21.02.1944
Efri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

21. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Frv. þetta er flutt af allshn. Nd. samkv. sameiginlegri ósk frá forsetum þingsins. Hér í þessari hv. d. hefur frv. verið vísað til allshn., sem hefur athugað frv. og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.

Eins og tekið er fram í grg. frv., er tilgangur þess sá að samræma orðalagið í l. um meðferð einkamála í héraði frá 1936 við orðalag síðari l., sem snerta sama efni. Er það einkum 7. tölul. 32. gr. l. um meðferð einkamála í héraði, sem þetta frv. hefur til meðferðar. Í 32. gr. l. nr. 85 frá 1936 er þess krafizt um þá, sem skipun vilja fá í föst dómaraembætti, að þeir verði að hafa gegnt mikilvægum störfum í þrjú ár fyrir þjóðfélagið. Þessi störf eru talin upp í 32. gr., og meðal þeirra er talið fulltrúastarf við lögmanns- og lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Með l. frá 1939 var lögreglustjóraembættinu í Reykjavík skipt og stofnað sakadómaraembætti. Síðan hefur lögmannsembættið verið lagt niður og stofnuð tvö embætti í þess stað, borgardómaraembætti og borgarfógetaembætti. Hér hafa því myndazt fulltrúastörf sem dómstörf við þrjú embætti í bænum, borgardómaraembætti, borgarfógetaembætti og sakadómaraembætti, án þess að þau störf séu nefnd í l. um meðferð einkamála í héraði. Þótt litið kunni að verða svo á, að lögjöfnun leiði til þess, að fulltrúar við þessi embætti falli undir ákvæði 7. tölul. 32. gr. einkamálal., þykir þó réttara að taka af allan vafa þar um og breyta því tölul. á þann hátt, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Hin breyt., sem telja má efnisbreyt., er í því fólgin, að skrifstofustjóri Alþ. og fulltrúi í skrifstofu þess njóti sama réttar og samsvarandi starfsmenn í stjórnarráðinu. Allshn. taldi þessa breyt. sjálfsagða. Störf skrifstofustjóra Alþ., eru fullkomlega sambærileg við þau önnur störf, sem menn þurfa að leysa af hendi, til þess að skipa megi þá í dómaraembætti, og meira að segja eru skrifstofustjóri Alþ. og fulltrúi hans miklu betur þjálfaðir undir dómarastörf en fulltrúar og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. Virðist því ekki nema sjálfsagt, að þessi breyt. sé einnig gerð.

Ég vil svo fyrir hönd allshn. leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.