17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Í framhaldi af till. til þál. um dansk-íslenzka sambandslagasamninginn, sem ég flutti í Sþ. á föstudaginn var, flyt ég nú hér í Nd. fyrir hönd ríkisstj. frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. — Ég leyfi mér í þetta sinn að vísa til þeirra orða, er ég mælti í Sþ. við flutning áðurnefndrar till. og flestir hv. þdm. munu hafa hlustað á. En til viðbótar því vil ég taka þetta fram, að því er varðar sérstaklega það frv., er hér liggur fyrir:

Frv. er flutt óbreytt frá því, sem mþn. gekk frá því og afhenti það ríkisstj. til geymslu. Nú lýsti stj. yfir því 1. nóv. s.l., að hún teldi „miklu varða, að algert samkomulag geti orðið um afgreiðslu ályktunar Alþingis um stofnun lýðveldis á Íslandi, og ekki síður, að öll þjóðin geti sameinazt um lausn málsins“, og þar sem menn af hálfu allra flokka þingsins hafa unnið að því að gera frv. úr garði á þann hátt, sem orðið er, taldi stj. að athuguðum öllum málavöxtum, að hún rækti bezt skyldur sínar með því móti að bera frv. fram óbreytt, enda þótt hún telji nokkrar breyt. á því æskilegar, svo sem um vald forseta lýðveldisins og að hann verði þjóðkjörinn, enda getur mþn. þess í nál. sínu, að hollazt kunni að verða að því ráði, þótt meiri hl. n. leggi til, að forsetinn verði þingkjörinn. Annars mun stj., eins og tekið er fram í athugasemdum hennar við frv., koma brtt., sem hún telur æskilegar, á framfæri, er n. þær, er deildir þingsins skipa til þess að athuga frv., hafa tekið til starfa. Mun ég því ekki ræða þau efni frekar.

Þó þykir mér rétt að taka fram, þótt það sé óþarft gagnvart hv. þdm., að þær einar breyt. getur að þessu sinni verið um að ræða á gildandi stjórnarskrá, sem beinlínis leiðir af breyt. á stjórnarformi ríkisins úr konungdæmi til lýðveldis og falla innan þess ramma, sem stjórnarskrárákvæðið frá 15. des. 1942 markar, en a.m.k. tvær breyt., sem í frv. er lagt til, að gerðar verði, virðast falla utan þessa ramma. Þær breyt. á gildandi stjórnarskrá, sem gera þarf og gera má, er æskilegt að greina glögglega í sjálfum textanum, t.a.m. með skáletri, svo að kjósendur, sem eiga að taka afstöðu til frv., þegar Alþ. hefur búið það þeim í hendur, eigi hægara með að vita skil á því, sem þeir eiga að greiða atkv. um.

Ég óska þess, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og n., sem sérstaklega verður kjörin til að athuga það.