01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. taldi betra að samþ. till., mína, sem að vísu er tekin frá öðrum manni, heldur en samþ. frv. óbreytt. Ég er honum sammála um það, og ég held það sé ekki nein frágangssök að neinu leyti að samþ. þessa till. Það, sem hann hefur mest á móti þessari till., var það, að samkv. henni fengi ríkið raunverulega allt vald yfir Eimskipafél. og ráðh. gæti sagt hverjum, sem væri, í stjórn fél. fyrir verki o.s.frv. Nú er þetta auðvitað ekki rétt, ef hluthafarnir halda saman og nota atkvæðisrétt sinn, ríkið hefur aðeins jafnan rétt samkvæmt till. minni. En ég gat um það í minni fyrri ræðu, að ég hefði verið fús til samkomulags á þessum grundvelli, ef á þetta sjónarmið hefði verið litið í n. Og ég sagði, að ég gæti einnig tekið það til athugunar, ef um það væri að ræða að fá breytingu í þessa átt, að láta nægja minni hlutdeild ríkissjóði til handa heldur en talað er um í till., en láta hlutdeild hans halda áfram að vaxa, þangað til ríkissjóður hefði eignazt helming hlutabréfa. Það mætti hugsa sér, að félagið borgaði á tímabili með hlutabréfum upp í skatta, en það hætti svo, áður en það væri orðið helmingur þeirra. Og þá væri félagið skattfrjálst til frambúðar. Það er gagnrýnt, að ríkið geti ráðið í félaginu samkv. minni till. Það er því til að svara: Hvað er það, sem ríkisvaldið getur ekki ráðið nú? Mér sýnist ríkisvaldið taka sér vald svo að segja hvar sem er. Og samkv. yfirlýstri stefnu núv. ríkisstj. skilst mér, að ekki standi til að draga úr því valdi. Það er auðvitað, að ráðh. eru misjafnir, einn getur verið heppilegur og annar óheppilegur, en hitt efa ég ekki, að þótt stefnur manna séu misjafnlega heppilegar fyrir þjóðina, þá er ég viss um það, að enginn ráðh. úr hvaða flokki, sem hann er, gerir annað en það, sem hann telur, að þ jóðinni sé heppilegt. Ef hann gerir það ekki af þjóðfélagslegum ástæðum, þá gerir hann það af eigingjörnum ástæðum, því að aldrei borgar sig að gera vísvitandi rangt. Ég geri því ekki mjög mikið úr þessum ástæðum hv. þm. En þar að auki er ég fús til frekari samninga um takmarkanir á þessu.

Hv. þm. vildi véfengja það, sem ég hafði sagt, að Eimskip mundi ekki vera eins mikil sameign landsmanna og það var. Tveir aðrir þm. hafa vikið að þessu og verið mér sammála um þetta. Og þótt það hafi verið eftir öðrum hugsanagangi, þá komust þeir að sömu niðurstöðu. Og ég er sannfærður um, að það er rétt. Ég gæti einnig hugsað mér þá samkomulagsleið, að í stað þess, að ríkið eignaðist hlutabréfin, þá væri höfð sú tilhögun, að hafið væri nýtt útboð á hlutabréfum. Með því væri félagið gert að meiri sameign þjóðarinnar heldur en það er nú. En þótt það sé ekki rétt, að fél. sé sameign allrar þjóðarinnar, þá er það rétt, sem hv. þm. sagði beint og óbeint, að auðvitað hefur þetta félag mikla samúð allrar þjóðarinnar. Og ég álít það sé alls ekki af neinu samúðarleysi eða illvilja í garð félagsins, þótt slík till., sem ég hef tekið upp; sé borin fram, þótt í það hafi verið látið skína. En það gerði ekki hv. þm., þarf ég ekki að segja þetta til hans.

Út af verði hlutabréfanna skal ég geta þess, að ég veit ekki beinlínis, að þau gangi kaupum og sölum. En trúað gæti ég því, ef þau eru seld á annað borð, að þau færu þá æðimikið yfir nafnverð. Og það er vitað, að ef athugaður er hagur Eimskips, þá er verð þeirra í raun og veru orðið margfalt. Það er í sjálfu sér réttmætt að miða við það, hvaða eignir eru á bak við þessi hlutabréf. Og þær eru margfaldar á við hlutafjárupphæðina. Og ekkert félag hefur bætt hag sinn, án þess að hlutabréf þess hækkuðu í verði, og það gildir einu, þótt það sé að þakka aðgerðum löggjafarvaldsins. Og það er ekki hægt að neita því, að gróði Eimskips er fyrst og fremst löggjafarvaldinu að þakka. Hv. þm. S.-Þ. sagði, að gróði Eimskips væri í raun og veru gjöf frá Ameríkumönnum. Ef svo er, má eins segja, að gróði ýmissa fyrirtækja sé gjöf frá Bretum eða einhverjum og einhverjum, sem keypt hafa vörur frá okkur fyrir hátt verð. Slíkar gjafir eru skattlagðar hjá fyrirtækjum. Eimskipafélag Íslands er alls góðs maklegt, en að það sé svo yfir alla gagnrýni hafið, að ekki megi nefna það á nafn, það get ég ekki fallizt á, m.a. vegna þess, að mörg fyrirtæki í landinu greiða mikla skatta, án þess að nokkur landsmaður óski, að rekstur þeirra legðist niður. Nú er mín till. í raun og veru ekki um það að afnema á neinn hátt þau fríðindi, sem Eimskip hefur haft undanfarið. Þess vegna gæti Eimskip notað allt sitt handbært fé og það fé, sem fél. kann að fá, til þess að koma upp nýjum skipastól. Og það er rétt, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að í landinu er ekki til fé í neinum opinberum sjóði til nýrra skipakaupa annað en það, sem Eimskip á. Það er hárrétt að nota féð í sama tilgangi og þess er aflað. Mín till. raskar því ekki á neinn hátt.

Ég vil svo segja það að endingu, án þess ég vilji fara langt út í það mál, að ég skil tæplega afstöðu hv. 3. landsk. Mér virðist hann að mörgu leyti sammála mér. Mér virtist munurinn liggja aðallega í því, að hann vildi ganga enn lengra en ég. Ég skildi hann ekki öðruvísi en hann vildi gera Eimskipafél. a.m.k. á sínum tíma að meiri alþjóðarstofnun heldur en það væri. Það, sem ég ekki skildi, var niðurstaðan, sem er sú, að hann ætlar að greiða atkvæði á móti till. minni. Eftir ræðu hans að dæma skildist mér hann ætti að greiða atkvæði með þeirri till., eins og hv. þm. Barð. ætti einnig að gera. Þá ætti þetta að geta orðið miðlunarleið, sem hægt væri að sættast á.