ég held, að það sé ósk meiri hl. allra landsmanna, að félagið geti orðið full sameign, þó að ég þykist hins vegar sjá fram á, að engin tök séu á því að koma því til vegar á þessu þingi.

Afstaða Eimskipafélagsins nú er mjög einkennileg. Það nýtur allra sömu réttinda og aðstöðu eins og um fullkomlega opinbert fyrirtæki væri að ræða. En yfirráðunum er þannig háttað, að stjórn félagsins og hluthafafundur geta ráðið öllu um stjórn félagsins að öðru leyti en því, hve hátt hlutirnir eru greiddir út. Hluthafar og stjórn félagsins geta þess vegna alveg ráðið því, hvort félagið starfar eins og opinbert fyrirtæki með hag landsmanna allra fyrir augum eða hvort það starfar eins og venjulegt hlutafélag með eiginhagsmuni hluthafanna sjálfra fyrir augum.

Enda hefur það verið svo, að jafnan hafa verið skiptar skoðanir um, hvort halda skyldi áfram að veita þetta skattfrelsi, eins og hv. frsm. minni hl. réttilega gat um, og það, hver afstaða manna hefur verið á hverjum tíma til skattfrelsisins, hefur verið mikið eftir því, hver afstaða Eimskipafélagsins hefur verið á líðandi stund. Ég skal viðurkenna, að Eimskipafélagið hefur á margan hátt og oftsinnis, mér liggur við að segja oftast, hagað starfi sínu á þá lund, að það hefur ekki brugðizt þeim skyldum, sem ég vil segja, að skattfrelsið hafi lagt því á herðar. Mér er ánægja að lýsa þessu yfir. En það þýðir ekki að reyna að dylja það, að stundum hefur brugðið stórlega frá þessu. Ég geri þá játningu einlæglega, að ef mig hefði órað fyrir, þegar skattfrelsið var síðast veitt félaginu, fyrir 1943 og 1944, að félagið mundi nota aðstöðu sína á þann hátt, sem það gerði árið 1943, þá hefði ég greitt atkv. á móti skattfrelsinu, og ég hygg, að svo hefði verið um fleiri menn.

Ég kemst ekki hjá að minnast nokkuð á, hvernig aðstaða félagsins var á þessum árum. Hún var sú, að félagið fékk að láni hjá ríkinu skip, sem stj. Bandaríkjanna lánaði hingað í því skyni, að ríkisstj. væri mögulegt að fullnægja flutningaþörf landsmanna, og það er enginn efi, að eins og ástatt er í heiminum, voru ýmsir örðugleikar á því fyrir Bandaríkjastj. að missa af þessum skipum til okkar. Á þessum skipum græðir Eimskipafélagið hvorki meira né minna en yfir 20 millj. kr., sem er ekki til neins að leitast við að dylja, að hefur komið fram í hærra verði á vörum, sem skipin hafa flutt til landsins. Nú hafa stjórnarvöldin a.m.k. í orði kveðnu leitazt við að halda niðri dýrtíðinni. Er auðséð, hversu auðvelt það er, þegar félag eins og Eimskipafélagið gerir slíkar ráðstafanir. Ég skal játa, að það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að vissulega er þörf á þessu fé fyrir félagið í skipabyggingar, og má sjálfsagt með réttu segja, að þeirri þörf verði ekki fullnægt, þó að þetta fé verði allt notað. En það breytir ekki því, að þeir menn, sem eiga Eimskipafélagið, hafa engan siðferðilegan rétt til að afla þessa fjár á þennan hátt, og það er á móti. þeirri yfirlýstu stefnu, sem stjórnarvöld og Alþingi hafa margsinnis látið í ljós. En það, sem skeð er, verður ekki aftur tekið. En mér kom til hugar, þegar þetta varð heyrum kunnugt, hvort ekki væri hægt að grípa til sérstakra ráða, til þess að þingið tæki sér ráðstöfunarrétt á þessu fé, en vegna þess að í gildandi l. um skattfrelsi félagsins eru engin slík ákvæði, þá er það orðið of seint. Eimskipafélagið hefur orðið fyrir miklu áfalli í styrjöldinni, misst þrjú af sínum beztu skipum og hefur mikilla muna þörf. Ég tel því fjarri lagi að taka nokkuð af þessu fé til annars en að bæta úr flutningaþörf landsmanna. Hins vegar skiptir það miklu máli í mínum augum, hverjir eru umráðendur þessa fjár og þeirra verðmæta, sem fyrir það eru keypt. Nú er það mjög haft í munni, að Eimskipafélagið sé þjóðareign, og talið, að þetta megi réttlæta með því, að hluthafar muni vera um 13–14 þúsund. Ég verð að játa, að mér er algerlega ókunnugt um, hversu margir hluthafar eru nú í Eimskipafélaginu. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það veit enginn, ekki einu sinni félagsstj. sjálf. Ég styð það, að það er lítið, sem virðist vera um eigendaskipti á bréfunum, miklu minna en maður verður að gera ráð fyrir, að hlyti að vera að eðlilegum hætti. Sú einfalda skýring mun vera á því, að ekki nema lítill hluti eigendaskipta á bréfunum er tilkynntur til félagsstjórnar, og því fylgist hún ekki með þessu. Ég held, að það sé meira að segja ástæða til að ætla, að talsverður hluti bréfanna sé glataður, og væri ástæða til að innkalla bréfin og ganga úr skugga um, að hve miklu leyti er þannig ástatt, auk þess sem er sjálfsagt, að allur almenningur viti, hvernig ástatt er um eignarhald á bréfunum. Ég legg því mikið upp úr, að á þeim tíma, sem skattfrelsið gildir fyrir, þ.e.a.s. á árinu 1945, verði gengið úr skugga um, hverjir eru hinir raunverulegu eigendur fyrirtækisins, og ég vil ekki neita því, að það, hvaða niðurstöðu sú rannsókn gefur, getur að minni hyggju gefið tilefni til þess, að niðurstaða ýmissa manna til skattfrelsis félagsins verði á einn veg eða annan, breytilegan eftir því, hver niðurstaðan verður. Ég tel, að tryggilegar sé að þessu búið í frv. eins og það kom frá Nd. heldur en í till. meiri hl. n. í þessari d., og mun ég því greiða atkv. á móti till. n. Þar eru ákvæði um það, að tekjuafgangi félagsins frá árunum 1944 og 1945, svo og öðrum sjóðseignum félagsins, verði varið til skipakaupa. Ég sé enga ástæðu til að breyta þessu frá því, sem það er í frv. Ég lít svo á, að eftirlaunasjóður félagsins sé ekki sjóðseign félagsins, heldur sjóður, sem settur er til hliðar til að mæta skuldbindingum, sem félagið hefur tekið að sér vegna starfsmanna sinna. Þá er enn fremur í frv. gert að skilyrði, að samningar náist við félagið um þátttöku í kostnaði við strandsiglingar á þeim grundvelli, sem hlutaðeigandi ráðh. samþ. Þetta leggur meiri hl. til, að sé fellt niður. Er það að minni hyggju várhugavert. Eimskipafélagið flytur hingað til Reykjavíkur mikið af vörum, sem síðan er dreift með öðrum skipum út um land, sérstaklega með skipum, sem Skipaútgerð ríkisins hefur annazt rekstur á, og það er enginn efi, að sú greiðsla, sem Ríkisskip hefur fengið fyrir það, hefur ekki verið hærri en svo, að ekki er unnt að komast hjá halla af því, á sama tíma sem Eimskipafélagið græðir stórfé á að flytja vörurnar til landsins, eftir að hafa greitt þetta flutningsgjald til Skipaútgerðar ríkisins. Það er óeðlilegt, að Eimskipafélagið græði á að flytja vörur til landsins, en Skipaútgerð ríkisins tapi á að flytja þær út um land, þar sem flutningsgjöld Eimskipafélagsins eru miðuð við endanlegan ákvörðunarstað varanna.

Ýmsir segja, að það sé fjandskapur við félagið, sem valdi því, ef menn vilji ekki umyrðalaust fallast á skattfrelsið. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla því. Ég skal játa það, að þegar Eimskipafélagið á sínum tíma var stofnað, voru við það tengdar glæstar hugsjónir og miklar vonir og, að því er ég bezt fæ séð, engar arðvonir hjá einstökum mönnum. Hinu er ekki til neins að reyna að leyna, að stofnendum félagsins hefur þegar fækkað mjög og fækkar með hverju ári, sem líður. Bréfin hafa smátt og smátt komizt í eigu annarra eins og hver önnur gjaldgeng verðbréf, sem nema svo og svo miklu verðmæti í krónum og aurum. Það er óhjákvæmilegt, að þeir tímar líði, sem þeir menn stjórna félaginu, sem voru með í stofnun þess og fyrsta starfi og nærðust við þann eld, sem þá logaði. Og þá koma nýir menn, sem líta á félagið eins og hverja aðra eign, og þá er sjónarmiðið breytt. Það er því nauðsynlegt að stefna að því, að félagið megi verða sameign þjóðarinnar, og varast að gera breyt., sem geta valdið erfiðleikum við að ná því marki. Ég vil leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt., sem hljóður þannig: Orðin: „og 1946“ falli niður. — Ég hef stílað þessa brtt. við 1. gr., en athugaði ekki, að hæstv. forseti ber fyrst upp brtt. n., og vil ég því biðja hann að taka brtt. mína sem brtt. við efnismálsgr. till. meiri hl. fjhn., þó að hún hafi verið stíluð við frv., en ég skal taka fram, að þó að þessi till. yrði samþ. sem brtt. við till. n., þá mun ég greiða atkv. gegn þeirri till., en ef brtt. yrði felld, þá óska ég þess, að forseti taki hana sem varatill. við 1. gr. Ég vona, að hæstv. forseti verði við þessum tilmælum mínum, þó að ekki sé formlegar frá því gengið en þetta.