04.02.1944
Efri deild: 7. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

22. mál, Menntaskóla á Akureyri

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir á þskj. 25, er flutt samkv. beiðni skólameistara við Menntaskólann á Akureyri og kennara við þann skóla. Tilgangur frv. er að nema burt það misræmi, sem nú er á vinnutíma kennara Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans í Reykjavík.

Þegar sett voru l. fyrir Menntaskólann á Akureyri, þau er þetta frv. er breyt. við, frá 19. maí 1930, var sett í 14. gr. l. ákvæði um, hvernig kennslustundir kennaranna skyldu vera á viku hverri eða alls 26. Í reglugerð, sem Menntaskólinn í Reykjavík starfar eftir, er hins vegar svo ákveðið, að hámark kennslustunda skuli þar vera 24 stundir á viku. Hins vegar er yfirkennurum við þann skóla ekki ætlað að kenna nema 22 stundir á viku og yfirkennurum, sem eru yfir sextugt, aðeins 20 stundir á viku. Slíkur greinarmunur mun ekki vera gerður á Akureyri, enda mun titillinn yfirkennari ekki vera notaður þar, en hér mun sá talinn yfirkennari, sem hefur kennt í 16 ár við skólann. Sá mismunur, sem þannig kemur fram á stundafjölda á Akureyri og í Reykjavík, er þannig frá 2 og upp í 6 kennslustundir á viku. Auk þess er gert ráð fyrir við báða skólana, að fækka megi kennslustundum hjá þeim, sem hafa mikla heimavinnu vegna skriflegra verkefna, á Akureyri mest 4 stundir á viku, en í Reykjavík mest 5 stundir á viku. Mesti munur á fjölda kennslustunda í Reykjavík og á Akureyri er því 7 stundir, sem stundafjöldinn er meiri á Akureyri en í Reykjavík.

Kennurum og skólameistara við Menntaskólann á Akureyri hefur fundizt ósanngjarnt, að þessi munur væri látinn eiga sér stað. Hafa þeir því farið fram á, að þetta frv. væri flutt með það fyrir augum að fá numinn úr gildi þann mismun, sem nú er á kröfum til vinnustundafjölda við hvorn skólann fyrir sig.

Það mun hafa verið svo, þegar sett voru l. um Menntaskólann á Akureyri og hann var að byrja að starfa, að kennslutími var styttri á hverju ári en hér í Reykjavík. Mun Akureyrarskólinn í byrjun hafa starfað mánuði skemur en skólinn í Reykjavík, og mun stundafjöldi fyrir kennarana hafa verið ákveðinn hærri þar, m.a. með tilliti til þess. Síðan hefur þessu verið breytt, svo að nú er starfstíminn á Akureyri sá sami og hér, svo að sú ástæða er ekki lengur fyrir hendi.

Vera má, að það hafi einnig verið talin ástæða til þess mismunar, að á þeim tíma var ódýrara að lifa á Akureyri en í Reykjavík og kennarar þar því ekki haft lakari aðstöðu til afkomu, þó að þessi munur væri gerður á kröfum til vinnustunda við skólana. Ef það hefur verið talin ástæða þá, þá er hún einnig fallin niður, því að það er alkunnugt, að fyrir þær verðlagsákvarðanir, sem nú hafa verið framkvæmdar af ríkisvaldinu síðustu árin, hefur gersamlega fallið niður sá munur, sem áður var á dýrtíðinni í Reykjavík og annars staðar, því að eins og kunnugt er, gilda sömu verðlagsákvæði fyrir allt landið, en leggja má aukalega á vöruna vegna flutningskostnaðar. Ef því einhverju munar, þá er dýrtíðin jafnvel meiri utan Reykjavíkur. Hafi þetta verið talin ástæða, þá er hún nú brottu fallin. Ég álít þess vegna, að engin ástæða sé til, að þessi mismunur sé lengur gerður, og vænti því þess, að allir hv. þdm. og síðan þingið allt geti orðið sammála um að samþ. þetta frv., svo að kennslustundafjöldi kennaranna við báða menntaskólana verði hinn sami.

Ég skal aðeins geta þess, að 14. gr. l. eins og hún er nú felur ekki annað í sér en upptalningu kennslustundafjölda kennaranna. Með því að breyta henni í þá átt, sem lagt er til í 1. gr. frv., þá er sú upptalning felld niður, en í staðinn kemur aðeins það ákvæði, að um stundafjölda skuli farið eftir þeirri reglugerð, sem Menntaskólinn í Reykjavik starfar eftir. Af því mundi leiða, að hvenær sem þeirri reglugerð væri breytt, mundi kennslustundafjöldi kennara við Menntaskólann á Akureyri breytast að sama skapi og skólarnir þannig ætíð fylgjast að.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.