01.03.1944
Neðri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

22. mál, Menntaskóla á Akureyri

Sigurður E. Hlíðar:

Ég vonaðist til, að n. tæki bendingu mína til athugunar og mundi fallast á leiðréttinguna, þar sem megintilgangur frv. er, eins og segir í grg., „að starfsmönnum þessara stofnana séu búin sömu kjör.“ Það er ekkert nema kákbreyting, að fjöldi kennslustunda hvers fastakennara lækki um einn eða tvo tíma á viku, ef ekki verður jafnrétti með skólunum um fjölda fastakennara. Einn kennarinn við Akureyrarskólann hefur verið þar aukakennari 20 ár án þess að heita nokkru sinni fastur aukakennari né öðlast rétt fastakennarans, svo sem eftirlaunarétt, er hann léti af embætti. Það er hart, að ekki skuli vera leyfilegt að lögum að veita honum rétt hinna föstu kennara, þótt hann sé raunar búinn að vera fastur kennari allan þennan tíma. Mér þykir miður, að n. gat ekki fallizt á að leiðrétta þetta misræmi. Ég hef litla trú á milliþinganefndum og mjög litla í þessu máli, fyrst n. lét það ógert, sem mér finnst vera réttlætismál.